Fræddi nemendur um tölvuleikjagerð

Magnús Friðrik Guðrúnarson frá tölvuleikjafyrirtækinu Myrkur Games kom í heimsókn í Fjölbrautaskólann við Ármúla á dögunum og hitti nemendur í tölvuleikjaáföngum skólans. Undanfarin ár hefur Myrkur Games unnið að gerð Echoes of the End, sem er nýr hasar-ævintýraleikur sem gerist í nýjum fantasíuheimi. Hátækni hreyfirakningar- og ljósmyndaskönnunartækni er notuð við gerð leiksins þar sem hreyfingar leikara eru yfirfærðar á persónur í tölvuleiknum. Magnús fór um víðan völl í erindi sínu, kynnti fyrirtækið, ræddi um mikilvægi nýsköpunar og hugvits fyrir atvinnulífið og íslenskt samfélag, benti á fjölbreytta atvinnumöguleika innan tölvuleikjageirans ásamt því að svara fjölmörgum spurningum frá nemendum. Þess má geta að þá er Magnús Friðrik fyrrum nemandi FÁ. Árið 2017 flutti hann kveðjuávarp fyrir hönd nýstúdenta og hafði margt jákvætt að segja um skólann: „Ég er í FÁ í skóla þar sem mín saga er bara eitt dæmi af mörgum, skóla sem hvetur mig og sýnir mér það sem ég leitaði að fyrir mörgum árum, skilningi. FÁ gaf mér tækifæri til að vera ég sjálfur, tækifæri til að njóta námsins á mínum eigin forsendum.“ er meðal þess sem Magnús sagði í sinni góðu og uppörvandi ræðu. Hægt er að lesa nánar um Myrkur Games og Echoes of the End á Myrkur.is. Nemendur sem hafa áhuga á tölvuleikjum er bent á að kynna sér úrval tölvuleikjaáfanga sem í boði eru, meðal annars má nefna áfangana leikjahönnun, yndisspilun og rafíþróttir.

Ormhildur hin hugrakka

Um daginn fórum nemendur í heimsókn í hreyfimyndaver "Ormhildar hinnar hugrökku". Ormhildur þessi er skrímslabani og  aðalkarakter í nýrri teiknimyndaseríu sem gerist á Íslandi í framtíðinni eftir að bráðnun jökla og hnattræn hlýnun hefur leyst fjölmargar kynjaskepnur úr fjötrum. Höfundur og leikstjóri þáttanna er engin önnur en okkar eigin Þórey Mjallhvít, listgreinakennari við FÁ.

Rafrusladagurinn haldinn um allan heim

Rafrusladagurinn var haldinn um allan heim í vikunni og tók skólinn þátt í vitundarvakningunni. Áhersla rafrusladagsins í ár eru biluð, ónýt eða ónotuð raftæki sem fólk geymir á heimilum sínum. Mörg lítil raftæki er oft finna í skúffum heimila t.d. gamlir farsímar, snúrur, USB-lyklar, kortalesarar, leikjatölvur, smáheyrnartól og þess háttar. Raftæki eru allir hlutir sem eru með kló, snúru eða rafhlöðu. Til hvers að endurvinna raftæki? Raftækjaúrgangur inniheldur mikið af verðmætum; sjaldgæfum málmum (t.d. kopar og gull) og fleiri efnum sem mikilvægt er að koma í endurvinnslu. Mörg raftæki innihalda auk þess efni sem eru skaðleg umhverfinu, fari þau ekki í réttan farveg. Hver er skaðinn? Aðeins um 17 prósent af rafrusli heimsins ratar í fullnægjandi endurvinnslu. Gríðarlegt magn af raftækjaúrgangi verður til á hverju ári og er umfangið sífellt að aukast. 62 milljón tonn af raf- og rafeindatækjaúrgangi á heimsvísu árið 2022. Þetta magn jafngildir því að 1,55 milljón vörubílum, hlöðnum rafrusli, yrði stillt upp við miðbaug jarðar og næðu allan hringinn. Eftir hvern Íslending liggja um 24 kíló af rafrusli á ári. Samtals vegur árlegt rafrusl landsmanna um níu þúsund tonn. Hvað getum við gert? Við getum athugað hvort gömul raftæki liggi í skúffum og skápum og skilað þeim á næstu endurvinnslustöð. Elko tekur einnig á móti gömlum raftækjum og í sumum tilfellum er hægt að skila þeim og fá inneignarnótu í staðinn. Viltu finna milljón? Sumum raftækjum er hægt koma í viðgerð, gefa/selja og lengja þannig líftíma þeirra. Þá leynast oft raftæki í fullkomnu standi inná heimilum fólks sem safna ryki og bíða eftir nýjum áhugasömum eiganda. Hægt er að kynna sér málið enn betur á vefsíðu Saman gegn sóun https://samangegnsoun.is/raftaeki/ og á vefsíðu Úrvinnslusjóðs https://www.urvinnslusjodur.is/um-urvinnslusjod/utgafa/tilkynningar/althjodlegi-rafrusldagurinn.

Franskir gestir í heimsókn í FÁ

Í september fengum við góða gesti frá Frakklandi í heimsókn í FÁ. Þau Katell Perrot og Colette Masson-Gauthier, kennarar í ensku, landafræði og jarðfræði, komu ásamt 18 nemendum frá Fougères, Frakklandi. Þau fengu að heimsækja kennslustundir, fræðast um FÁ og um náttúru Íslands. Þau gerðu skemmtilegt myndband um ferðina sem má sjá með þessari frétt.

Skólafundur

Í dag, miðvikudaginn 9. október var haldinn skólafundur í FÁ, en hér í FÁ er haldinn skólafundur einu sinni á ári. Þá er kennsla felld niður og nemendur og starfsfólk ræða um ýmis málefni er varða skólann og nemendur. Þetta er mikilvægur lýðræðislegur vettvangur fyrir nemendur skólans til að koma sínum málefnum á framfæri. Í þetta skiptið settust nemendur niður í kærleikshring með kennaranum sínum og rædd voru ýmis mál sem eru mikið í umræðunni hér á Íslandi í dag eins og líðan, aukið ofbeldi meðal ungmenna, jákvæð og neikvæð samskipti, áhrif samfélagsmiðla, kærleikann og fleiri málefni. Nemendur voru áhugasamir og höfðu margt til málanna að leggja um þetta mikilvæga málefni.

Halla Tómasdóttir forseti Íslands í FÁ

Í gær fengum við Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands og fyrrum nemanda skólans í heimsókn. Heimsókn Höllu var hluti af verkefninu „Riddarar kærleikans“ þar sem hún ræðir við ungt fólk um hvernig við getum gert kærleikann að okkar eina vopni. Hópur nemenda úr skólanum settist niður með forsetanum, mynduðu kærleikshring og ræddu af einlægni hvernig við bætum andlega líðan og samfélagið okkar með kærleik. Unga fólkið var mjög áhugasamt og voru umræðurnar góðar og uppbyggilegar. Halla sagði nemendum einnig frá veru sinni hér í skólanum. Eftir kærleikshringinn rölti forsetinn um gamla skólann sinn, fann gömlu útskriftarmyndina sína upp á vegg sem henni fannst mjög skemmtilegt. Svo heimsótti hún nokkrar kennslustundir. Nemendur skólans tóku mjög vel á móti henni og var hún óspör á knúsin, handaböndin og myndatökurnar. Í lokin var hún leyst út með gjöf frá skólanum, taupoka og bolla með merki skólans frá Magnúsi skólameistara. Við þökkum Höllu kærlega fyrir heimsóknina og er það okkar einlæga von að við öll gerum kærleikann að eina vopninu í íslensku samfélagi.

Fréttabréf FÁ - október

Hér kemur nýjasta fréttabréf FÁ, beint úr prentsmiðjunni. Fjölbreytt efni að vanda, farið er yfir það helsta sem er á döfinni og hvað við erum búin að gera í september. Næsta fréttabréf kemur út um miðjan nóvember.

Umhverfisráð FÁ fær styrk úr Loftslagssjóði Reykjavíkurborgar

Borgarráð hefur samþykkt að veita 500.000 króna styrk fyrir verkefninu „Loftslagspartý framhaldsskólanna“. Verkefnið gengur út á að efla samvinnu framhaldsskóla í umhverfismálum og halda stóran loftslagsviðburð fyrir ungmenni í Reykjavíkurborg. Samstarfsskólar Fjölbrautaskólans við Ármúla í verkefninu eru Tækniskólinn og Menntaskólinn við Sund. Umhverfisráðin í skólunum þremur koma til með að skipuleggja loftslagsviðburðinn saman og verður hann haldinn fyrir lok árs. Loftslagssjóður ungs fólks í Reykjavík er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Bloomberg philanthropies. Markmið sjóðsins er að virkja ungt fólk í leit að lausnum á loftslagsvandanum en sjóðurinn veitir styrki til verkefna sem eru hönnuð og unnin af ungu fólki á aldrinum 15-24 ára og hafa beina skírskotun í loftslagsáætlun borgarinnar. Styrkurinn var afhentur við fallega athöfn í Höfða í dag og mættu fulltrúar frá umhverfisráði FÁ á afhendinguna, þær Thelma Rut Þorvaldsdóttir og Bríet Saga Kjartansdóttir. Við óskum þeim og umhverfisráðum skólanna innilega til hamingju með styrkinn.

Íþróttavika og skautaferð

Það var mikið um að vera í FÁ í síðustu viku þegar haldin var íþrótta- og forvarnarvika samhliða Íþróttavika Evrópu (European Week of Sport). Boðið var upp á frábæra og fjölbreytta dagskrá eins og instagram leik, hoppukastala, boðið var upp á ávexti, bekkpressukeppni, treyjudagur ofl. Bryndís Lóa skólasálfræðingur var með áhugaverðan fyrirlestur fyrir alla nýnema og aðra áhugasama um áföll og mýtur. Hápunktur vikunnar að vanda var skautaferðin í Skautahöllina í Laugardalnum. Þar skemmtu um 200 nemendur sér á skautum, alltaf jafn gaman.

Nemendur í umhverfisfræði á Þingvöllum

Nemendur í umhverfisfræði fóru í heimsókn í þjóðgarðinn á Þingvöllum í gær í dásemdar haustveðri. Þar tók Torfi Stefán Jónsson, fyrrum sögukennari í FÁ og núverandi fræðslufulltrúi á Þingvöllum, á móti nemendum og fengu þau fræðandi og skemmtilega leiðsögn um svæðið. Alltaf jafn skemmtileg ferð hjá umhverfisfræðinni á Þingvelli.