09.10.2025
Fjölbrautaskólinn við Ármúla tók á móti gestum frá Ítalíu, Grikklandi og Tyrklandi í september í tengslum við Erasmus+ verkefnið We Shape the Future: Integrating AI, AR and VR in Education. Boðið var upp á fjölbreytta dagskrá og vinnustofur þar sem þátttakendur könnuðu hvernig hægt er að nýta sýndarveruleika í námi og kennslu. Nemendur, kennarar og aðrir þátttakenndur lærðu meðal annars að skapa sína eigin sýndarheima og prófuðu sýndarveruleikabúnað þar sem þau gátu flogið um sólkerfið í geimskipi. Dagskráin endaði með vel heppnaðri ferð um Gullna hringinn ásamt fræðandi leiðsögn og klassískum íslenskum flatkökum með hangikjöti.
06.10.2025
Nemendur úr FÁ og MS fóru í síðustu viku á Sólheimajökul ásamt leiðsögumanni frá Asgard Beyond. Ferðin var hluti af verkefninu Draumur um jökul, sem er samstarfsverkefni skólanna og Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, tileinkað alþjóðlegu ári jökla.
03.10.2025
Nemendur í Hjúkrun aldraða (HJÚK3ÖH05) hjá Eddu Ýri fengu góða heimsókn í tíma í gær. Þá kom hún Halldóra Þórdís Friðjónsdóttir hjúkrunafræðingur frá Fríðuhúsi. Fríðuhús er dagþjálfun rekin af Alzheimersamtökunum. Hún var með fyrirlestur og verklega kennslu í umönnun fólks með heilabilun. Virkilega áhugavert erindi og gagnlegt. Takk fyrir komuna Halldóra!
01.10.2025
Það var stuð í Skautahöllinni í gær þegar nemendur FÁ skelltu sér á skauta í tilefni af íþróttaviku Evrópu og forvarnardeginum. Hér má sjá skemmtilegar myndir af skautaferðinni.
26.09.2025
Evrópski tungumáladagurinn er haldinn í tuttugasta og fimmta sinn í dag, 26. september. Þemað í ár er „Languages open hearts and minds!“.
Við hér í FÁ héldum upp á daginn í gær. Við skreyttum skólann með fánum og veggspjöldum um tungumál Evrópu. Spiluð voru lög á ýmsum tungumálum í frímínútum og svo var tússtafla á Steypunni þar sem að nemendur og starfsfólk áttu að skrifa “til hamingju með afmælið” á sem flestum tungumálum. Virkilega skemmtilegur dagur.
24.09.2025
Nemendur í AM umhverfisfræði fóru í vettvangsferð í þvottalaugarnar í gær til þess að kynna sér jarðhita og hvernig hann hefur verið notaður á Íslandi í gegnum tíðina. Það var við hæfi á bíllausa daginn að flestir nemendur gengu eða fóru á hlaupahjólum. Ferðin var einnig hópefli fyrir nemendur í áfanganum þar sem þeir lærðu nýjan hörkuspennandi útileik.
Myndin var tekin við útilistaverkið Þvottakona (1958) sem er eftir Ásmund Sveinsson myndhöggvara og stendur í Laugardalnum til minningar um vinnu þvottakvenna. Það er ótrúlegt hvað tækninni hefur fleytt áfram og mikilvægt að við stöldrum við endrum og eins og skoðum hvað hefur breyst á ekki lengri tíma.
22.09.2025
Í FÁ er hægt að velja fjallgöngu/útivist sem áfanga og hægt er að velja hann í staðinn fyrir hefðbundins íþróttaáfanga. Boðið er upp á 4-5 göngur yfir önnina í nágrenni höfuðborgarsvæðissins.
Á laugardaginn var fyrsta ganga vetrarins þegar 40 nemendur ásamt kennurum héldu inn í Hvalfjörð og gengu upp að Glym. Veðrið var frábært, sólin skein og haustlitirnir komnir. Hér má sjá myndir úr ferðinni.
17.09.2025
Dagur íslenskrar náttúru var haldinn hátíðlega við skólann þann 16. september. Fjörug dagskrá var við skólann að tilefninu. Umhverfisráð nemenda stóð fyrir ratleik fyrir nemendur þar sem þau fundu Grænfánann, rúlluðu sér niður brekkuna á skólalóðinni og skoðuðu plöntur í kringum skólann.
Sjálfbærninefnd skólans (starfsfólk og stjórnendur) stóð vaktina við flokkunartunnur og aðstoðaði nemendur í vafa við flokkun. Allar deildir skólans gróðursettu íslenskar plöntur á svæði á skólalóðinni sem síðar meir verður útikennslustofa. Nú á hver deild skólans sína plöntu og munu þær fylgjast vel með henni. Plönturnar sem urðu fyrir valinu í ár eru Bæjarstaðabirki og Kasmír-reynir.
Íslensk lög með umhverfisboðskap voru spiluð bæði í matsal skólans og á kaffistofu starfsfólks. Þátttaka í deginum var til fyrirmyndar og gaman að sjá hvað nemendur tóku virkan þátt í ratleiknum.
Dagur íslenskrar náttúru hefur verið haldinn hátíðlegur síðan árið 2011. Tilgangur dagsins er að beina sjónum okkar allra að hinni einstöku náttúru landsins, þeim auðæfum sem í henni felast og mikilvægi þess að vernda hana og varðveita. Dagurinn er fæðingardagur Ómars Ragnarssonar en hann hefur lengi verið ötull talsmaður náttúruverndar.
12.09.2025
Núna í vikunni vorum við með góða gesti í heimsókn frá Ferrentino á Ítalíu, þær Sara Colatosti og Daniela Meaglia. Þær voru í undirbúningsheimsókn að kanna hvort skólarnir okkar geti unnið saman að verkefni. Við stefnum á að hefja samstarfið næsta haust en þá koma fimm nemendur frá þeim í heimsókn til okkar.
Þær Edda Lára og Jeannette tóku vel á móti þeim, funduðu, sýndu þeim skólann og svo kíktu þær í kennslustundir. Við hlökkum til frekari samstarfs með þeim Sara og Daniela.
04.09.2025
Nýnemaferð skólans var farin í Lækjarbotna í gær, þar sem sólin lék við mannskapinn. Nemendur tóku þátt í hörkuspennandi keppni þar sem þeir leystu fjölbreyttar þrautir fyrir stig. Stigin voru gjaldmiðill fyrir teningakast í hinu feikivinsæla snákaspili. Þeir þrír hópar sem náðu bestum árangri í snákaspilinu voru leystir úr ferðinni með vinningum frá Nemendafélagi skólans.
Dæmi um þrautir í ferðinni má nefna stígvélakast, ruslatýnslu, reipitog, bátagerð, blindraþraut, limbó, pokahlaup og líflínukast. Nemendur og kennarar skemmtu sér konunglega. Viðburðastýrurnar Kolbrún Ósk Pétursdóttir og Sædís Ósk Helgadóttir sáu um þrautaleikinn sem vakti mikla lukku meðal nemenda.
Eftir æsispennandi keppni grilluðu skólameistari og aðstoðarskólameistari pylsur fyrir öll viðstödd. Nemendafélagið gaf nemendum gos og prins póló. Þá kusu nýnemar skólans sér nýnemafulltrúa, sem verða tengiliðir þeirra við nemendafélagið. Kosningu hlutu þau Lilja Hönnudóttir og Kristján Bergur S. Stefánsson. Við óskum þeim innilega til hamingju með kjörið.