Íþrótta- og forvarnarvika í FÁ

Í þessari viku verður haldin íþrótta- og forvarnarvika í FÁ en þá er einnig Íþróttavika Evrópu (European Week of Sport) sem er haldin formlega dagana 23. – 30. september. Markmið Íþróttaviku Evrópu er að kynna íþróttir og almenna hreyfingu um alla Evrópu og sporna þannig við auknu hreyfingarleysi meðal almennings. Íþróttavikan er ætluð öllum óháð aldri, bakgrunni eða líkamlegu ástandi. Evrópubúar geta sameinast undir slagorðinu #BeActive.

Gleðilegan Dag íslenskrar náttúru

Í tilefni dagsins gróðursettu nemendur og starfsfólk við fjölbrautaskólann fimm rifsberjarunna við enda lóðarinnar, þar sem leikskólinn Múlaborg er staðsettur. Var þetta gert í samstarfi við leikskólann og leikskólabörnin hjálpuðu til við gróðursetninguna. Vonin er að bæði skólastigin njóti góðs af berjunum sem þar munu vaxa um ókomna tíð. Gróðursetningin er liður í því að efla samstarf skólanna tveggja sem hafa verið vinaskólar til margra ára.

Heimsókn á Gljúfrastein

Nemendur í íslensku fóru í vettvangsferð á Gljúfrastein en þau eru um þessar mundir að lesa Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness. Í heimsókninni fengu þau hljóðleiðsögn um húsið og sáu hvernig skáldið bjó. Áhugaverð og fróðleg heimsókn í alla staði.

Ný heimasíða komin í loftið

Okkur er sönn ánægja að tilkynna um nýja heimasíðu FÁ sem komin er í loftið. Á nýrri heimasíðu vonumst við til að efnið verði aðgengilegra og skiljanlegra en áður. Síðan er enn í vinnslu og á því eftir að bæta við nokkru efni. Ef upplýsingar eru ekki réttar eða síður/hlekkir virka ekki endilega hafið samband og látið okkur vita á kristinvald@fa.is. Hönnun síðunnar var unnin í samvinnu við Stefnu hugbúnaðarhús með það að markmiði að hún væri í senn notendavæn og aðgengileg. Er það von okkar að þessi nýja síða verði öllum sem heimsækja hana til gagns og upplýsinga

Samhugur og samstaða

Það var fallegur dagur í gær þegar nemendur og starfsfólk FÁ sýndu samhug og samstöðu og heiðruðu minningu Bryndísar Klöru með því að klæðast bleiku. Starfsfólk og nemendur FÁ votta fjölskyldu og vinum Bryndísar Klöru innilegrar samúðar á þessum erfiðu tímum.

Spiluðu yfir 4.000 ára gamalt borðspil

Sextán nemendur í áfanganum Tölvuleikir: Saga, þróun og fræði (TÖLE2SE05) spiluðu borðspilið The Royal Game of Ur í kennslutíma. Talið er að spilið sé frá 2.500 f.Kr. og eigi rætur að rekja til Mesópótamíu. Nemendur skemmtu sér vel í tímanum og þótti flestum spilið skemmtilegt og áhugavert - en þó heldur einhæft. Tölvuleikir eru skoðaðir frá ýmsum hliðum í áfanganum og meðal annars farið yfir sögu tölvuleikja þar sem nemendur fá að prófa valda leiki. The Royal Game of Ur tengdist forsögu tölvuleikja, næst verður það PONG frá árinu 1972 sem var fyrsti tölvuleikurinn sem náði almennum vinsældum og þar á eftir E.T. sem er gjarnan titlaður sem „versti tölvuleikur allra tíma“.

Nýnemadagur

Nýnemaferð Fjölbrautaskólans við Ármúla var farin í dag. Frábær ferð í alla staði sem Nemendafélag skólans og félagsmálafulltrúi skipulögðu. Farið var með tæplega 200 nýnema í Guðmundarlund í Kópavogi þar sem við áttum góða stund en þar er frábær aðstaða til útiveru og leikja. Þar tóku á móti okkur vant fólk sem sáu um leiki og hópefli fyrir þennan stóra og flotta hóp. Síðan voru grillaðar pylsur, nemendur fengu gos og súkkulaði og léku sér svo í allskyns leikjum og spjölluðu saman. Einstaklega frábær hópur nýnema þetta árið sem voru til fyrirmyndar í ferðinni og hlökkum við til að kynnast þeim betur í vetur.

Skráning í fjarnám stendur yfir

Skráning á haustönn í fjarnámi FÁ stendur yfir og hefst önnin 2. september. Lokaprófin eru 25. nóvember – 9. desember og próftaflan verður birt 23. september. 102 áfangar eru í boði. Fjölbreytt úrval af bæði kjarnafögum og valáföngum. Áfangana má sjá hér. Allar nánari upplýsingar um fjarnámið má sjá hér. Skráning fer fram hér.

Nemi frá FÁ í ungmennadómnefnd IceDocs

Ísold Ylfa Teitsdóttir, nemandi á Nýsköpunar- og listabraut í FÁ var í fyrstu ungmennadómnefnd kvikmyndahátíðarinnar IceDocs sem fram fór í sumar. Ungmennadómnefndin horfði á allar myndirnar sjö sem voru í keppni á hátíðinni og valdi sinn sigurvegara, sem var tékkneska kvikmyndin "I am not Everything I want to be". Frá hátíðinni: "Í ár voru tvær dómnefndir skipaðar ungmennum á IceDocs. Fyrri dómnefndin, skipuð ungmennum 18 ára og eldri hafði það verkefni að horfa á myndir í aðalkeppni hátíðarinnar og velja vinningshafa. Er það von skipuleggjanda að þetta efli áhuga á kvikmyndagerðarlist og kvikmyndalæsi ungmenna. Við þökkum þessu frábæra og efnilega unga fólki innilega fyrir vel unnin störf!!" Hér er fréttin af Facebook síðu IceDocs.

Náms- og starfsráðgjafi fjarnáms FÁ

Nemendur fjarnámsins hafa nú aðgang að náms- og starfsráðgjafa. Það er Hrönn Baldursdóttir sem er náms- og starfsráðgjafi fjarnáms. Hægt er að senda tölvupóst á radgjof@fa.is með fyrirspurnir og vangaveltur um náms- og starfsferilinn.