Rafíþróttalið FÁ í 8-liða úrslit FRÍS

Rafíþróttalið Fjölbrautaskólans við Ármúla komst áfram í 8-liða úrslit FRÍS, Framhaldsskólaleika Rafíþróttasambands Íslands. Í ár taka þrettán framhaldsskólar þátt í keppninni þar sem keppt er í tölvuleikjunum Counter-Strike 2, Rocket League og Valorant. Flestir keppendur koma úr rafíþróttaáfanganum RAFÍ2SM03 þar sem nemendur æfa sig í völdum leikjum sem einstaklingar og sem liðsheild í uppfærðu tölvuveri skólans.

Við óskum rafíþróttaliði FÁ til hamingju með góðan árangur!

Rocket League lið FÁ skipa Stefán Máni, Aron Örn og Karvel. Varamenn eru Logi Jarl, Ísar og Orfeus. Í Valorant keppa þau Kristinn Guðberg, Aline Ampari, Baldur Orri, Logi Jarl og Jóhann Atli og Birnir Orri, Helgi og Marcin eru varamenn. Í Counter-Strike 2 liðinu eru þeir Birnir Orri, Logi Jarl, Nataniel, Svanur Snær og Sölvi auk Aline sem er varamaður.

Hægt verður að fylgjast með undanúrslitum efstu 8 liðanna í beinni útsendingu á Stöð 2 eSport og Twitch-rás RÍSÍ. Keppnisdagar verða á miðvikudögum og fer fyrsti leikurinn fram þann 6. mars. Nánari upplýsingar um mótið er að finna á heimasíðu Rafíþróttasamtaka Íslands.

Námsmatsdagur föstudaginn 23. febrúar

 

Föstudaginn 23. febrúar er námsmatsdagur í Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Engin formleg starfsemi verður í skólanum þennan dag en einhverjir kennarar kalla á nemendur sína í próf eða verkefni.

Skrifstofa skólans verður lokuð.

 

Forseti hæstaréttar tók á móti nemendum í viðskiptalögfræði

 Nemendur í viðskiptalögfræði í FÁ fóru í heimsókn í Hæstarétt Íslands og kynntu sér sögu og starfsemi réttarins. Benedikt Bogason, forseti Hæstaréttar ásamt Ólöfu Finnsdóttur skifstofustjóra og Jenný Harðardóttur aðstoðamanni dómara tóku á móti hópnum.

Benedikt fór vel yfir sögu réttarins og þær breytingar sem urðu á starfsemi Hæstaréttar þegar bætt var við þriðja dómstiginu með stofnun Landsréttar árið 2018.

Hann útskýrði fyrir nemendum með hvaða hætti starfsemi héraðsdómstóla, Landsréttar og Hæstaréttar tengjast og á hvern hátt þau eru ólík.

Lesa meira.

 

FÁ er fyrirmyndastofnun 2023

 Fjölbrautaskólinn við Ármúla hlaut í gær viðurkenningu í könnun Sameykis um stofnun ársins 2023. FÁ er fyrirmyndarstofnun og var í þriðja sæti í flokka stórra stofnana með 90 starfsmenn eða fleiri. Er þetta annað árið í röð sem skólinn er í þriðja sæti í þessum flokki. Við í FÁ erum virkilega stolt yfir þessari niðurstöðu.

Kristrún Birgisdóttir aðstoðarskólameistari veitti viðurkenningunni viðtöku við hátíðlega athöfn hjá Sameyki.

Lesa meira.

FÁ vann Versló í Morfís

 

Lið Fjölbrautaskólans við Ármúla keppti við lið Verslunarskóla Íslands í sextán liða úrslitum í MORFÍs, mælsku- og rökræðukeppni framhaldsskólanna í gærkvöldi. FÁ gerði sér lítið fyrir og sigraði keppnina og er því komið áfram í 8 liða úrslit.

Umræðuefni keppninnar var áróður og mælti FÁ með en Verslunarskólinn á móti.

Heildarstig í keppninni voru 3044 talsins og refsistig engin. Stigamunur á liðunum var 187 stig og allir þrír dómarar voru sammála.

Ræðumaður kvöldsins var Hjördís Freyja Kjartansdóttir frá FÁ og hlaut hún 597 stig sem er frábær árangur.

Sigurlið Fjölbrautaskólans við Ármúla skipuðu þær Hjördís Freyja Kjartansdóttir, Sara Jóhanna Geirsdóttir Waage, Amarachi Rós Huldudóttir og Ágústa Rós Skúladóttir.

Frábær árangur hjá ykkur stelpur, til hamingju!

 

Fjarnám - umsóknarfrestur rennur út 24. janúar.

 

Innritun í fjarnám við FÁ stendur yfir þessa dagana og gengur vel. Umsóknarfresturinn rennur út á miðvikudaginn 24. janúar og hvetjum við alla áhugasama að skrá sig fyrir þann tíma.

Kennsla hefst svo á föstudaginn 26. janúar.

Hér má sjá upplýsingar um fjarnámið.

Hér er listi yfir alla þá áfanga sem í boði eru.

Skráning fer fram hér.

FÁ úr leik í Gettu betur

FÁ er því miður úr leik í Gettu betur eftir tap á móti firna sterku liði MR í gær. Eftir hraðaspurningar var staðan 21-15 MR í vil en í bjölluspurningunum stungu MR-ingarnir af og sigruðu að lokum 43-17.

Lið FÁ er skipað þeim Iðunni Úlfsdóttur, Jóhönnu Andreu Magnúsdóttur og Þráni Ásbjarnarsyni. Þess má geta að Þráinn hefur verið í liði FÁ síðastliðin 5 ár og staðið sig gríðarlega vel og haldið uppi liði FÁ. Hann mun útskrifast í vor og þökkum við honum kærlega fyrir hans framlag til keppninnar.

 

FÁ áfram í Gettu betur

Lið FÁ í Gettu betur keppti í fyrstu umferð keppninnar síðasta mánudag en laut þar lægra haldi fyrir liði FB. Í gær kom svo í ljós að við komumst áfram í aðra umferð keppninnar þar sem þrjú stigahæstu tapliðin halda áfram í aðra umferð.Við munum því keppa á miðvikudaginn næsta, 17. janúar á móti MR.

Fyrsta umferð í Gettu betur

 

Mánudaginn 8. janúar, fer fram fyrsta umferð spurningakeppninnar Gettu betur. FÁ mætir liði Fjölbrautaskólans í Breiðholti kl 18.00. 

Gettu betur lið Fjölbrautaskólans við Ármúla er búið að vera að æfa á fullu undanfarnar vikur fyrir komandi keppni. Í Gettu betur liði FÁ þetta árið eins og í fyrra eru þau Iðunn Úlfsdóttir, Jóhanna Andrea Magnúsdóttir og Þráinn Ásbjarnarson, frábærir reynsluboltar. Þjálfarar liðsins þetta árið eru þeir Jens Ingi Andrésson og Arnar Heiðarsson.

Undanfarin ár hefur FÁ verið í mikilli sókn í Gettu betur og náði skólinn t.d. í undanúrslit árið 2020 og í 8 liða úrslit árið 2021 og 2023.

Við óskum þeim góðs gengis keppninni. Áfram FÁ!!

 

Upphaf vorannar 2024

 

Opnað hefur verið fyrir stundatöflur í Innu fyrir þá sem greitt hafa skólagjöldin.

Kennsla hefst svo samkvæmt stundatöflum 4. janúar.

4. og 5. janúar er tekið er á móti beiðnum um töflubreytingar. Þær fara eingöngu fram rafrænt á þessari slóð .