Réttarhöld í FÁ

 Nemendur í viðskiptalögfræði í FÁ fengu það verkefni að setja á svið réttarhöld í skólanum í liðinni viku.

Að þessu sinni var um að ræða skaðabótamál vegna óhapps á skemmtistað sem tekið var fyrir af „Landsrétti“.

Nemendur skiptu með sér hlutverkum dómara, lögfræðinga, stefnanda, stefndu, vitna og blaðamanna.

 Í málfutningnum voru ýmis sönnunargögn lögð fram og vitni kölluð fyrir dóminn ásamt löggildum matsaðilum.

Fjölmiðlar fylgdust vel með málinu og var ýjað að því í fjölmiðlum áður en málið var tekið fyrir að stefnandi myndi að öllum líkindum vinna málið vegna tengsla við háttsetta aðila í þjóðfélaginu.

Niðurstaða málsins var sú að stefnanda voru dæmdar skaðbætur og stóð því dómur „héraðsdóms“ óbreyttur.

Nemendur voru hæst ánægðir með málflutninginn og fannst mikill lærdómur að taka þátt í skipulagi og uppsetningu réttarhaldanna.

Þeir sem mættir voru í „dómsal“ til þess að fylgjast með málflutningum hrósuðu nemendum fyrir faglegan og góðan málflutninginn.

FÁ mætir FVA í FRÍS

 

Í kvöld, miðvikudaginn 13. mars, mun rafíþróttalið Fjölbrautaskólans við Ármúla mæta liði Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi í 8-liða úrslitum FRÍS, Framhaldsskólaleikum Rafíþróttasambands Íslands. Keppt verður í Rocket League, Valorant og Counter-Strike 2. Hægt verður að fylgjast með keppninni í beinni á Stöð 2 eSport og Twitch-rás Rafíþróttasambands Íslands og hefst útsending kl. 19:30.

Áfram FÁ!

Á myndinni er hluti af rafíþróttaliði FÁ 2024.

 

Takk fyrir komuna á opið hús

 

Í síðustu viku var opið hús í FÁ fyrir 10.bekkinga og aðra áhugasama. Það var mjög góð mæting og frábær stemning. Við þökkum öllum fyrir komuna og vonumst til að sjá sem flesta á næstu önn.

Til að kynna sér skólann enn frekar þá eru upplýsingar hér. 

 

Katrín Edda sigraði tónlistar- og söngkeppni FÁ

 

Á fimmtudaginn síðasta, 29. febrúar fór tónlistar- og söngkeppni FÁ fram á Árdegi skólans. Hin frábæra Eva Ruza var kynnir í keppninni og tók eitt lag. Sex flott atriði tóku þátt og það má sanni segja að það sé mikið af hæfileikaríku tónlistarfólki í skólanum okkar. Í fimm atriðum af sex sungu og spiluðu undir nemendur úr tónlistaráfanga skólans. Öll atriðin voru frábær en úrslitin urðu þau að Sigrún Ásta lenti í þriðja sæti með lagið Before he cheats með Carrie Underwood.

Rafael Róbert var í öðru sæti með lagið Nutshell með Alice in Chains. 

 Í fyrsta sæti varð svo hún Katrín Edda með lagið Penthos sem er frumsamið lag. Katrín Edda mun því taka þátt í Söngkeppni framhaldsskólanna sem fer fram 6. apríl á Selfossi.

Hjartanlega til hamingju Katrín Edda.

 

Starfsþróunardagur föstudaginn 1. mars

Föstudaginn 1. mars er starfsþróunardagur kennara í Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Öll kennsla fellur niður þennan dag og skrifstofa skólans verður jafnframt lokuð.

Opið hús í FÁ, 5. mars

Þriðjudaginn 5. mars býður FÁ nemendum í 9. og 10. bekk og forráðamönnum þeirra á opið hús í skólanum frá kl. 16:30 - 18:00.
Kennarar kynna það námsframboð sem er í boði. Einnig verður í boði leiðsögn um skólann. Þá verða kennslustofur opnar og gestum gefst tækifæri á að kynna sér fjölbreytt námsframboð hjá kennurum og nemendum skólans.
Hægt er að skrá sig á viðburðinn á FB hér.   Þar birtast einnig fleiri upplýsingar.

Rafíþróttalið FÁ í 8-liða úrslit FRÍS

Rafíþróttalið Fjölbrautaskólans við Ármúla komst áfram í 8-liða úrslit FRÍS, Framhaldsskólaleika Rafíþróttasambands Íslands. Í ár taka þrettán framhaldsskólar þátt í keppninni þar sem keppt er í tölvuleikjunum Counter-Strike 2, Rocket League og Valorant. Flestir keppendur koma úr rafíþróttaáfanganum RAFÍ2SM03 þar sem nemendur æfa sig í völdum leikjum sem einstaklingar og sem liðsheild í uppfærðu tölvuveri skólans.

Við óskum rafíþróttaliði FÁ til hamingju með góðan árangur!

Rocket League lið FÁ skipa Stefán Máni, Aron Örn og Karvel. Varamenn eru Logi Jarl, Ísar og Orfeus. Í Valorant keppa þau Kristinn Guðberg, Aline Ampari, Baldur Orri, Logi Jarl og Jóhann Atli og Birnir Orri, Helgi og Marcin eru varamenn. Í Counter-Strike 2 liðinu eru þeir Birnir Orri, Logi Jarl, Nataniel, Svanur Snær og Sölvi auk Aline sem er varamaður.

Hægt verður að fylgjast með undanúrslitum efstu 8 liðanna í beinni útsendingu á Stöð 2 eSport og Twitch-rás RÍSÍ. Keppnisdagar verða á miðvikudögum og fer fyrsti leikurinn fram þann 6. mars. Nánari upplýsingar um mótið er að finna á heimasíðu Rafíþróttasamtaka Íslands.

Námsmatsdagur föstudaginn 23. febrúar

 

Föstudaginn 23. febrúar er námsmatsdagur í Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Engin formleg starfsemi verður í skólanum þennan dag en einhverjir kennarar kalla á nemendur sína í próf eða verkefni.

Skrifstofa skólans verður lokuð.

 

Forseti hæstaréttar tók á móti nemendum í viðskiptalögfræði

 Nemendur í viðskiptalögfræði í FÁ fóru í heimsókn í Hæstarétt Íslands og kynntu sér sögu og starfsemi réttarins. Benedikt Bogason, forseti Hæstaréttar ásamt Ólöfu Finnsdóttur skifstofustjóra og Jenný Harðardóttur aðstoðamanni dómara tóku á móti hópnum.

Benedikt fór vel yfir sögu réttarins og þær breytingar sem urðu á starfsemi Hæstaréttar þegar bætt var við þriðja dómstiginu með stofnun Landsréttar árið 2018.

Hann útskýrði fyrir nemendum með hvaða hætti starfsemi héraðsdómstóla, Landsréttar og Hæstaréttar tengjast og á hvern hátt þau eru ólík.

Lesa meira.

 

FÁ er fyrirmyndastofnun 2023

 Fjölbrautaskólinn við Ármúla hlaut í gær viðurkenningu í könnun Sameykis um stofnun ársins 2023. FÁ er fyrirmyndarstofnun og var í þriðja sæti í flokka stórra stofnana með 90 starfsmenn eða fleiri. Er þetta annað árið í röð sem skólinn er í þriðja sæti í þessum flokki. Við í FÁ erum virkilega stolt yfir þessari niðurstöðu.

Kristrún Birgisdóttir aðstoðarskólameistari veitti viðurkenningunni viðtöku við hátíðlega athöfn hjá Sameyki.

Lesa meira.