Nemi frá FÁ í ungmennadómnefnd IceDocs

Ísold Ylfa Teitsdóttir, nemandi á Nýsköpunar- og listabraut í FÁ var í fyrstu ungmennadómnefnd kvikmyndahátíðarinnar IceDocs sem fram fór í sumar. Ungmennadómnefndin horfði á allar myndirnar sjö sem voru í keppni á hátíðinni og valdi sinn sigurvegara, sem var tékkneska kvikmyndin "I am not Everything I want to be". Frá hátíðinni: "Í ár voru tvær dómnefndir skipaðar ungmennum á IceDocs. Fyrri dómnefndin, skipuð ungmennum 18 ára og eldri hafði það verkefni að horfa á myndir í aðalkeppni hátíðarinnar og velja vinningshafa. Er það von skipuleggjanda að þetta efli áhuga á kvikmyndagerðarlist og kvikmyndalæsi ungmenna. Við þökkum þessu frábæra og efnilega unga fólki innilega fyrir vel unnin störf!!" Hér er fréttin af Facebook síðu IceDocs.

Náms- og starfsráðgjafi fjarnáms FÁ

Nemendur fjarnámsins hafa nú aðgang að náms- og starfsráðgjafa. Það er Hrönn Baldursdóttir sem er náms- og starfsráðgjafi fjarnáms. Hægt er að senda tölvupóst á radgjof@fa.is með fyrirspurnir og vangaveltur um náms- og starfsferilinn.

Fréttabréf FÁ - ágúst 2024

Fyrsta fréttabréf FÁ er komið út.  Við ákváðum að brydda upp á þeirri nýjung í vetur að senda út mánaðarlegt fréttabréf til nemenda og aðstandur þeirra.  Markmiðið með því er að auka upplýsingaflæðið og einnig að segja frá því frábæra starfi sem fer fram í skólanum. Hér er hægt að lesa fréttabréfið.

Upphaf haustannar - mikilvægar dagsetningar

 

Nú er starfið að komast í fullan gang í skólanum eftir sumarleyfi og erum við öll spennt að hitta nemendur eftir gott sumarfrí.

Hér eru helstu dagsetningar framundan sem gott er að hafa í huga fyrir nemendur og forráðamenn:

Stundatöflur verða aðgengilegar í INNU föstudaginn 16. ágúst.  Nota þarf rafræn skilríki til að skrá sig inn í Innu.  Skráðir aðstandendur nemenda yngri en 18 ára hafa aðgang með rafrænum skilríkjum.

Fundur með nýnemum verður í fyrirlestrasal föstudaginn 16. ágúst kl. 13:00.

Fundur með eldri nýnemum verður í fyrirlestrasal föstudaginn 16. ágúst kl. 14:00.

Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá mánudaginn 19. ágúst.

Töflubreytingar fara fram 16. - 18. ágúst og fara þær fram í gegnum Innu.  Leiðbeiningar verða sendar í tölvupósti.  Síðasti dagur til að skrá sig úr áfanga er 4. september.

Kynningafundur fyrir foreldra/forráðamenn verður haldinn þriðjudaginn 27. ágúst kl. 17:00.  Á fundinum verður farið yfir ýmsa þætti í starfi skólans.

Allar upplýsingar um bókalista og námið má finna á heimasíðu skólans, www.fa.is.

Nýnemadagur verður í byrjun september. Nánari upplýsingar verðar sendar þegar nær dregur.

Skráning í fjarnám við FÁ á haustönn hefst 16. ágúst og önnin hefst 2. september.

Við viljum minna á að í upphafi skólaárs er líka gott að gott að glöggva sig á öllum helstu dagsetningum á skólaárinu og skrá hjá sér.  Hér er hlekkur á skóladagatal næsta skólaárs.

Einnig hvetjum við alla til að fylgjast með fréttum úr skólastarfinu á Facebook og Instagram.

Endilega hafið samband við skrifstofu skólans ef einhverjar spurningar vakna - fa@fa.is

Við hlökkum til að sjá ykkur öll á nýju skólaári.


Sumarleyfi og upphaf næsta skólaárs

Innritun nýnema og eldri nemenda í Fjölbrautaskólann við Ármúla er nú lokið.

Fimmtudaginn 27. júní fara starfsmenn Fjölbrautaskólans við Ármúla í sumarleyfi. Þeir mæta svo aftur til starfa miðvikudaginn 7. ágúst.

Allir nemendur skólans hafa núna fengið greiðsluseðil í heimabanka. Hjá nemendum yngri en 18 ára birtist greiðsluseðillinn hjá elsta forráðamanni. Ef greiðsluseðillinn er ekki greiddur skoðast það sem höfnun á skólavist.

Um 900 nemendur eru að jafnaði í dagskóla við Fjölbrautaskólann við Ármúla og u.þ.b. 1400 nemendur í fjarnámi. Mjög fjölbreyttar námsbrautir er að finna í skólanum; bóknám, listnám og heilbrigðistengt nám. Um 80 kennarar og 30 aðrir starfsmenn vinna að því daglega að aðstoða nemendur í námi sínu og stoðþjónusta er mjög mikil. Félagslífið í skólanum er gott og margt að gerast í hverri viku.

Lesa meira

Nemendur FÁ með námskeið í kvikmyndagerð

Tveir nemendur skólans héldu námsskeið í kvikmyndagerð í tengslum við kvikmyndahátíð Grundaskóla á Akranesi í upphafi vikunnar. Þau Ísold Ylfa Teitsdóttir og Viktor Hugi Jónsson byrjuðu á því að kynna Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna og héldu svo námskeiðið, sem var svokallað "24-hour film challenge" þar sem þau leiðbeindu nemendum í 8. 9. og 10. Grundaskóla í grínmyndagerð. Skemmst er frá því að námskeiðið gekk eins og í sögu, allir þátttakendur kláruðu myndir sínar svo að úr varð fjöldinn allur af nýjum grínmyndum.

Skólaheimsókn til Portúgal

 Þann 26. maí hélt 60 manna hópur kennara og starfsmanna í FÁ til Portúgal. Tilgangur ferðarinnar var að kynna sér starfið í tveim skólum í borginni Braga, Oficina og Agrupamento de escolas Sá De Miranda. Tveir ólíkir en flottir skólar sem gaman var að heimsækja. Sérstaka athygli vakti að portúgalskir nemendur eru alla jafna í skólanum frá átta á morgnana og til sex á kvöldin og fara þá í tómstundastarf. Ekki mikill tími sem fjölskyldurnar fá saman þarna í Portúgal. Seinni hlutann af ferðinni hélt hópurinn svo til Portó. Þar var margt skemmtilegt að skoða, falleg borg með mikla sögu. Hér má sjá heimasíður skólanna: Oficina   Agrupamento de escolas Sá De Miranda  

Brautskráning vor 2024

 Það var vindasamur og blautur en mjög gleðilegur dagur í Fjölbrautaskólanum við Ármúla í dag þegar nem­endur mættu til útskriftar. Alls útskrifuðust 103 nemendur frá skólanum og þar af 9 af tveimur brautum; 65 stúdentar, 35 frá heilbrigðissviði, 10 af sérnámsbraut og 3 frá nýsköpunar- og listabraut.

Af stúdentsbrautum útskrifuðust 10 af félagsfræðibraut, 3 af íþrótta- og heilbrigðisbraut 12 af náttúrufræðibraut, 26 af opinni braut, 3 af viðskipta- og hagfræðibraut og 11 með viðbótarnám að loknu starfsnámi.

Af heilbrigðissviði útskrifuðust 17 sem sjúkraliðar, 5 af heilbrigðisritarabraut, einn af lyfjatæknabraut, 6 af heilsunuddbraut og 6 af tanntæknabraut.

10 frábærir nemendur útskrifuðust af sérnámsbraut eftir 4 ára nám.

Lesa meira.

Útskrift FÁ 24. maí

Útskrift Fjölbrautaskólans við Ármúla á vorönn 2024 fer fram í hátíðarsal skólans, föstudaginn 24. maí. Athöfnin hefst stundvíslega kl. 13:00 og eru nemendur beðnir að mæta minnst hálftíma áður en athöfn hefst, eða kl. 12:30. Æfing fyrir útskriftina verður fimmtudaginn 23. maí kl. 16:30.

Skoða hvernig stöðva megi framgang heilasjúkdóma

 Skoða hvernig stöðva megi framgang heilasjúkdóma Lyfjafyrirtækið Lundbeck í Danmörku stóð nýlega fyrir stórri keppni sem kallast „Drughunters“. Hópi nemenda af náttúrufræðibraut Fjölbrautaskólans við Ármúla var boðin þátttaka í keppninni. Keppnin snýst um að koma með hugmyndir um hvernig stöðva megi framgang heilasjúkdóma eða lækna þá, en nemendur velja sér eitt viðfangsefni heilasjúkdóma, sem þeir afla sér þekkingar í.   Íslenski hópurinn fékk sérstakt hrós fyrir kynninguna sína. Fyrir íslensku krakkana var undirbúningurinn fyrir keppnina þverfaglegt samstarf raungreina og dönsku. Keppnin vekur áhuga nemanda á læknisfræði„Nemendunum sjálfum fannst keppnin hafa gefið þeim skemmtilegri sýn á dönskuna og einn nemandi nefndi að þessi keppni hefði hvatt hann til að reyna við læknisfræðina í framtíðinni“ sagði Simon Cramer Larsen, dönskukennari eftir ferðina. Í lok apríl síðastliðinn hittust svo allir hóparnir í Kaupmannahöfn og kynntu afraksturinn á dönsku fyrir dómnefnd að sögn Gúríar Helenu Petersen, dönskukennara, sem einnig var með í ferðinni. Keppnin er fyrst og fremst ætluð dönskum og færeyskum framhaldsskólanemendum en Fjölbrautaskólinn við Ármúla er eini íslenski framhaldsskólinn sem tók þátt.