- Skólinn
- Námið
- Þjónusta
- Skrifstofa
- Nemendaþjónusta
- Almenn þjónusta
- Heilbrigðisskólinn
- Fjarnám
- Inna
- Moodle
- Teams
- Office 365
Fjölbrautaskólinn við Ármúla útskrifaði í dag 122 nemendur í tveimur útskriftum. Alls útskrifaðist 71 nemandi með stúdentspróf, 41 nemandi útskrifaðist af heilbrigðissviði skólans, 6 nemendur af nýsköpunar- og listabraut og loks útskrifuðust 4 nemendur af sérnámsbraut skólans. Dúx skólans er Gunnur Rún Hafsteinsdóttir sem útskrifast af náttúrufræðibraut með ágætiseinkunnina 9,01.
Kristrún Birgisdóttir, aðstoðarskólameistari FÁ, fór yfir liðinn vetur í ræðu sinni en þrátt fyrir strangar sóttvarnarreglur tókst að halda skólastarfinu með eins eðlilegum hætti og unnt var.
Í ræðu sinni fjallaði Magnús Ingvason, skólameistari FÁ, um þann fjölda Íslendinga sem flutti búferlum til Vesturheims um aldamótin 1900 og átti þar oft og tíðum í erfiðri lífsbaráttu. Á síðustu árum hefur fólk af erlendu bergi brotið komið til Íslands, mörg hver á flótta frá erfiðum aðstæðum í heimalandi sínu og í leit að öryggi í nýjum heimkynnum. Þau flytja með sér menningu sína og tungu, og mannlífið á Íslandi verður litríkara en áður. Við skulum taka fagnandi á móti nýjum Íslendingum og njóta þeirrar menningarauðlegð sem þeir hafa í farteskinu.
Í dag, 21. maí, fer fram brautskráning í tvennu lagi frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Kl. 13:00 útskrifast nemendur af Nýsköpunar- og listabraut, sérnámsbraut og frá Heilbrigðisskólanum.
Nýstúdentar af Hugvísindabraut, Félagsfræðabraut, Náttúrufræðibraut, Íþrótta- og heilbrigðisbraut og Viðskipta- og hagfræðibraut útskrifast svo kl. 15:00.
Vegna aðstæðna í samfélaginu verður útskrifarnemum því miður ekki heimilt að bjóða með sér fleiri en einum gesti, en báðum athöfnum verður streymt HÉR svo stoltir ástvinir þurfi ekki að missa af þessum merku tímamótum.
Útskriftarnemar og gestir eru beðnir að gæta sóttvarna á allan hátt á meðan dagskráin stendur yfir.
Fyrirtækið “Styrkleiki” er mannað nemendum á nýsköpunarbraut FÁ og er eitt af 126 nemendafyrirtækjum frá 15 framhaldsskólum sem kepptu í Fyrirtækjasmiðju Ungra frumkvöðla í ár. Ungir frumkvöðlar eru samtök sem leitast við að stuðla að aukinni nýsköpunar-, frumkvöðla- og viðskiptamenntun í skólum.
Í Styrkleika eru Valur Snær Gottskálksson, Wafika Jarrah og Milica Anna Milanovic, og tóku þessi frumkvöðlar úr FÁ nýlega við verðlaunum úr höndum mennta- og menningarmálaráðherra fyrir „Samfélagslega nýsköpun“. Fyrirtækið þeirra framleiðir og hannar æfingabúnað fyrir einstaklinga bundna í hjólastól og er langt komið með frumgerð á hinum svokallaða „styrktarþjálfa“. Liðið heimsótti borgarstjóra Reykjavíkur á dögunum og sýndi honum æfingatækið sitt, en hér er frétt um þá heimsókn:
Þess má geta að fjárfestar og hagsmunaaðilar hafa sýnt verkefninu mikinn áhuga og styrkt verkefnið beint um allt að 700.000 kr. Samhliða þessu hafa frumkvöðlarnir í Styrkleika vakið athygli fyrir armbönd sem þau hafa framleitt og selt, en ágóðinn af því verkefni rennur til tækjakaupa markhópsins og líklegast að Sjálfsbjörg taki við þeim fjármunum.
Hægt er að kynna sér öll fyrirtækin sem voru stofnuð í fyrirtækjasmiðjunni í ár og vörur þeirra á vefsíðu vörumessunnar.
Til hamingju með glæsilegan árangur Styrkleiki og önnur lið sem komust í úrslit!
Ég vona að allir hafi notið þess að vera í páskafríi og komi endurnærðir til baka og tilbúnir í síðustu 25 daga annarinnar. Við hefjum hefðbundið staðnám á morgun, miðvikudaginn 7. apríl samkvæmt stundaskrá.
Stjórnvöld hafa gefið út leiðbeiningar um skólastarf og eru þær svipaðar og voru fyrr á önninni. Hámarksfjöldi í rými er 30 manns og grímuskylda í öllum skólanum og verður það svo út önnina.
Ég vona innilega að allir nemendur skili sér til baka og og nái sem bestum árangri á þessari sérstöku önn.
Kær kveðja,
Magnús Ingvason, skólameistari
Ágætu nemendur og forráðamenn,
Í ljósi nýrra og hertra sóttvarnareglna er ljóst að skólinn verður lokaður á morgun og föstudag.Öll kennsla færist því yfir á Teams og verður kennt þar samkvæmt stundaskrá næstu tvo daga, en að þeim dögum loknum hefst páskafrí.
Ég hvet alla til að mæta vel í Teams-tímana og munum að nú erum við flest reynslunni ríkari eftir bæði síðustu haustönn og vorönn. Fyrir þau sem ekki eru kunnug Teams er hægt að horfa á kennslumyndband hér; https://www.fa.is/thjonusta/tolvu-og-thjonustuver/microsoft-teams/
Forritinu er síðan hlaðið niður hér; https://www.microsoft.com/en-ww/microsoft-teams/download-app.
Kennsla hefst aftur eftir páskafrí miðvikudaginn 7. apríl en á þessari stundu er ekki vitað hvort hægt verður að kenna í skólanum eða ekki. Þrátt fyrir að um sé að ræða páskafrí, væri ekki úr vegi fyrir ykkur að renna yfir námsáætlanir og skoða hvort þið eigið eftir að skila einhverju verkefni.
Ég bið ykkur um að fylgjast vel með fréttum frá skólanum sem birtar verða á heimasíðu skólans, Instagram og fésbókarsíðu þegar nær dregur 7. apríl.
Ég sendi ykkur öllum mínar bestu kveðjur og óskir um gleðilega páska, og vona heitt og innilega að við sjáumst öll hress hér í skólanum sem allra, allra fyrst.
Kær kveðja,
Magnús Ingvason
Skólameistari FÁ
Vel heppnaðir Umhverfisdagar FÁ eru að baki þetta árið, en umhverfisfulltrúar skólans og umhverfisráð nemenda stóðu fyrir glæsilegri tveggja daga dagskrá.
Dagskráin hófst með hrósi til félagsfræðakennarans Kristjáns Leifssonar fyrir áberandi litla pappírssóun í sinni kennslu, og tók Kristján afar stoltur við viðurkenningunni "Pappírs-Pési FÁ 2021". Boðið var upp á fjóra fræðandi fyrirlestra þessa daga. Eydís Blöndal fjallaði um loftslagskvíða, Sævar Helgi Bragason um leiðir til að lifa umhverfissinnaðra lífi, Thor Aspelund og Jóhanna E. Torfadóttir um flexiterian mataræði og loks ávarpaði umhverfisráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, nemendur og starfsfólk.
Þá var boðið upp á heimildarmynd um fataframleiðslu, fataskiptimarkað og Kahoot-spurningakeppni með umhverfisverndarþema. Og auðvitað voru nemendur og starfsmenn hvattir til að skilja einkabílinn eftir heima þessa daga.
Verða haldnir þriðjudaginn 16. mars og miðvikudaginn 17. mars. Boðið verður upp á fræðandi fyrirlestra um loftslagskvíða, umhverfisvernd og flexiterian mataræði; umhverfisráðherra kíkir í heimsókn; fatamarkaður verður á Steypunni báða daga og dagskrá í matsalnum í hádegishléum.
Sleppum einkabílnum þessa daga og notum vistvænar samgöngur!