Skautahöllin sprengd í dag

Í dag er sprengidagur en þá var í katólskum sið sprengt vígðu vatni á syndugan lýðinn. En í dag verður ekkert slíkt að gerast heldur munu allir í FÁ fara í einum spreng niður í Skautahöllina í Laugardag og draga á sig skriðskó eða skauta og bruna svo í einum hvelli út á svellið og hamast þar uns þeir springa. Lagt verður af stað klukkan 11:30 frá skólanum. SJÁ MYNDIR Á FACEBOOK-SÍÐU skólans.

Skautaferð á þriðjudag!

Skólinn hefur leigt Skautahöllina kl. 11.45 – 12.35 nk. þriðjudaginn 13. febrúar. Skautar og hjálmar eru á staðnum.
Allir sem vilja, nemendur sem starfsmenn, geta mætt og leikið listir sínar á skautum. Nemendur sem taka þátt fá M fyrir þennan tíma. Það er fátt frískara en að renna sér skriðu á hárbeittum skautum og finna frelsisandann leik um rjóðar kinnar. Mætum öll, það er ekki á hverjum degi sem fólk fær frítt á skauta í góðum félagsskap.
Gengið verður fylktu liði frá skólanum kl. 11.30 að Skautahöllinni.Skautahlaupið verður skráð í Lífshlaupið.

Alþjóðlegi netöryggisdagurinn 2018 er í dag

http://saft.is/Alþjóðlegi netöryggisdagurinn 2018 er í dag. Slagorð dagsins í ár er: Sköpum, tengjum og deilum virðingu: betra net byrjar hjá þér! Yfir 130 þjóðir um heim allan munu standa fyrir skipulagðri dagskrá í dag. Netöryggismiðstöðvar 30 Evrópuþjóða, sem mynda samstarfsnetið Insafe og yfir 100 önnur lönd munu leiða saman ýmsa hagsmunaaðila til þess að vekja athygli á netinu og ræða hvernig þeir geta lagt sitt af mörkum til þess að gera netið betra. Í tilefni dagsins mun SAFT opna nýja heimasíðu og kjölfarið setja inn nýtt kennsluefni fyrir leik, grunn- og framhaldsskóla landsins ásamt heilræðum og leiðbeinandi efni til foreldra #Falsfréttir  #Samfélagsmiðlar #Hatursorðræða #Sexting #Samskipti #Einelti #Streymi #Netglæpir #Snjalltæki

Að eiga fótum fjör að launa

https://www.lifshlaupid.is/lifshlaupid/

Nú stendur yfir hið svokallaða Lífshlaup sem á latínu heitir Curriculum vitae og sem stundum er nefnt æviskeið á íslensku.
En þótt nafnið sé villandi - hér er einungis um það að ræða að fólk hreyfi sig á hvaða máta sem er - semsagt forðist að hlaupa í spik. Nú er veðrið til þess að leggja sitt af mör(kum) og bæta heisluna, skíðafæri er gott og svo er hægt að sækja sér hreyfingu í ræktina, en auðvitað er best að iðka góðar göngur. Góð ganga lengir lífsgönguna.

Fjölbraut við Ármúla hvetur alla í skólanum til að skrá sig til hlaups enda mikill metnaður hjá öllum í  skólanum að vinna Lífshlaupið.

Nýjungar - frumkvæði - sköpun

Þegar vélar verða búnar að taka öll framleiðslustörfin verða menn að kunna eitthvað sem vélar kunna ekki; nefnilega að hugsa! Í FÁ stendur Petra Bragadóttir fyrir áfanganum MARK2AM05 og þar fást nemendur við nýsköpun og markaðssetningu. Það er mikilvægt að skólinn búi nemendur sína undir framtíðina og það má segja að það sé Petra einmitt að gera með þessum skemmtilega áfanga sem kennir nemendum frumkvæði og sjálfstæða hugsun. Ásamt hagsýni!

Öllu er afmörkuð stund...

Stundvísi er ein mikilvægasta dyggð sem fólk almennt tileinkar sér. Ljóst er að því fyrr sem einstaklingur venur sig á stundvísi þeim mun líklegra er að hún verði fastur þáttur í fari hans alla ævi.Stundvísi ber vott um hæfni og byggir upp gott mannorð. Þegar þú ert stundvís sýnirðu að þú reynir að hafa stjórn á lífi þínu í stað þess að láta tilviljun ráða því hvort þú náir að gera það sem þú ætlaðir þér. Við sýnum að við berum virðingu fyrir okkur og öðrum og tímanum þeirra þegar við erum stundvís. Stundvísi ber einnig vott um áreiðanleika,

Enga rörsýn...

Þessa vikuna stendur umhverfisráð FÁ fyrir vakningu um að menn hætti að nota rör (nema kannski píparar), þessi rör eða strá eru alger óþarfi og gera ekkert nema að útbía og valda skaða í lífríkinu. Hættum að nota rör/strá og ef þið notið þau af illri nauðsyn setjið þau þá í þartilgerð plastílát sem hanga á umhverfisfræðsutöflunni á Steypunni. Góð ráð eru ekki á hverju strái - en besta ráðið til að bjarga jörðinni frá hremmingum er að hætta að nota strá til að drekka í gegnum. En ef menn komast ekki hjá því að sjúga drykk um strá eða rör þá verða menn að gæta þess vel að rörið lendi í endurvinnslu en ekki úti í náttúrunni.

Þorri

Mánuðurinn þorri hefst á föstudegi í 13. viku vetrar. Nú á bilinu 19. til 25. janúar en 9. til 15. janúar í gamla stíl fyrir 1700. Hann er fjórði mánuður vetrar í gamla norræna tímatalinu og upphaflega mun upphaf hans hafa miðast við fyrsta nýtt tungl eftir vetrarsólhvörf. Mánaðarheitið þorri kemur fyrir í elsta íslenska rímhandritinu frá lokum 12. aldar og einnig í Staðarhólsbók Grágásar frá 13. öld og í upptalningu mánaðanna í Snorra Eddu. Merking orðsins er ekki ljós og hafa verið settar fram margar kenningar um hana. Helstu tilgátur eru að orðið sé skylt lýsingarorðinu þurr, sögninni að þverra, nafnorðinu þorri í merkingunni „meginhluti“ og eins að Þorri gæti verið eitt nafna Þórs eða nafn á samnefndum fornkonungi.

Setrið; þar er ró og næði

Nú ættu allir að vita að búið er að opna Setrið. Í Setrinu er hægt að læra í friði og spekt fjarri Steypunnar glaumi. Það er fínt að nýta sér götin i stundaskránni og klára öll þessi verkefni sem kennarar hafa svo gaman af að setja fyrir. Og suma dag eru líka kennarar eða eldri nemendur á vaktinni sem geta liðsinnt nemendum með námsefnið. Látið ekki happ úr hendi sleppa. Námsgreinar í Setrinu á vorönn 2018: (lesa meira).

Lilja Alfreðsdóttir menntamála-ráðherra í heimsókn í FÁ

Í dag, 10. janúar kom Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra í heimsókn í skólann. Hún kynnti sér hið góða starf sem unnið er í FÁ, en skoðaði sérdeildina sérstaklega vel. Sérdeildin tók á móti góðum gjöfum í dag, Styrktarsjóður BYKO afhenti þrekhjól sem er sérstaklega útbúið fyrir hreyfihamlaða og Sunnusjóðurinn sem tvisvar áður hefur styrkt sérdeildina, færði deildinni dýrindis tölvu sem hægt er að stýra með augnaráðinu einu. Lilja ræddi við stjórnendur FÁ um menntamál og skólastefnu og áður en hún kvaddi hélt hún góða ræðu yfir kennara- og starfsliði skólans og voru það falleg orð sem gefa vonir um markvissa og skýra stefnu í menntamálum núverandi ríkisstjórnar. Við þökkum Lilju fyrir þann áhuga og hlýhug sem hún sýndi skólanum og ekki má gleyma að þakka Sunnusjóðnum og Styrktarsjóði BYKO fyrir höfðingarlegar gjafir. Sjá myndir á Facebooksíðu skólans