Umhverfisdagar 16.-18. apríl

Á mánudag, þriðjudag og miðvikudag í næstu viku standa nemendur í Umhverfisráði fyrir umhverfisdögum. Eins og undanfarin ár fá þeir nemendur sem taka þátt í viðburði (yfirleitt kl. 11.30 en einn er kl. 13.00) námsleyfi í kennslustund ef við á. Kynnið ykkur dagskrána. Einnig má benda á það hvað það gerir sálinni gott að tína upp rusl á leið í og úr skóla. Margar hendur vinna létt verk.

Glæpahneigð á sal

Á morgun, 12. apríl verður áhugaverður fyrirlestur á sal skólans. Þá mun Guy Sutton, sem er yfirmaður lyfjalíffræðideilar við háskólann í Nottingham, flytja erindi sem kallast „the criminal mind“ eða hinn glæpahneigði hugur. Fyrirlesturinn hefst klukkan 10:40 og það hlýtur mörgum að leika forvitni á að fá að vita hvað hann ætlar að fræða okkur um. Er hægt að nota taugalíffræði og taugameinafræði við lögreglustörf? Er til eitthvað sem kalla má meðfædda glæpahneigð? Kannski verðum við einhvers vísari um það á fyrirlestrinum?

Nemendaráð sjálfkjörið!

Kosningar til nemendaráðs fara EKKI fram á morgun því að frambjóðendur reyndust einmitt mátulega margir til að vera sjálfkjörnir. Það eru því aðeins skuggakosningarnar á morgun, þið munið það sem áður hefur komið fram, kosningarétt hafa þeir sem fæddir eru 30. maí 1996 og síðar.

Skuggakosningar 12. apríl

Á morgun, 11. apríl, munu stjórnmálamenn mæta á Sal kl. 11.30 og svara spurningum um sveitastjórnarkosningarnar sem haldnar verða þann 26. maí. Skuggakosningarnar sjálfar verða fimmtudaginn 12. apríl; allir sem eru fæddir eftir 28. apríl 1995 eru á kjörskrá en verða að mæta með skilríki því til sönnunar. Ekki verða aðeins Skuggakosningarnar haldnar heldur verður einnig kosið í stjórn nemendafélagsins (NFFÁ) fyrir næsta ár. Það er borgaraleg skylda að taka þátt í kosningum. Allir að mæta.

Borgarstjóri í stofu M301

Í dag, 6. apríl, mætti borgarstjórinn, Dagur B. Eggertsson í stjórnmálafræðitíma hjá Róbert Ferdinandssyni og nemendum hans. Urðu það fróðlegar og skemmtilegar umræður um gagn og nauðsynjar borgarbúa. Það er ekki að efa að heimsókn borgarstjóra hafi kveikt áhuga nemenda á borgarmálefnum og það er mikilvægt fyrir ungt fóllk að fylgjast með hvernig framtíðin er mótuð og helst að reyna að móta hana líka.

Gleðilega páska

Nú deyr vetur og vorið fæðist. Nýjar vonir klekjast úr páskaeggjum. Framundan er upprisa lífsins og alls gróanda.Nú er ekki eftir nema rúmur mánuður af önninni.  

Kennsla hefst aftur miðvikudaginn 4. apríl.

Sá á kvölina...

...sem á völina. Vali fyrir haustönn 2018 lýkur þann 6. apríl. Það er því eins gott að fara að huga að því hvaða áfanga menn ætla að taka í haust. Ef þið eruð í vafa er tilvalið að leita ráða hjá umsjónarkennara.

Andið eðlilega - kynning á sal

Ísold Uggadóttir, sem var valin besti leikstjórinn í flokki alþjóðlegra kvikmynda á Sundance-hátíðinni í Bandaríkjunum fyrir myndina "Andið eðlilega," kemur og kynnir myndina sína kl. 11.30 – 12.30 á morgun, miðvikudag 21.mars. Kynningin verður haldin í fyrirlestrarsal skólans. Vonandi sjá allir sér fært að kynnast myndinni og leikstjóra hennar.

Vorið kemur kl. 16:15

Klukkan 16:15, þriðjudaginn 20. mars 2018, gengur vorið formlega í garð. Með orðinu jafndægur er átt við þá stund þegar sól er beint yfir miðbaug jarðar, sem í fornu máli hét jafndægrishringur, og dagur og nótt eru jafnlöng um alla jörðina. Notuð eru orðin og orðasamböndin vorjafndægur, vorjafndægri, jafndægur á vori og jafndægri á vori og eru þau á tímabilinu frá 19.-21. mars en haustjafndægur, haustjafndægri, jafndægur á hausti eða jafndægri á hausti eru á bilinu 21.-24. september. (vísindavefur.is)

Eiðar - Frumsýning á morgun, 16.3.

Á morgun rennur upp stóra stundin. Leikverkið Eiðar verður frumsýnt og spennan er orðin gífurleg. Það verður gaman að sjá hvort uppskeran verði ekki eins og til er sáð. Allir unnendur FÁ, nemendur jafnt sem starfsfólk mega ekki missa af þessari skemmtun sem lofar góðu. Frumsýningin er á morgun, föstudag 16, en á laugardaginn verða tvær sýningar, klukkan 14 og 20 og lokasýningin á sunnudaginn kl. 20.

Já, það verður fjör á Eiðum!