Prófasýning í dag kl. 11:30-13

Í dag frá 11:30-13 er hægt að koma í skólann til að skoða prófin sín. Það er vel til fundið að sjá hvað fór vel og hvað fór úrskeiðis, þannig má alltént eitthvað læra af prófunum. Jafnframt prófasýningunni er unnt að ganga frá vali fyrir haustönnina.

Hvítasunnudagur

Í dag er hvítasunnudagur (áður fyrr stundum nefndur hvítdrottinsdagur, píkisdagur eða pikkisdagur). Hann er 49. dagurinn eftir páskadag og tíundi dagurinn eftir uppstigningardag. Forngrískt heiti hans er πεντηκοστή [ἡμέρα] (pentekostē [hēmera]) sem merkir fimmtugasti (dagur). Dagsins er minnst sem þess dags þegar heilagur andi kom yfir lærisveinana og aðra fylgjendur Jesú eins og lýst er í Postulasögunni og allir þekkja. Þá töluðu menn tungum og allir gátu skilið allt sem aðrir sögðu, hvort sem þeir voru að mæla á framandi tungu eða ekki. Í dag er Google Translate kominn í staðinn fyrir heilagan anda þegar við þurfum að skilja framandi tungur.

Seinasti kennsludagur

Í dag er seinasti kennsludagur þessa önn. Á morgun er uppstigningardagur sem tilvalið er að nýta til þess að lesa undir prófin, og hver veit nema góðir námshestar stigi í einkunn ef þeir eru duglegir við að úða lærdómstöðunni í sig. Á föstudag byrja svo fyrstu prófin og standa út alla næstu viku. Það er réttast að kynna sér próftöfluna vel en hana má finna á heimasíðu skólans. Vonandi gengur öllum vel við að þreyta prófin og þeir sem hafa stundað skólann vel þurfa ekki að óttast neitt. Ávöxtur iðjuseminnar er ríkulegur og af ávöxtunum skulum við þekkja þá iðnu.

Stína er í góðum höndum

Í byrjun maí fékk sjúkraliðabrautin nýja og fullkomna kennsludúkku til þess að nota við kennslu í hjúkrunaráföngum.  Dúkkan sem kallast Stína er ægifögur með mikið dökkt hár og ómótstæðileg augu og ekki er verra að með smá tilfæringum er hægt að setja margskonar sár á  Stínu, svo sem skurðsár á brjóst og læri, stungusár og legusár á ýmsum stigum. Jafnframt er hægt að skola maga Stínu, blása í lungun, þreifa fyrir æðum, setja upp þvaglegg og skipta á stomapoka.

Dimission

Á morgun munu útskriftarnemendur á stúdentsbrautum dimmitera. Samkvæmt hefðinni munu útskriftarefnin kveðja kennara og starfsfólk inni á sal í öðrum tíma (9:20) og því fellur kennsla niður þá stund. Nemendur eru hvattir til þess að fylla salinn og samfagna þem sem eru að kveðja skólann. Gaman, gaman.

Askur okkar allra - listsýning FÁ

Laugardaginn 28. apríl kl. 16-18, bjóða nemendur Nýsköpunar- og listabrautar Fjölbrautaskólans við Ármúla í Reykjavík til sýningar í Gallerí Tugt, en það gallerí er að finna í Hinu húsinu, Pósthússtræti 3-5, við hlið gömlu lögreglustöðvarinnar. Þar verða til sýnis lokaverkefni nemenda ásamt öðrum verkum sem nemendur hafa unnið um önnina. Vonandi sjá sem flestir sér  fært að mæta og ekki er verra að það er boðið upp á léttar veitingar. Sýningin verður opin til sunnudagsins 12.maí kl. 18.00 - Hlökkum til að sjá ykkur.

Hugið að umhverfinu

Í dag er dagur umhverfisins. Þá eiga menn að beina sjónum sínum að nánasta umhverfi sínu og sjá hvað betur má fara og laga.
Margt smátt gerir eitt stórt. Núna er tilvalið að tína upp rusl sem verður á vegi manns (við hvert fótmál) og koma þvi á réttan stað. Umgengni er innri maður, það upplyftir andanum og göfgar sálina að hafa hreint í kringum sig. Allt er breytingum undirorpið. Meðfylgjandi mynd er tekin árið 2004 - finnið fimm breytingar sem orðið hafa síðan myndin var tekin.

Jafnréttisdagar FÁ

Jafnréttisdagar FÁ fara fram dagana 24. og 25. apríl. Í tilefni þeirra verður opin dagskrá í fyrirlestrarsal skólans og allir hjartanlega velkomnir.

24. apríl: Dagskrá hefst kl 12:15 - 13:00: 
Sunna Líf Kristjánsdóttir, nemandi við Menntaskólann við Hamrahlíð, flytur fyrirlestur um birtingarmyndir nauðgunar.

Namjo Fiyasko, nemandi við Fjölbrautaskólann við Ármúla, flytur erindi.

25. apríl - Dagskrá hefst kl 12:00 - 13:00:
Sigga Dögg, kynfræðingur, flytur fyrirlestur um framtíð kynlífs.

Gleðilegt sumar

Vorvísa eftir Halldór Laxness

Hve bjart er veður,
 og blómið glatt er morgundöggin seður.
 Ó græna lífsins land!
 Ó lífsins Grænaland, ó lands míns gróður,
 leyf mér að elska þig og vera góður.

 Hve margt sem gleður.
 Í gljúpri lækjarseyru smáfugl veður.
 Ó dýra lífsins land!
 Ó lífsins Dýraland, ó land míns bróður,
 hvers lítils fugls, og draumur vorrar móður.

Nú er tími til að tengja

Í dag, seinasta vetrardag, voru tveir hleðslustaurar fyrir rafmagnsbíla  teknir í gagnið við FÁ. Andrúmsloftið var spennu þrungið þegar klippt var á borðann því nú verður auðveldara að mæta í skólann á hljóðlausum bíl sem nýtir sér íslenska orku. Ætli FÁ sé ekki einn fyrsti framhaldsskólinn til þess að koma sér upp staurum? Þess má geta að hleðslustöðvarnar eru jafníslensk framleiðsla og rafmagnið.