Ekki leifa! Klárið matinn!

Nú á að finnna út hversu mikil matarsóunin er í skólanum og hvernig má hjálpa til við að draga úr henni. Þessi athugun er unnið í samstarfi við Krúsku sem rekur mötuneyti skólans og veit því hve margir matarskammtar eru seldir daglega. Nemendur sem standa að verkefninu munu sjá um að vigta það sem fer í lífrænu fötuna eftir morgunmat og síðan aftur eftir hádegismat til að komast að raun um hversu miklu magni er hent miðað við selda matarskammta. Mælingar fara fram nú í vikunni frá mánudegi 16. október til fimmtudags 19. október. Síðan er ætlunin að vigta aftur í seinustu vikunni í október til að sjá  hvort og hversu mikil áhrif þetta átak hefur haft á matarsóun....(meira)...

Kosningafundur nr. 2

Í dag var seinni kosningafundur með fulltrúum stjórnmálaflokkanna og nú mættu menn frá Framsókn, Viðreisn, Vinstri grænum, Pírötum og Viðreisn. Fundurinn fór hið allrabesta fram og vonandi hafa fundargestir nú skýra hugmynd um hvaða flokk þeir ætla að veita atkvæði sitt í SKUGGAKOSNINGUNUM á morgun, 12. október. ALLIR sem fæddir eru 1995 eða seinna hafa atkvæðisrétt. Nýtið atkvæðið!

Kosningafundur nr. 1

Í dag var fyrri kosningafundur með fulltrúum flokkanna. Hingað mættu fulltrúar frá  Alþýðufylkingunni, Bjartri framtíð, Samfylkingunni og Sjálfstæðisflokknum. Salurinn var þéttsetinn áhugasömum nemendum sem spurðu fulltrúana út í stefnumál framboðanna og var fundurinn hinn ágætasti, var málefnalegur og þátttakendur kurteisir. Á morgun mæta fulltrúar Framsóknar, Vinstri-grænna, Pírata, Flokks fólksins og Þjóðfylkingarinnar. Sjá nokkrar myndir á Facebook.

Skuggakosningar 12. október

Í skugga yfirvofandi kosninga til alþingis ætlar FÁ að efna til skuggakosninga fimmtudaginn 12. október. Þá gefst öllum nemendum sem fæddir eru 1995 eða seinna tækifæri til þess að kjósa sinn flokk. Það verður spennandi að sjá hvort úrslit skuggakosninganna verða í samræmi við úrslit kosninganna sem fara fram þann 28. október. Í tilefni skuggakosninganna er gert ráð fyrir að fulltrúar flokkanna sem eru í framboði, komi í skólann til að kynna sín mál, þriðjudaginn 10. og miðvikudaginn 11. klukkan hálf tólf. Nemendur eiga auðvitað að mæta á fundina.

Góð tíðindi fyrir FÁ

Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur orðið við áskorun skólanefndar og starfsfólks Fjöl-brautaskólans við Ármúla þar sem óskað var eindregið eftir því að ráðningu nýs skólameistara yrði frestað til loka skólaárs.  Tímabundin setning Ólafs H. Sigurjónssonar í starf skóla-meistara FÁ hefur verið framlengd til 31. júlí 2018. Ráðherra hefur tekið ákvörðun um að hætta við ráðningu í embætti skólameistara Fjölbrautskólans við Ármúla að svo stöddu.

Sjáumst í myrkrinu...

Í hádeginu í dag, 4. okt., tóku nokkrir nemendur FÁ við endurskinsmerkjum úr höndum fulltrúa ADHD-samtakanna. Samtökin hafa um nokkurra ára skeið gefið út og selt endurskinsmerki til styrktar starfsemi sinni. Merkin eru með teikningum eftir Hugleik Dagsson og ný mynd á hverju ári. Formleg afhending nýs merkis markar upphaf Alþjóðlegs ADHD vitundarmánaðar í október og er fyrsta merkið / fyrstu merkin afhent einhverjum sem tengist þema mánaðarins hverju sinni. Í ár er athyglinni beint að ADHD og ungu fólki. Formleg sala hefst um næstu helgi og verður merkið selt um allt land.

Hugsaðu þér draum

Félag enskukennara efnir til smásögukeppni og er þemað DREAMS (draumar) - Hver skóli má aðeins skila þremur sögum svo að samkeppnin er hörð, nemendur FÁ eiga eflaust létt með að skrifa sögu um drauma sína?

Skilafrestur er til og með 5. desember. Smásögurnar skal senda á enskukennarar@gmail.com. (14 – 16 punkta letur í pdf skjali merkt þátttakanda). Þeir sem hafa áhuga á því að spreyta sig í sagnagerð, geta ráðfært sig við enskukennara sinn ef einhverjar spurningar vakna. Munum að draumar eru nauðsynlegur þáttur lífins enda "er allt sem við sjáum eða skynjun aðeins draumur innan draums" eins og smásagnameistarinn Edgar Allan Poe sagði.

Haustjafndægur - frítt í strætó

Í dag eru haustjafndægur og nóttin og dagurinn búa við jafnræði en upp úr þessu fer degi að halla. Í dag er líka bíllausi dagurinn og af því tilefni er frítt með strætó. Það er því spurning hvort hjólreiðakappar skólans mæti á hjólunum eða nýti sér þægindi strætisvagnanna. September er líka helgaður minni plastnotkun. Vonandi er enginn að drekka svaladrykk úr plastíláti þessa dagana. Plast er óvinur jarðarinnar.
Í tilefni bíllausa dagsins er að minnsta kosti rétt að minna á átakið "Hjólum í skólann" sem nú stendur yfir. Sjá nánar á http://hjolumiskolann.is/

Reykur er reykur

Það ætti ekki að fara fram hjá neinum að reykingar eru algerlega bannaðar í húsnæði skólans og einnig á skólalóðinni. Skiptir þá engu máli hvort reykurinn kemur úr sígarettu eða rafrettu.
Einhver brögð hafa verið að því að sumir haldi að gufustrókur úr rafréttu sé ekki reykur. Það er misskilningur. Allur útblástur nema bifreiða er bannaður við skólann.

Gettu betur - ef þú getur

Nú er að fara í gang liðssöfnun fyrir Gettu betur - lið skólans. Leitað er eftir mannlegum tölvuheilum sem hafa límheila og muna allar merkar og ómerkar staðreyndir í alheimi og helst sem ómerkilegastar - hvað vegur býfluga mörg míkrógrömm? Af hverju er himinninn blár? Þeir sem eru með góðan límheila ættu að skrá sig í þetta einvalalið og láta ljós sitt skína í spurningakeppninni. Skráning er á skrifstofunni.