25.04.2023
Um síðustu helgi fór hópur nemenda og kennara úr FÁ í heimsókn til Dijon í Frakklandi, alls 15 nemendur og 4 kennarar. Þau eru þátttakendur í Erasmus+ verkefni sem ber yfirskriftina “Global Awareness in Action” og er verið að vinna með það að við séum meðvituð um sjálfan okkur og hvernig okkur líður, að við séum meðvituð um aðra og um umhverfi okkar til framtíðar. Þau verða úti í Frakklandi í 10 daga og munu vinna alskyns verkefni með frökkunum ásamt því að skoða áhugaverða staði í Dijon. Hér sjáum við nokkrar myndir úr ferðinni.
13.09.2022
Þessa dagana erum við með heimsókn frá Dijon í Frakklandi í FÁ, 15 nemendur og 4 kennara. Þetta eru þátttakedur í Erasmus+ verkefni sem ber yfirskriftina Global Awareness in Action og þar er verið að vinna með það að við séum meðvituð um sjálfan okkur og hvernig okkur líður, að við séum meðvituð um aðra og séum meðvituð um umhverfi okkar til framtíðar.Hópurinn er búinn að koma víða við. Hann er búinn að gera ýmis verkefni í skólanum, fara í vettvangsferð um miðbæinn, Nauthólsvík og gönguferð um Búrfellsgjá.
Aðalferðin var svo um síðustu helgi þegar hópurinn fór í tveggja nátta ferð í Þórsmörk. Þar fóru þau meðal annars yfir Krossá og inn í Húsadal og þaðan í göngutúr upp á Valahnjúk. Fóru þau síðan inn í Bása þar sem þau gistu. Á laugardeginum var langur göngudagur þar sem farið var upp Strákagil, yfir Kattahryggina og upp að Heljarkambi þar sem þau borðuðu hádegismat. Tóku þau svo Hestagötur aftur í Bása, ótrúlega fallegt svæði. Mikil upplifun hjá öllum í hópnum og allir svo glaðir. Á sunnudeginum var svo kyrrðarganga í nágrenni Bása og svo var haldið heim á leið með viðkomu í Stakkholtsgjá og Seljalandsfossi.
Dagskráin hjá hópnum heldur svo áfram í þessari viku og þá munu þau meðal annars fara Gullna hringinn og í Hellisheiðarvirkjun, fara á listasöfn og ganga upp í Reykjadal.
Ómetanlegt tækifæri fyrir ungt fólk að taka þátt í svona skemmtilegu verkefni og safna reynslu og minningum til framtíðar.
Fleiri myndir úr Þórsmerkurferðinni má sjá á Facebook síðu skólans.