02.12.2024
Litlu jól framhaldsskólanna fóru fram í Fjölbrautaskólanum við Ármúla fimmtudaginn 28. nóvember en viðburðurinn var haldinn af FÁ, Tækniskólanum og MS. Fjölmargir framhaldsskólanemar mættu á Litlu jólin og sló loftslagsvæna kakóið algjörlega í gegn hjá nemendum. Tilgangur viðburðarins var að fræða nemendur um loftslagsmál með skemmtilegum hætti. Hringrásarhagkerfið var allsráðandi á viðburðinum og hver einasta smiðja úthugsuð frá umhverfissjónarmiði. Viðburðurinn gekk afskaplega vel og söfnuðust 37 þúsund krónur til styrktar Barnaheilla.
25.11.2024
Umhverfisráð FÁ fékk á önninni 500 þúsund króna styrk til að efla samvinnu framhaldsskóla í umhverfismálum og halda umhverfisviðburð fyrir ungmenni í Reykjavíkurborg. Samstarfsskólar FÁ í verkefninu eru Tækniskólinn og Menntaskólinn við Sund.
Umhverfisráðin í skólunum þremur koma til með að skipuleggja viðburðinn saman og hafa tekið ákvörðun um að halda jólaviðburð þar sem umhverfismálin eru í brennidepli í öllu skipulaginu. Viðburðurinn verður haldinn þann 28. nóvember næstkomandi í FÁ og er opinn öllum framhaldsskólanemum, þvert á skóla.
Frábært að mæta og komast í gott jólaskap, gæða sér á kakói, hlusta á jólatónlist, styrkja góðgerðamál, föndra, næla sér í jólafötin á fataskiptimarkaði og eiga góða samverustund með vinum!
Öllum nemendum og ungmennum á framhaldsskólaaldri er boðið að koma í Fjölbrautaskólann við Ármúla á milli 14-16 þann 28. nóvember og eiga frábæra stund á Litlu jólum framhaldsskólanna!
Hægt verður að koma ókeypis með Hopp hlaupahjóli á staðinn, en sérstakur lendingarpuntkur verður settur fyrir framan skólann.
Láttu sjá þig á litlu - en risastóru jólum framhaldsskólanna! 🙂
16.10.2024
Rafrusladagurinn var haldinn um allan heim í vikunni og tók skólinn þátt í vitundarvakningunni.
Áhersla rafrusladagsins í ár eru biluð, ónýt eða ónotuð raftæki sem fólk geymir á heimilum sínum. Mörg lítil raftæki er oft finna í skúffum heimila t.d. gamlir farsímar, snúrur, USB-lyklar, kortalesarar, leikjatölvur, smáheyrnartól og þess háttar.
Raftæki eru allir hlutir sem eru með kló, snúru eða rafhlöðu.
Til hvers að endurvinna raftæki?
Raftækjaúrgangur inniheldur mikið af verðmætum; sjaldgæfum málmum (t.d. kopar og gull) og fleiri efnum sem mikilvægt er að koma í endurvinnslu. Mörg raftæki innihalda auk þess efni sem eru skaðleg umhverfinu, fari þau ekki í réttan farveg.
Hver er skaðinn?
Aðeins um 17 prósent af rafrusli heimsins ratar í fullnægjandi endurvinnslu. Gríðarlegt magn af raftækjaúrgangi verður til á hverju ári og er umfangið sífellt að aukast. 62 milljón tonn af raf- og rafeindatækjaúrgangi á heimsvísu árið 2022. Þetta magn jafngildir því að 1,55 milljón vörubílum, hlöðnum rafrusli, yrði stillt upp við miðbaug jarðar og næðu allan hringinn.
Eftir hvern Íslending liggja um 24 kíló af rafrusli á ári. Samtals vegur árlegt rafrusl landsmanna um níu þúsund tonn.
Hvað getum við gert?
Við getum athugað hvort gömul raftæki liggi í skúffum og skápum og skilað þeim á næstu endurvinnslustöð. Elko tekur einnig á móti gömlum raftækjum og í sumum tilfellum er hægt að skila þeim og fá inneignarnótu í staðinn.
Viltu finna milljón?
Sumum raftækjum er hægt koma í viðgerð, gefa/selja og lengja þannig líftíma þeirra. Þá leynast oft raftæki í fullkomnu standi inná heimilum fólks sem safna ryki og bíða eftir nýjum áhugasömum eiganda.
Hægt er að kynna sér málið enn betur á vefsíðu Saman gegn sóun https://samangegnsoun.is/raftaeki/ og á vefsíðu Úrvinnslusjóðs https://www.urvinnslusjodur.is/um-urvinnslusjod/utgafa/tilkynningar/althjodlegi-rafrusldagurinn.
30.09.2024
Borgarráð hefur samþykkt að veita 500.000 króna styrk fyrir verkefninu „Loftslagspartý framhaldsskólanna“. Verkefnið gengur út á að efla samvinnu framhaldsskóla í umhverfismálum og halda stóran loftslagsviðburð fyrir ungmenni í Reykjavíkurborg. Samstarfsskólar Fjölbrautaskólans við Ármúla í verkefninu eru Tækniskólinn og Menntaskólinn við Sund. Umhverfisráðin í skólunum þremur koma til með að skipuleggja loftslagsviðburðinn saman og verður hann haldinn fyrir lok árs.
Loftslagssjóður ungs fólks í Reykjavík er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Bloomberg philanthropies. Markmið sjóðsins er að virkja ungt fólk í leit að lausnum á loftslagsvandanum en sjóðurinn veitir styrki til verkefna sem eru hönnuð og unnin af ungu fólki á aldrinum 15-24 ára og hafa beina skírskotun í loftslagsáætlun borgarinnar.
Styrkurinn var afhentur við fallega athöfn í Höfða í dag og mættu fulltrúar frá umhverfisráði FÁ á afhendinguna, þær Thelma Rut Þorvaldsdóttir og Bríet Saga Kjartansdóttir. Við óskum þeim og umhverfisráðum skólanna innilega til hamingju með styrkinn.
26.09.2024
Nemendur í umhverfisfræði fóru í heimsókn í þjóðgarðinn á Þingvöllum í gær í dásemdar haustveðri. Þar tók Torfi Stefán Jónsson, fyrrum sögukennari í FÁ og núverandi fræðslufulltrúi á Þingvöllum, á móti nemendum og fengu þau fræðandi og skemmtilega leiðsögn um svæðið. Alltaf jafn skemmtileg ferð hjá umhverfisfræðinni á Þingvelli.
16.09.2024
Í tilefni dagsins gróðursettu nemendur og starfsfólk við fjölbrautaskólann fimm rifsberjarunna við enda lóðarinnar, þar sem leikskólinn Múlaborg er staðsettur. Var þetta gert í samstarfi við leikskólann og leikskólabörnin hjálpuðu til við gróðursetninguna. Vonin er að bæði skólastigin njóti góðs af berjunum sem þar munu vaxa um ókomna tíð. Gróðursetningin er liður í því að efla samstarf skólanna tveggja sem hafa verið vinaskólar til margra ára.
29.04.2024
Hópur frá skólanum IES Tegueste á Spáni kom í heimsókn í FÁ dagana 15. – 19. apríl en skólinn er samstarfsskóli okkar í Erasmus+ verkefninu A Green Day sem er umhverfismiðað verkefni. Fimm nemendur og þrír kennarar sóttu FÁ heim og þessa viku sem þau voru í heimsókn hjá okkur hjálpuðu nemendur FÁ þeim að útbúa handbók um Grænfánann, alþjóðlega umhverfisviðurkenningu sem á ensku kallast Eco- Schools. FÁ er sá framhaldsskóli á Íslandi sem hefur lengst flaggað grænfánanum og nemendur okkar því vel í stakk búnir að aðstoða við gerð handbókarinnar. Ásamt því að vinna að handbókinni fóru gestirnir ásamt gestgjöfunum Gullna hringinn og á náttúrusýninguna í Perlunni. Spánverjarnir voru „heppnir“ með veður en eins og tíðkast í apríl á Íslandi var allra veðra von og þau fengu allt frá snjókomu yfir í glampandi sól og aðspurð sögðu þau að það hefði verið einn af hápunktunum, að geta farið í snjókast í apríl.
Í nóvember fer sami hópur og tók á móti gestunum hér heima út í heimsókn til IES Tegueste sem er staðsettur norðanmegin á eynni Tenerife. Þar munu nemendur okkar læra að reikna kolefnissporið sitt og halda áfram að styrkja tengslin við þennan frábæra vinaskóla.
28.06.2023
Freyr Thors, nemandi í FÁ vann í vikunni verðlaun fyrir ljósmyndina sína “We don´t care, do you? “ í alþjóðlegri ljósmyndakeppni á vegum Umhverfisstofnunar Evrópu.
Freyr tók þátt í samkeppni í vor á vegum Landverndar sem ber heitið Umhverfisfréttafólk og snýst um að koma umhverfismáli að eigin vali á framfæri við almenning með fjölbreyttum leiðum. Þar varð mynd Freys í öðru sæti í flokki framhaldsskólanema. Var myndin síðan send út í alþjóðlegu keppnina fyrir Íslands hönd.
Um 495 þúsund nemendur frá 43 löndum taka þátt í keppninni árlega og er hægt að vinna til verðlauna í nokkrum flokkum. Myndin hans Freys vann í flokknum Young European Reporters (YER) í flokki ljósmynda: Single photo campaign 11 - 25 years.
Ljósmyndin sem Freyr tók er ætlað að tákna tortímandi neyslu mannkyns. „Karakterinn á að tákna græðgi mannkyns og viðhorf til plánetunnar, samþjappað í einn karakter, eða einhverskonar veru“.
Verðlaunin eru mikill heiður fyrir Frey, ljósmyndakennarann Jeannette Castione og fyrir Landvernd/Grænfánann sem stendur fyrir keppninni hérlendis með verkefninu Umhverfisfréttafólk.
Við óskum Frey hjartanlega til hamingju með sigurinn!
10.05.2023
Á ári hverju býðst ungu fólki í grunn- og framhaldsskólum að taka þátt í samkeppni á vegum Landverndar. Samkeppnin ber heitið Umhverfisfréttafólk og snýst um að koma umhverfismáli að eigin vali á framfæri við almenning með fjölbreyttum leiðum.
Fjölmörg verkefni bárust í keppnina, voru þau af ólíkum toga og komu frá skólum víðsvegar af landinu.
Freyr Thors nemandi í FÁ varð í öðru sæti í keppninni með ljósmyndina “We don't care, do you?“
Hér má sjá umsögn dómnefndar um verkið: Skapandi gjörningur og kraftmikil nálgun á stórt og erfitt viðfangsefni á veraldarvísu. Myndin er einföld, afhjúpandi og sterk með marglaga skilaboð um neysluhyggjuna og vanmátt manneskjunnar gagnvart eigin breyskleika. Myndin fjallar um græðgi, sóun og ábyrgð og ábyrgðarleysi. Verkið er sláandi og hugvekjandi með djúpri hugsun og beittri sýn. Sannleikurinn berskjaldaður og einlægur. Verkið er listrænt og frumlegt og listamaðurinn sýnir áræði og sjálfstæði.
Hér má sjá fleiri úrslit í keppninni
Innilegar hamingjuóskir Freyr.
16.02.2023
Í gær tók Fjölbrautaskólinn við Ármúla við Grænfánanum í níunda skiptið. Erum við mjög stolt hér í skólanum en FÁ er sá framhaldsskóli sem hefur oftast fengið Grænfánann.
Grænfáninn er alþjóðlegt umhverfismenntarverkefni sem rekið er af Landvernd á Íslandi. Grænfáninn sjálfur er viðurkenning eða verðlaun til skóla sem vinna að sjálfbærnimenntun á einhvern hátt. Hver skóli vinnur eftir skrefunum sjö, setur sér markmið og virkir nemendur.
Sigurlaug Arnardóttir frá Landvernd mætti í skólann og afhenti Magnúsi skólameistara og Öldu Ricart formanni umhverfisnefndar fánann úti í fallegu vetrarveðri. Eftir að fáninn var dreginn að húni bauð nemendafélag skólans öllum upp á ís frá Skúbb.