Umhverfisveggurinn

  Nemendur í umhverfisnefnd FÁ fengu þá hugmynd í haust að gera umhverfisvegginn í skólanum aðeins líflegri og skemmtilegri. Umhverfisveggurinn er veggur þar sem umhverfisnefndin getur komið fram ýmsum upplýsingum til nemenda. Nefndin fékk nemendur í nýsköpunar- og listabrautinni til að taka verkið að sér undir stjórn Jeannette Castioni kennara á listabrautinni. Byrjað var á listaverkinu í umhverfisvikunni sem var haldin um miðjan nóvember. Náði hópurinn að klára núna í vikunni og er útkoman stórglæsileg, líflegur og litríkur veggur með mikilvægum skilaboðum um umhverfismál.  Fátt er skemmtilegra en lifandi og skapandi skólastarf þar sem allir dafna og blómstra.  

Umhverfisdagar FÁ 2022

  Umhverfisdagar FÁ verða haldnir miðvikudaginn 23.febrúar og fimmtudaginn 24.febrúar. Við fáum skemmtilega fyrirlestra. Á miðvikudaginn kemur Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra og verður með fyrirlestur í fyrirlestrarsal kl. 12.00 - 12.30. Svo verður kahoot með umhverfisívafi í hádeginu. Á fimmtudaginn kemur Vigdís frá Landvernd og verður með erindið „Tökum umhverfismálin í okkar hendur“ í fyrirlestrarsal klukkan 12-12:30. Eingöngu veganréttir verða í boði í matsal þessa daga. Nemendur í umhverfisráði standa fyrir umhverfisfróðleik á veggjum og vonandi sitthvað fleira í pokahorninu.    

FÁ stígur grænu skrefin

      FÁ tekur þátt í verkefninu „Græn skref í ríkisrekstri.“ Mikil vinna hefur verið lögð í það hjá FÁ undanfarið að ná að uppfylla Grænu skrefin og nú hefur FÁ náð þeim frábæra árangri að uppfylla fjögur af fimm skrefum. Verkefnið Græn skref er fyrir ríkisstofnanir sem vilja draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sinni og efla umhverfisvitund starfsmanna. Með þátttöku í Grænum skrefum gefst stofnunum tækifæri á að innleiða öflugt umhverfisstarf með kerfisbundnum hætti undir handleiðslu sérfræðinga Umhverfisstofnunar. Aðgerðum Grænna skrefa er skipt í 7 flokka sem ná yfir helstu umhverfisþætti í venjulegum skrifstofurekstri. Skref 1-4 innihalda aðgerðir í öllum þessum flokkum. Hér má lesa nánar um Grænu skrefin.      

Mynd nemanda FÁ til sýnis á COP26 ráðstefnunni í Glasgow

  Verðlaunaljósmynd Írisar Lilju, nemanda í Fjölbrautaskólanum í Ármúla er nú til sýnis á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Glasgow, COP26. Íris Lilja vann myndina í ljósmyndaáfanga við Fjölbraut í Ármúla og heitir mynd hennar “Sæt tortíming”. Myndin lenti í fyrsta sæti í keppninni Ungt Umhverfisfólk 2021 í maí síðastliðnum. Myndin var svo send í Evrópukeppnina Climate Change Pix sem er ljósmyndakeppni á vegum Young Reporters for the Environment. Íris Lilja hlaut ungmennaverðlaun þeirri keppni. Um 400 þúsund ungmenni í 44 löndum tóku þátt. Það er mikill heiður fyrir Írisi að mynd hennar sé til sýnis á loftlagsráðstefnunni í Glasgow. Á ráðstefnuna mæta þjóðarleiðtogar og embættisfólk frá löndum um allan heim og m.a. um fimmtíu manna hópur frá Íslandi, ráðherrar, þingmenn og embættisfólk. Ráðstefnan hófst á sunnudaginn 31. október og er til 12. nóvember Hér er linkur á frétt frá RÚV um Írisi: https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/frettir-kl-19-00/27717/95bqek/ljosmynd-a-loftslagsradstefnu    

FÁ-nemar verðlaunaðir af Landvernd

Í dag veitti Sigurlaug Arnardóttir, sérfræðingur hjá Landvernd, FÁ-nemendum verðlaun fyrir tvö sigurverkefni í samkeppninni "Ungt umhverfisfréttafólk" en keppnin er ætluð sem valdeflandi vettvangur fyrir ungt fólk til að kynna sér umhverfismál með gagnrýnum hætti og miðla upplýsingum til almennings eftir fjölbreyttum leiðum. Í ár bárust verkefni frá tíu framhaldsskólum en fyrsta sætið hlaut Íris Lilja Jóhannsdóttir fyrir ljósmynd sína; „Sæt tortíming“. Þetta hafði dómnefnd að segja um ljósmynd Írisar: „Ein mynd segir oft meira en þúsund orð. Þessi listræna nálgun á hækkandi hitastig jarðar og neysluhyggju okkar grípur strax augað og vekur mann til umhugsunar.“ Mynd Írisar verður send fyrir hönd Íslands í alþjóðlegu keppnina, en verkefnið er rekið í 45 löndum víðsvegar um heiminn (Young reporters for the environment). Þær Indíana Ásmundsdóttir, Katrín Ása Wongwan, Priyanka Dana Antao og Tinna Hilmarsdóttir áttu besta verkefnið að mati ungs fólks (Ungir umhverfissinnar, Samband íslenskra framhaldsskólanema og Landssamtök íslenskra stúdenta) fyrir vefsíðu sína um áhrif snyrtivara á umhverfið. Dómnefndin hafði þetta að segja um netsíðuna þeirra: „Vel unnið verkefni sem styðst við áreiðanlegar heimildir. Flott að vekja athygli á þessu vandamáli því það er ekki oft í sviðsljósinu. Mikilvægt er að fræða samfélagið um þær slæmu afleiðingar sem sumar snyrtivörur hafa á umhverfið og vera meðvitaður um þá mengun sem hlýst af framleiðslu þeirra. Áhrif af snyrtivörum eru beintengd við heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna og við erum sammála höfundum verkefnisins – margt smátt gerir eitt stórt!“ HÉR má sjá myndband sem fjallar um sigurverkefnin í ár og HÉR má kynna sér þessa árlegu samkeppni betur.  Til hamingju með frábær verkefni!