Forvarnavika í FÁ

Liðin vika var helguð fjölbreyttum forvörnum í FÁ - enda margir ólíkir þættir sem koma að heilbrigðu lífi framhaldsskólanema.

Við fengum til okkar frábæra fyrirlesara sem fjölluðu um misnotkun á vímuefnum, of lítinn svefn Íslendinga, forvarnir gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða, og tengsl sjálfsmyndar og kynheilsu. 

Þá stóð alla vikuna uppi bás þar sem meðlimir nemendaráðs tóku að sér sölu á varningi til styrktar nokkrum forvarnaverkefnum. Salan gekk vonum framar og nemendaráðið hlakkar til að afhenda Stígamótum, "Á allra vörum" og "Eitt líf" ágóða upp á 81.000 kr. 

Dagur íslenskrar náttúru

Mánudagurinn 16. september var helgaður íslenskri náttúru og fagnaði Umhverfisráð FÁ þeim degi með nemendum og starfsfólki. Fólk var hvatt til að mæta í grænum fötum þann dag og skilja einkabílinn eftir heima. Þá komu Eyþór Eðvaldsson, stjórnarformaður Votlendissjóðsins, og Einar Bárðason, framkvæmdastjóri hans, í heimsókn í skólann. Eyþór hélt fyrirlestur um endurheimt votlendis og var dúndurmæting á erindið. Loks afhentu nemendur í Umhverfisráðinu sjóðnum peningagjöf en hluta hennar söfnuðu nemendur sjálfir með því að halda fatamarkað á Umhverfisdögum síðasta vor.

Við hvetjum áhugasama til að kynna sér Votlendissjóðinn og störf hans á https://votlendi.is/

Nýnemadagurinn 2019

Okkar yngstu og nýjustu nemendur voru formlega boðnir velkomnir í skólann í dag. Svarta liðið bar sigur úr býtum í þrautakeppni á milli nýnemabekkja og vann sér inn bikar og bíómiða. Pylsur voru grillaðar í dásamlega veðrinu, undir tónum Bjarna töframanns, og nýnemar svo loks ferjaðir út í Viðey í leiki, pizzu og köku.

Fjarnám - skráning í gangi...

Nú er skráning í fjarnám við FÁ á fullu skriði og stendur fram til 3. september. Fjarnám er góður kostur fyrir þá sem ekki eiga auðveldlega heimangengt á daginn en geta notað kyrrð og ró heimilisins til þess að lesa og læra, hvort sem þeir halda heimili á jörðinni eða tunglinu. Vegurinn þekkingarinnar liggur úr myrkviðum til ljóssins. Allt að 80 áfangar í boði. Kannið möguleikana hér á síðunni og smellið á FJARNÁM -tengilinn hér að ofan.

Siglt út á þekkingarhafið

Nú er skólinn að komast í gang, hægt og sígandi en af krafti eins og gamall togari sem leysir landfestar og siglir út á opið haf og kastar þar út netum. Hver aflinn verður kemur seinna í ljós en vonandi verður trollið fullt. Um borð í togaranum eru 935 nemendur munstraðir í dagskólanum, þar af 123 nýnemar.

Á mánudaginn, 26. ágúst verður fundur með foreldrum nýnema en á föstudaginn kemur, þann 30. ágúst verður haldið upp í nýnemaferð jafnframt sem nemendum og starfsfólki verður boðið upp á grillaðar pylsur.

Haustönnin hefst þann 15. ágúst

Haustönnin hefst þann 15. ágúst en þá opnast stundatöflurnar í INNU. Til að komast inn í INNU þarf annað hvort rafræn skilríki eða Íslykil. Nánari upplýsingar um hvernig hægt er að nálgast rafræn skilríki er á https://www.audkenni.is/ og allt um Íslykil er hér https://innskraning.island.is/order.aspx.

Töflubreytingar verða fimmtudag 15. ágúst kl. 13:00 – 16:00 og föstudag 16. ágúst kl. 10:00 – 15:00. Einnig er hægt að senda beiðni um töflubreytingu á netfangið toflubreytingar@fa.is

Þann 14. ágúst eru á dagskrá fundir nýnema og foreldra þeirra með umsjónarkennurum. Nánari tímasetningar þessara funda eru í bréfi sem foreldrar/forráðamenn nýnema hafa fengið frá skólameistara.

Starfsfólk FÁ hlakkar til haustannar og býður alla nýja og gamla nemendur velkomna til starfa.

Blómatími - sumarlokun frá 24.júní - 7. ágúst

Nú er rólegt og friðsælt í Ármúlaskóla enda flestir úti að anga að sér blómailmi sumarsins. En þrátt fyrir sólartíð er skrifstofan ennþá opin en hún verður LOKUÐ vegna sumarleyfa frá 24.júní til og með 6.ágúst. Skrifstofan verður opnuð aftur miðvikudaginn 7.ágúst kl. 8.00

Útskrift klukkan 13 í dag

Vorið hefur farið um okkur mildum höndum og vonandi verður sumarið ljúft. Það sama má segja um þá nemendur sem í dag ná mikilsverðum áfanga í lífi sínu þegar þeir kveðja skólann sinn. Vonandi bíður þeirra allra farsælt líf, núna þegar ævisumar þeirra er að byrja.

Í dag útskrifast frá skólanum 118 nemendur og þar af 9 af tveimur brautum. 38 nemendur útskrifast af heilbrigðissviði, sem skiptast svo eftir námsbrautum: 4 útskrifast sem heilsunuddarar, 3 sem læknaritar, 2 sem lyfjatæknar, 10 sem tanntæknar og loks 19 sem sjúkraliðar. Frá nýsköpunar og listabraut útskrifast 4 nemendur. Stúdentar eru 75. 28 útskrifast af félagsfræðibraut, af náttúrufræðibraut útskrifast 13, af hugvísinda- og málabraut 9, af viðskipta- og hagfræðibraut útskrifast 6 og með viðbótarnám til stúdentsprófs að loknu starfsnámi 19. Til viðbótar þessu útskrifast 9 nemendur af sérnámsbraut.

Gleðilegt sumar! Útskrift vorið 2019

Það var gleðileg athöfn í FÁ þegar 118 nemendur fengu skírteinin sín í hendur og ekki spilli góða veðrið fyrir. Góður rómur var gerður að ræðu 25 ára stúdentsins hennar Söru Daggar Svanhildardóttur og athöfninni var slitið með því að allir, starfsmenn, stúdentar og gestir og gangandi hófu upp raust sína og sungu Sumarkveðju eftir Inga T. Lárusson.

Í útskriftarræðu sinni hvatti Magnús Ingvason, skólameistari Fá nemendur til að einblína á styrkleika sína og vinna í veikleikunum. Ennfremur hvatti hann nemendur til að lifa lífi sem veitti þeim vellíðan og gleði, en ekki lífi sem bara lítur vel út. Lífið þyrfti ekki að vera fullkomið til að vera gott. Loks minnti hann nemendur á að lífinu fylgdi engin fjarstýring - maður þyrfti sjálfur að standa upp og gera hlutina.

Dúx skólans er Ástrós Ögn Ágústsdóttir sem útskrifast af Náttúrufræðibraut með 9,1 í meðaleinkunn.

Á facebook-síðu FÁ má sjá nokkrar myndir frá minnisverðri útskriftinni

Fjarnám FÁ fær gæðastimpil frá iCert

Í dag var skólanum formlega afhent vottunarskjal vegna gæðavottunar fjarnámsins. Það er vottunarstofan iCert sem er vottunaraðili og afhenti skólanum skjalið. Fjarnámið uppfyllir kröfur sem tilgreindar eru í staðlinum ÍST EN ISO 9001:2015.

Fjarnám FÁ er eina vottaða fjarnámið sem stundað er á Íslandi, en þetta ferli hefur tekið nánast 7 mánuði og margir lagt hönd á plóg. Öllum þeim eru færðar miklar þakkir.

Skráning í sumarönn fjarnáms FÁ hefst þann 25. maí.