Skráning á vorönn stendur enn yfir.

Í gær féll fyrsti snjórinn en á morgun, fimmtudaginn 6. desember er síðasti kennsludagur haustannar. Við tekur snörp prófatíð og vonandi komast allir í gegnum þá orrahríð óskaddaðir. Eftir éljagang prófanna kemur langþráð jólafrí og vonandi ná menn að safna orku fram á næstu önn en kennsla hefst þann 8. janúar á nýju ári. Það skal bent á að enn er hægt að skrá sig til náms á vorönn 2019, og stendur sá möguleiki opinn fram í miðjan þennan mánuð. En nú er það prófin, gangi ykkur öllum allt í haginn, nemendur góðir.

Dimission -

Í dag var gleði og glaumur í FÁ þegar hópur hvítklæddra útskriftarnema skrattaðist um skólann. Eftir glens og gaman í salnum var hópnum boðið að fá sér kaffi og rúnstykki og súkkulaðiköku. Í kvöld mun svo hópurinn hittast á góðum stað ofan í bæ og skemmta sér meir og vonandi fer allt vel fram. Við óskum þeim velfarnaðar í komandi prófum og svo verður útskrift frá FÁ 21. des. 

Skólar ganga um skólaganga

Undanfarinn mánuð hefur stundum mátt sjá herskara ungmenna skunda um ganga skólans, ungt fólk sem er að ljúka grunnskólagöngu og ætlar að hefja framhaldsskólagöngu. Þetta eru nemendur tíunda bekkjar sem koma í FÁ til að kynna sér skólann og ágæti hans, mestmegnis nemar úr nágrannaskólunum eins og til dæmis Háleitis- Austurbæjar-, Háteigs, Hlíðaskóla og Réttarholtsskóla en í dag voru það ungmenni úr Laugalækjarskóla sem gengu um ganga FÁ. Það er von okkar að flest þessara ungmenna eigi eftir að ganga um skólaganga FÁ á skólagöngu sinni.

Leikurinn er rétt að byrja...

Það er alltaf jafn gaman að sjá þessa auglýsingu birtast á vegg skólans. Skólaleikritið eða söngleikurinn er einn af hápunktum skólastarfsins og hingað til hefur engin orðið fyrir vonbrigðum með framlag nemenda til menningar og skemmtunar innan skólans. Það er hinn listvitri Sumarliði sem stjórnar sem áður og ekki hægt að hugsa sér betri mann til þess. Vonandi er ennþá pláss fyrir áhugasama nemendur að sækja um að fá að vera með í ævintýrinu.

Örplast er lævís skaðvaldur...

Á morgun, föstudaginn 16, sem er reyndar dagur íslenskrar tungu, kemur Rannveig Magnúsdóttir í heimsókn í FÁ til að segja okkur allt um örplast og plastmengun. Rannveig er líffræðingur og hefur verið ötul í að fræða almenning um mikilvægi náttúruverndar og áhrif manna á umhverfið. Allir sem hafa áhyggjur af velferð móður jarðar, ekki síst unga fólkið sem á mest undir að framtíðin verði sjálfbær, eru hvattir til að mæta í Salinn klukkan 13.00 og hlýða á fróðlegt erindi. Þekking er vald!

Lífið er ein fantasía...

Á morgun, fimmtudaginn 15. nóvember, mun rithöfundurinn Emil Hjörvar Petersen koma í heimsókn og tala um fantasíubækurnar sínar, hvernig hann vinnur þær með því að leita uppi gömul orð og endurglæða þau lífi og hvernig hann beitir orðaforðanum. Fyrirlesturinn verður í Salnum og hefst klukkan 12:00 - Allir sem unna skrifum eða lestri ættu að láta sjá sig. Hinir mega líka koma. Kannski kviknar þá áhuginn fyrir góðum sögum? Lífið er ein allsherjar fantasíusaga.

Japan að fornu og nýju.

Á morgun koma Villimey Sigurbjörnsdóttir ásamt Tomoko Daimaru fyrir hönd japanska sendiráðsins og munu halda fyrirlestur hjá okkur um "Samfélags- og menningarleg einkenni Japans að fornu og nýju." Fyrirlesturinn verður í fyrirlestrarsal skólans og hefst klukkan 12. Þeir sem hafa opinn huga og eru fullir áhuga um eyríkið í austri mega ekki láta þetta einstaka tækifæri sér úr greipum ganga.

Kristrún Birgisdóttir ráðin aðstoðarskólameistari FÁ

Kristrún Birgisdóttir, sérfræðingur á greiningarsviði Menntamála-stofnunar hefur verið ráðin aðstoðarskólameistari Fjölbrautaskólans við Ármúla. Kristrún lauk stúdentsprófi frá Flensborgarskólanum árið 2006, BA í uppeldis- og menntunarfræðum við HÍ árið 2009 og framhaldsnámi í náms- og starfsráðgjöf árið 2010. Ennfremur lauk Kristrún viðbótarnámi í opinberri stjórnsýslu fyrir stjórnendur í opinberum rekstri í júní 2018.

Frá árinu 2010 til 2015 starfaði Kristrún sem sérfræðingur í framhaldsskóladeild Menntamálaráðuneytisins og frá árinu 2015 hefur hún starfað sem sérfræðingur á greiningarsviði Mennta-málastofnunar.
Alls voru umsækjendur um starfið 21 talsins. Þeim er öllum þakkaður áhugi á starfinu með ósk um bjarta framtíð.

Val fyrir vorönn 2019

Sá á kvölina sem á völina, er stundum sagt en það er varla mikil pína að velja nám fyrir næstu önn. Það er bara að fara inn á INNU og ganga frá valinu. Valið er opið fram til 2. nóvember og því ekki seinna vænna að ganga frá því ef það hefur ekki þegar verið gert. Umsjónarkennarar eru til aðstoðar ef einhverjar spurningar í sambandi við valið vakna.

Vetur kóngur knýr á dyr

Fyrsti vetrardagur er í dag. Nú fer að frysta og snjóa og myrkrið grúfir sig yfir landið. En örvæntum ekki. Sumardagurinn fyrsti kemur eftir sex mánuði. Nú eru ekki nema rúmlega sex kennsluvikur eftir af þessari önn. Tíminn flýr hratt. Hvað sem kulda og myrkri líður eru jólin samt skemmra undan en margur heldur. Ljósið í myrkrinu og við höldum okkar striki, stöndum okkar plikt og lifum og lærum sem aldrei fyrr. Er óhætt að segja: Gleðilegan vetur?