Góður staður til að vera á...

Bókasöfn eru hjarta hvers skóla eða kannski öllu heldur heilabú skólans. Það fer ósköp lítið fyrir þeim en ef þessi líffæri hætta að starfa er fokið í flest skjól. Bókasafnið býður fram faðm sinn öllum þeim sem hungrar og þyrstir í þekkingu og visku. Safnið er opið frá kl. 8.00-16.30 mánudaga til fimmtudaga og á föstudögum kl. 8.00-15.00.

Regnbogi yfir FÁ

Þau ánægjulegu tíðindi voru að berast að tveir nemendur skólans hafa nú stofnað hinseginfélag FÁ fyrir alla nemendur í hvers kyns pælingum varðandi kynímynd sína eða kynheigð. Félagið stendur fyrir spjallgrúppu hinsegin nemenda á föstudögum kl. 11:40-12:00 í stofu M302. Þar er fullum trúnaði heitið og vonandi mæta allir þeir nemendur sem eru að hugleiða þessi mál. Félagið stefnir á að halda fræðsluviðburði um hinsegin málefni í vetur og við hvetjum sem flest til að smella þumli á Facebooksíðu félagsins

Þú veist að vin þú átt...

Vonandi vita flestir í FÁ að SETRIÐ er opið alla daga. Í setrinu er hægt að fá frið og ró til þess að læra, hugleiða, biðja og hugsa en einnig er stundum hægt að fá þar aðstoð við námið frá sér vísari mönnum. SETRIð er vin. Það er gott að eiga vin. Setrið er að finna í stofu A103.

Fjarnám - skráning í gangi

Skráning í fjarnám við FÁ stendur fram til 15. janúar. Fjarnám er góður kostur fyrir þá sem ekki eiga auðveldlega heimangengt á daginn en geta notað kyrrð og ró heimilisins til þess að lesa og læra, hvort sem þeir halda heimili á jörðinni eða tunglinu. Allt að 90 áfangar í boði. Kannið möguleikana hér síðunni og smellið á FJARNÁM -tengilinn hér að ofan.

Vitið þér enn...

Nú er fyrst skóladagurinn að baki en sem betur eru eru heilmargir framundan svo það er ekkert að óttast. Vonandi hefur flestum líkað vel við þann veruleika sem blasti við þeim í morgun, að baki langt jólafrí og munaður og nú er að setja í gírinn og koma sér af stað.

Nú á miðvikudaginn, 9. janúar keppir lið FÁ við lið Menntaskóla Borgarfjarðar í Gettu betur. Viðureignin fer fram í útvarpshúsinu við Efstaleiti og hefst kl. 20:00. Það væri gaman að nemendur mættu í útvarpshúsið til þess að styðja sitt fólk. Lið FÁ er skipað eftirtöldum nemendum:
Bryndísi Sæunni S Gunnlaugsdóttur
Elínrós Birtu Jónsdóttur
Jóni Daða Skúlasyni

Þjálfari liðsins er Ísak Hallmundarson, fyrrum nemandi skólans. Við óskum liðinu góðs gengis.

Gleðilegt ár ...

Nýtt ár, óskrifað blað, ár nýrra tækifæra - ný námsönn og nóg að starfa fram í maí. Annasamur tími framundan en jafnframt spennandi svo engum ætti að leiðast - og vonandi uppsker hver eins og hann sáir - besta uppskeran fæst með góðri ástundun. 


Ef einhverjir vilja laga stundatöfluna sína er tækifæri til þess föstu-daginn 4. janúar frá 13-15 og einnig mánudaginn 7. janúar frá 9 - 15.
Opnað verður fyrir INNU og stundatöflur 4. janúar. Töflubreytingar verða föstudaginn 4. janúar frá kl. 13 - 15 og mánudaginn 7. janúar frá kl. 9 - 15. - toflubreytingar@fa.is.


Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá þriðjudaginn 8. janúar. 

Gleðileg jól og farsælt komandi ár

Skrifstofa skólans er lokuð frá 24. – 26. desember. Fimmtudaginn 27. og föstudaginn 28. desember verður skrifstofan opin frá kl. 9 – 15.
Skrifstofan verður svo opin á nýju ári, miðvikudaginn 2. janúar, kl. 10.00

Gleðileg jól of farsælt komandi ár. Lifið í friði.

Brautskráning Fjölbrautaskólans við Ármúla

Brautskráning Fjölbrautaskólans við Ármúla fór fram í dag 21. desember við vetrarsólstöður, þegar sólin er lægst á lofti. Magnús Ingvason skólameistari stýrði athöfninni. Brautskráðir voru 102 nemendur: 71 stúdent, 19 með viðbótarnám til stúdentsprófs, 4 af læknaritarabraut, 5 af heilbrigðisritarabraut, 10 heilsunuddarar, 9 af námsbraut fyrir sótthreinsitækna. Af nýsköpunar- og listabraut útskrifuðust 3 nemendur. Á Facebook skólans má sjá myndir frá athöfninni.

Dúx skólans á haustönn 2018 er Sigurður Arnór Sigurðsson stúdent af félagsfræðabraut með meðaleinkunnina 8,62. Hann fékk líka verðlaun fyrir góðan árangur í sálfræði, félagsfræði, þýsku og fyrir mætingu og ástundun.

Kveðjuávörp við útskriftina fluttu Þódís Ösp Cummings Benediktsdóttir fyrir hönd útskriftarnema heilbrigðisskólans og Agla Þóra Þórarinsdóttir félagsfræðabraut fyrir hönd nýstúdenta. Sönghópur Fjölbrautaskólans við Ármúla söng jólalög undir stjórn Jóns Svavars Jósefssonar söngstjóra og athöfninni lauk með samsöng þar sem sungin var sálmurinn Heims um ból.

Rúmlega 2000 manns stunduðu nám við skólann á haustönninni í dagskóla og fjarnámi.
Í ræðu sinni við slit skólans, lagði skólameistari, Magnús Ingvason út frá nauðsyn samskipta. Samskipti færu allt of mikið í gegnum netheima í stað raunheima. Samskipti og samverustundir væru ómetanlegar, hvort sem það er með fjölskyldu, vinum, vinnufélögum, gömlum eða nýjum skólafélögum og jafnvel með fólkinu í heitu pottunum í sundlaugunum. Það þurfi að rækta samskiptahæfnina og sýna fólkinu í kringum mann kærleika og virðingu, tala við það augliti til auglitis.

Útskrift frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla 21. desember 2018

Í dag, föstudaginn 21. desember klukkan 13 fer fram útskrift frá skólanum. Athöfnin hefst með ávarpi skólastjóra, Magnúsar Ingvasonar og síðan tekur við hvert atriðið af fætur öðru. Dagskrána í heild má lesa með því að smella hér. Við fögnum með útskriftarnemum sem nú eru að ná mikilsverðum áfanga í lífi sínu og standa á tímamótum rétt eins og sólin á himni sem nú fer að klifra upp hærra og hærra, framundan eru bjartir dagar.

Prófasýning í dag kl. 11-13

Í dag frá 11-13 er hægt að koma í skólann til að skoða prófin sín. Það er vel til fundið að sjá hvað fór vel og hvað fór úrskeiðis, þannig má alltént eitthvað læra af prófunum. Jafnframt prófasýningunni er unnt að ganga frá vali fyrir vortönnina.