Dagur myndlistar er í dag

Freyja Eilíf, myndlistarmaður,kemur í FÁ ídag, þriðjudag, og heldur erindi í fyrirlestrarsalnum kl. 11:40. Freyja Eilíf er dugandi listamaður sem rekur eigið gallerí -EKkisens - og er þar að auki kennari. Öllum áhugasömum nemendum, kennurum og öðrum starfsmönnum er boðið á kynninguna en markmið “Dags Myndlistar” er veita ungu fólki innsýn í það viðamikla starf sem felst í því að vera myndlistarmaður og bæta þannig grunnþekkingu á faginu. Hér má sjá heimasíðu Freyju Eilífar.

Fjórir dagar án FÁ

Í dag, hófst vetrarfrí og þögnin leggst yfir kennslustofur og ganga skólans og engin leiftur frá farsímaskjám munu lýsa upp skólahúsið næstu daga. Kyrrðin í skólanum mun vara fram á þriðjudag 23.október en þá hefst skóli á ný og vonandi koma allir aftur hressir í bragði. Það má einnig minna á það að á þriðjudaginn verður Dagur myndlistar í hávegum hafður og í tilefni hans boðið upp á fyrirlestur á vegum myndlistarmannsins Freyju Eilífar í salnum frá klukkan 11:40.

Kennslumatið opið til 18.okt

Kennslumat annarinnar fer fram í INNU eins og áður og nemendur geta nálgast könnunina undir liðnum KANNANIR ofarlega á síðunni. Kennslumatið er opið til og með 18. október og því fer hver að verða seinastur að skila inn áliti sínu á kennslustörfum í FÁ. Það er mikilvægt að sem flestir taki þátt svo að hægt sé að byggja á könnuninni. Semsagt, klára dæmið fyrir haustfrí.

Hundrað ár frá spænsku veikinni

Það er vel þess virði að minnast þess að nú er liðin öld frá því að spænska veikin gerði usla á Íslandi og olli miklu manntjóni. Við skulum vona að sú arma pest láti ekki aftur á sér kræla. En inflúensa herjar samt árvisst hér á landi og margir veikjast af hennar völdum og suma getur hún lagt af velli ef þeir eru veikir fyrir. Sem betur fer er fólk ekki eins varnarlaust og fyrir einni öld og hér í FÁ var starfsfólki boðið að láta sprauta sig gegn þeirri vá sem inflúensan er. Lifi læknavísindin!

Af því að það er þarna...

Menn ganga á fjöll af því að þau eru þarna. Og hvað jafnast á við það að sitja á háum tindi og horfa yfir landið?
Núna á laugardaginn, 6. okt. ætla nemendur í útivistaráfanganum að vísu ekki að klífa Hraundranga heldur Helgafell við Kaldársel. Það verður að duga í bili. Lagt verður upp frá FÁ á klukkan 9:00 á laugardaginn og kostar eitt þúsund krónur fyrir þá sem skrá sig fyrir hádegi á föstudag.

Fall er ei alltaf fararheill

Á morgun, 2. október kl.13 verður sérstök skólasýning fyrir nemendur FÁ á kvikmyndinni „Lof mér að falla“ í tilefni væntanlegs forvarnardags framhaldsskólanna. Einn af aðstandendum kvikmyndarinnar mætir og ræðir við nemendur um inntak og boðskap hennar en forvarnargildi myndarinnar mun vera ótvírætt. Nemendur sem vilja sjá myndina fá leyfi eftir hádegi 2. október en verða að skrá sig á skrifstofunni. Sýningin verður á tilboðsverðinu 1500 kr. (greitt í miðasölu Smárabíós við mætingu). Allir í bíó!

Hollendingar í heimsókn

Í gær voru hér góðir gestir frá hollenska skólanum ROC de Leijgraff til að kynna sér hvernig íslenska er kennd hér sem annað móðurmál. Í dag ætti að vera hægt að rekast á þau í skólanum því þau ætla að kynna sér hópinn hennar Ásdísar Magneu Þórðardóttur í ÍSTA1AG05. Hollendingarnir sem hér eru í fylgd Guðrúnar Narfadóttur og Kristen Mary heita (f.v. t.h.): Jet van Os, Liesbeth Chatrou og Francie Plitscher en fremstur krýpur Rob van der Horst.

Samgöngurnar blómstra í FÁ

FÁ er blómlegur skóli en getur samt alltaf á sig blómum bætt. Í dag hlaut FÁ, ásamt tveimur öðrum fyrirtækjum, Samgönguviðurkenningu Reykjavíkur árið 2018. Við viðurkenningunni tóku Magnús Ingvason skólameistari ásamt þeim Tinnu Eiríksdóttur,og Jóhönnu Þ. Sturlaugsdóttur sem eru í umhverfisráði skólans. (sjá meira).

Dagur náttúrunnar

16. september er sérstakur dagur íslenskrar náttúru en auðvitað eru allir dagar ársins dagar náttúrunnar. Það er hefð fyrir því að halda daginn hátíðlegan hér í skólanum. Nemendur í umhverfisráði eru trúir þeirri hefð og hafa boðið Eyþóri Eðvarðssyni, fulltrúa samtakanna París 1,5, að heimsækja okkur mánudaginn 17. september. París 1,5 eru samtök sem berjast fyrir því að Ísland leggi sitt af mörkum til að stöðva hlýnun jarðar við 1,5°C. Eyþór mun halda fyrirlestur um mikilvægi umhverfisverndar og baráttuna við loftslagsbreytingar.  Umhverfisráð hvetur alla til þess að koma og hlusta á fræðandi og áhugaverðan fyrirlestur um loftslagmál. Fyrirlesturinn hefst klukkan 11:35

Reykjavík 2018 - evrópska ungmennaþingið

Evrópska ungmennaþingið eða European Youth Parliament eru samtök sem hafa það að markmiði að fræða ungmenni á efri skólastigum um málefni sem snerta Evrópubúa. Miðað er við ungt fólk á framhaldsskóla- og háskólaaldri. Nú er loks búið að stofna samtökin hérlendis og fyrsta ráðstefnan á Íslandi verður haldin í Reykjavík dagana 20.-22. september. Um 100 manns verða viðriðnir ráðstefnuna, bæði innlendir nýliðar og erlendir reynsluboltar.(Smellið hér fyrir frekari upplýsingar)