Fréttir

Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna

24.3.2024

Um síðustu helgi var Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna haldin í 10. skipti. Að venju var skipulagning hátíðarinnar í höndum nemenda FÁ en þau Ísold, Ísabella, Þorsteinn, Trostan, Heorhii, Ana, Ayat og Tawfik sem og kvikmyndakennarinn þeirra Atli, eiga hrós skilið fyrir flotta skipulagningu og glæsilega hátíð.  Þór Elís Pálsson, fyrrum kennari í FÁ og stofnandi hátíðar á sérstakar þakkir skilið en hann studdi vel við undirbúning hátíðarinnar og gaf góð ráð.

Heiðursgestir hátíðar að þessu sinni voru leikstjórarnir Ásdís Thoroddsen og Dagur Kári Pétursson en þau sögðu unga fólkinu frá ferli sínum og svöruðu spurningum þeirra.

Dómnefndina í ár skipuðu þau Atli Óskar Fjalarsson, Hafsteinn Gunnar Sigurðsson og Telma Huld Jóhannesdóttir.

Aðalverðlaunin voru sem fyrr vikunámskeið í New York Film Academy en einnig voru vinningar frá Kukl, Origo, Kvikmyndaskóla Íslands, Laugarásbíó og fleirum.

Það er greinilegt að mikil gróska er í kvikmyndalífi unga fólksins því alls voru 20 íslenskar stuttmyndir sýndar á hátíðinni frá 9 framhaldsskólum um allt land. Einnig voru fjórar myndir frá Færeyjum og Grænlandi voru sýndar, tvær frá hvoru landi.  En það voru ekki bara sýndar myndir frá Grænlandi og Færeyjum heldur sóttu leikstjórar myndanna líka hátíðina heim auk eins kennara frá Grænlandi. Heimsóknin var styrkt af Vestnorræna höfuðborgarsjóðnum og Grænlandssjóði. Nú í Maí verður einmitt haldin á Grænlandi þeirra eigin kvikmyndahátíð framhaldsskólanna, en fyrirmyndin er okkar hátíð. Jafnframt verður ein verðlaunamynda KHF 2024 sýnd á þeirra hátíð, en tekist hefur samkomulag á milli hátíðanna.

Hér má sjá alla verðlaunahafar KHF árið 2024:

Besta Stuttmynd – „Guðni“. Leikstjóri: Óliver Tumi Auðunsson úr Borgarholtsskóla.

Besta Handrit – „Guðni“, eftir Óliver Tuma Auðunsson

Besta Myndataka –– Jun Gunnar Lee Egilsson og Reynir Snær Skarphéðinsson fyrir myndatöku í „Að elta kanínu“. Þeir eru í Borgarholtsskóla.

Besta Tæknilega útfærsla – „Að elta kanínu“. Leikstjóri: Jun Gunnar Lee Egilsson

Besti leikur – Salka Björnsdóttir fyrir leik sinn í Kjallarinn úr MH.

Hildarverðlaunin fyrir bestu tónlist – Árni Björn Þórisson fyrir tónlistina í „Að elta kanínu“

Áhorfendaverðlaun Laugardags – „Hamskipti“. Leikstjóri: Patrekur Thor. Hamskipti er samvinna milli nema úr MH og FÁ.

Áhorfendaverðlaun Sunnudagur – „Fína lífið“. Leikstjórar: Axel Sturla Grétarsson og Haukur Már Birgisson úr Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Hér er hægt að sjá allar ljósmyndirnar sem voru teknar á hátíðinni: https://oligudbjartsson.pixieset.com/khf2024/