„Ef maður leggur sig fram, getur maður allt“

Þrjár ungar og efnilegar stúlkur; Ngan Kieu Tran, Dana Zaher og Diana Al Barouki eru á meðal þeirra sem útskrifuðust frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla í dag. Þær eiga það allar sameiginlegt að hafa flutt til Íslands árið 2022 , tileinkuðu sér íslenskuna á mettíma og hafa náð ótrúlegum árangri. Ngan er frá Víetnam og er dúx skólans með meðaleinkunn upp á 9,82. Dana og Diana eru frá Sýrlandi og eru báðar með meðaleinkunn yfir 9. Þær hafa því á þessum skamma tíma ekki einungis tileinkað sér nýtt tungumál heldur einnig staðið sig einstaklega vel í námi og félagslífi.

Útskrift vor 2025

Það var bæði létt yfir og hátíðlegt þegar Fjölbrautaskólinn við Ármúla útskrifaði nemendur sína í dag. Fjölskyldur, vinir og starfsfólk komu saman til að fagna með útskriftarnemum sem nú hverfa út í ný framtíðarverkefni.

Skráning í sumarfjarnám

Skráning á sumarönn í fjarnámi við FÁ er hafin og stendur til 2. júní. Kennsla hefst 3. júní.

Sjálfbærar flutningsleiðir í Evrópu árið 2050

Dagana 26. febrúar – 5. mars tók FÁ þátt í Erasmus verkefninu Sustainable Mobility in Europe 2050). Fimm úrvalsnemendur frá skólanum tóku þátt; þau Birna Clara, Dísa María, Heorhii, Ísold og Míkah ásamt kennurunum Ásdísi og Þórhalli. Samstarfsskólarnir frá Sante Tirso í Portúgal, Lannion í Frakklandi og Emden í Þýskalandi sendu viðlíka fulltrúa.

Lokaverkefni í Leikjahönnun

Í FÁ er hægt að velja spennandi áfanga tölvuleikjahönnun, TÖHÖ2LH05 og TÖHÖ2ÚT05) . Í þeim áföngum gera nemendur lokaverkefni og fengu þeir frjálsar hendur til að þróa sína eigin leikjahugmynd og búa til einfalda frummynd út frá þeirri hugmynd.

Nemar í FÁ með lausnir við heilasjúkdómum í Kaupmannahöfn

Nemendur í Fjölbrautaskólanum við Ármúla tóku nýverið þátt í raungreinakeppninni "Drughunters" sem haldin var í Kaupmannahöfn. Keppnin er á vegum danska lyfjafyrirtækisins Lundbeck og felst í því að nemendur í framhaldsskólum frá Danmörku, Færeyjum og Íslandi velja sér heilasjúkdóm til að fjalla um. Nemendur læra að afla sér áreiðanlegra upplýsinga um sjúkdóminn og lesa vísindagreinar. Þeir þróa svo í kjölfarið hugmynd að lyfi eða lækningu. Fyrir íslensku nemendurna er verkefnið þverfaglegt og sameinar raungreinar og dönsku. Nemendurnir hanna veggspjald með niðurstöðum sínum, kynna þær og svara spurningum dómnefndar á dönsku. Íslensku nemendurnir stóðu sig með prýði í keppninni og skemmtu sér konunglega.

Tölvuleikjanemendur sóttu EVE Fanfest ráðstefnuna

Leikjafyrirtækið CCP Games bauð nemendum í tölvuleikjaáföngum FÁ á EVE Fanfest tölvuleikjaráðstefnuna sem haldin var í Hörpu dagana 1.-3. maí. Á ráðstefnunni kynnti CCP það sem framundan er í EVE Online og öðrum tölvuleikjum fyrirtækisins. Auk þess var gestum boðið upp á fjölbreytt úrval erinda yfir daginn. Nemendur fengu meðal annars að kynnast því hvernig listafólk hannar geimskip fyrir EVE Online, með hvaða hætti hagfræði getur tengst tölvuleikjum og mikilvægi þess að sýna umburðarlyndi í fjölspilunarleikjum á borð við EVE Online. Nemendur prófuðu nokkra tölvuleiki frá íslenskum leikjafyrirtækjum á staðnum, þar á meðal Gang of Frogs, Pax Dei og EVE Vanguard sem er væntanlegur fyrstu persónu fjölspilunarleikur frá CCP. Nemendur FÁ þakka CCP kærlega fyrir fróðlega, skemmtilega og eftirminnilega ráðstefnu!

Vorferð AM nemenda

AM nemendur í taláföngum fóru í langþráð vorferðalag á fallegum degi með kennurum sínum mánudaginn 28. apríl. Var m.a. farið á Þingvelli, Gullfoss og Geysi. Mikil gleði ríkti í bland við hlátur og söng. Heppnu kennararnir sem fengu að fara með þessum dásamlegu krökkum voru Ásdís, Sigrún, Hanna og Kristján.

Skundað á Þingvöll

Nemendur í umhverfisfræði, ásamt kennurum, fóru í vettvangsferð á Þingvelli þar sem Torfi Stefán Jónsson, fræðslufulltrúi í þjóðgarðinum og fyrrum sögukennari við FÁ, tók vel á móti okkur að vanda. Nemendurnir hafa undanfarið verið að læra um friðlýst svæði á Íslandi og heimsóknin á Þingvelli var vissulega rúsínan í pylsuendanum á þeirri fræðslu. Það viðraði vel til útivistar og nemendur voru margs vísari eftir ferðina.

Apríl fréttabréf

Hér er nýjasta fréttabréf FÁ fyrir mars og apríl.