Fyrirkomulag prófa og prófstaðir

Lokapróf vorannar eru í fyrstu og annarri viku maí, próf sumarannar aðra vikuna í ágúst (eða strax eftir verslunarmannahelgina) og próf haustannar eru í fyrstu og annarri viku desember.

Framvísa þarf gildu skilríki í lokaprófunum, t.d. ökuskírteini, vegabréfi eða nafnskírteini. 

Lokapróf eru haldin í Fjölbrautaskólanum við Ármúla, Ármúla 12. Í anddyri skólans eru stofulistar prófa.

 • Árekstar við önnur próf: Ef tvö próf lenda á sama tíma er heimilt að flytja annað þeirra án endurgjalds á sjúkraprófsdag. 
 • Veikindi: Veikindi ber að tilkynna fyrir prófdag eða í síðasta lagi á prófdegi með því að senda tölvupóst á fjarnam@fa.is.
 • Sjúkrapróf: greiða þarf krónur 2.000 fyrir sjúkrapróf inn á reikning nr. 514-26-351 (kt.590182-0959). Þeir sem taka próf erlendis eða úti á landi tilkynna veikindi á: fjarnam@fa.is og láta einnig vita á prófstað.

Aðstoð vegna lesblindu/sérúrræði við próftöku:

 • Nemandi með greiningu um lesblindu eða nemandi sem þarf af öðrum ástæðum að hlusta á próf, taka próf á tölvu, fá prófin með stækkuðu letri og/eða lituðum prófblöðum getur sótt um það til skrifstofu fjarnáms fyrir 22. júlí, sjá netfangið hér. 
 • Nauðsynlegt er að greining eða annað vottorð fylgi umsókn.
 • Ertu með prófkvíða? Hér eru "Góð ráð við prófkvíða"

Staðsetning prófa:

 • Lokapróf eru í húsnæði Fjölbrautaskólans við Ármúla.  Nemendur sem búa eða dvelja utan höfuðborgarsvæðisins eða erlendis þurfa að tilkynna um annan prófstað (sjá hér fyrir neðan).
 • Nauðsynlegt er að tilkynna um annan prófstað fyrir 22. júlí. Senda skal upplýsingar á netfangið: fjarnam@fa.is.  Í kjölfarið færðu staðfestingu á að tilkynningin hafi verið móttekin. Ef ekki, skaltu fylgja tilkynningunni eftir til að tryggja rétta afgreiðslu.
 • Þeir sem ekki geta tekið lokapróf í húsnæði Fjölbrautaskólans við Ármúla hafa þrjá  möguleika:                                                                                                                                                                                                                                                                                                                  
 1. Að taka lokapróf í öðrum framhaldsskólum og menntasetrum.
 2. Að taka lokapróf í grunnskólum landsins.
 3. Að taka lokapróf í sendiráðum eða öðrum stöðum nálægt heimilum nemenda erlendis.

1. Ef próf er tekið í öðrum framhaldsskóla/menntasetri en FÁ:

Nemandi getur tekið lokapróf í framhaldsskólum/menntasetrum landsins. Nemandi þarf að tilkynna til skrifstofu fjarnáms hvar hann ætlar að taka prófin fyrir 22. júlí, sjá netfang hér Þegar nemandi hefur tilkynnt prófstað sér skrifstofa fjarnáms um að hafa samband við ábyrgðarmann í viðkomandi framhaldsskóla/menntasetri.                                             

Framhaldsskólar/menntasetur á landsbyggðinni:

2. Ef lokapróf er tekið í grunnskóla:
Grunnskólar landsins hafa veitt nemendum þessa þjónustu ef langt er í næsta framhaldsskóla eða annað menntasetur. 

 • Nemandi þarf sjálfur að sækjast eftir að fá að taka lokapróf í grunnskóla í sinni heimabyggð.
 • Nemandi skal hafa samband við skólastjóra eða aðstoðarskólastjóra næsta grunnskóla. Ef skólinn hefur tök á að veita þjónustuna tilgreinir hann ábyrgðarmann prófsins.
 • Nemandi skal tilkynna prófstað og ábyrgðarmann prófsins fyrir 22. júlí, með því að senda tölvupóst á skrifstofu fjarnáms (sjá hér). Tilgreina þarf sérstaklega nafn ábyrgðarmanns, netfang og stöðu viðkomandi í stofnunninni sem prófið er tekið í.

3. Ef lokapróf er tekið í sendiráði eða annars staðar erlendis:
Erlendis hafa sendiráð Íslands veitt nemendum þessa þjónustu sem og ýmsar menntastofnanir. 

 • Ef nemandi ætlar að taka próf erlendis þarf hann sjálfur að sjá um að útvega stað og ábyrgðarmann.  
 • Nemandi skal tilkynna prófstað og ábyrgðarmann í lokaprófi fyrir  22. júlí, með því að senda tölvupóst á skrifstofu fjarnáms (sjá netfang hér).Tilgreina þarf sérstaklega nafn ábyrgðarmanns, netfang og stöðu viðkomandi í stofnunninni sem prófið er tekið í.                                                                                
Það þarf ekki að greiða skólanum sérstaklega fyrir að taka prófin annars staðar en ábyrgðarmönnum prófa er heimilt að rukka nemendur fyrir þjónustuna.

Samantekt:

Til að tryggja að framkvæmd prófa verði eins hnökralaus og hægt er, er mikilvægt að athuga vel eftirfarandi atriði:

 1. Próftaflan er alltaf birt með mjög góðum fyrirvara. Skráið hjá ykkur prófdagana ykkar.
 2. Tilkynnið fyrir  22. júlí ef þið hyggist taka lokapróf annars staðar en í húsnæði Fjölbrautaskólans við Ármúla.
 3. Sendið inn beiðni fyrir 22. júlí ef þið þurfið próf í tölvu með talgervli og/eða stækkað letur og/eða litaðar prófarkir. Greining þarf að liggja fyrir.

(Síðast uppfært 23.06.2022)