Fréttir

6.4.2021 : Skólahald eftir páskafrí

Ég vona að allir hafi notið þess að vera í páskafríi og komi endurnærðir til baka og tilbúnir í síðustu 25 daga annarinnar. Við hefjum hefðbundið staðnám á morgun, miðvikudaginn 7. apríl samkvæmt stundaskrá.

Stjórnvöld hafa gefið út leiðbeiningar um skólastarf og eru þær svipaðar og voru fyrr á önninni. Hámarksfjöldi í rými er 30 manns og grímuskylda í öllum skólanum og verður það svo út önnina.

Ég vona innilega að allir nemendur skili sér til baka og og nái sem bestum árangri á þessari sérstöku önn.

Kær kveðja,

Magnús Ingvason, skólameistari

Lesa meira

26.3.2021 : Skynörvunarsundlaug vígð

Síðasta miðvikudag var vígður skynörvunarbúnaður við sundlaug sérnámsbrautar FÁ við mikinn fögnuð. Hugmyndina að skynörvunarsundlaug fékk starfsfólk sérnámsbrautar á tölvu- og hugbúnaðarsýningu í London fyrir þremur árum, en aðalmarkmið slíkrar sundlaugar er að örva skynfærin með blöndu af ljósum, litum og hljóðum. Kiwanisklúbburinn Katla bauðst svo til að styrkja verkefnið.


Skynörvunarlaugin veitir nemendum sérnámsbrautar róandi og öruggt umhverfi til að skynja umhverfið sitt á fjölbreyttan hátt. Þetta hjálpar þeim að einblína á orku sína og taka betur þátt í daglegu lífi, bæta samskipti og skapa sterkari skilning á eigin styrkleikum. Sundlaugin nýtist afar vel og upplifun nemenda af sundtímum er afar jákvæð, enda mæta augu fljótandi iðkenda nú stjörnubjörtum himni eða litríku mynstri þar sem áður var autt loft.

 

Fjölbrautaskólinn við Ármúla þakkar Kiwansklúbbnum Kötlu fyrir að gera þennan draum sérnámsbrautarinnar að veruleika, og Exton fyrir alla þeirra vinnu.

Lesa meira

24.3.2021 : Samkomubann

Ágætu nemendur og forráðamenn,
Í ljósi nýrra og hertra sóttvarnareglna er ljóst að skólinn verður lokaður á morgun og föstudag.Öll kennsla færist því yfir á Teams og verður kennt þar samkvæmt stundaskrá næstu tvo daga, en að þeim dögum loknum hefst páskafrí.
Ég hvet alla til að mæta vel í Teams-tímana og munum að nú erum við flest reynslunni ríkari eftir bæði síðustu haustönn og vorönn. Fyrir þau sem ekki eru kunnug Teams er hægt að horfa á kennslumyndband hér;  https://www.fa.is/thjonusta/tolvu-og-thjonustuver/microsoft-teams/
Forritinu er síðan hlaðið niður hér; https://www.microsoft.com/en-ww/microsoft-teams/download-app.
Kennsla hefst aftur eftir páskafrí miðvikudaginn 7. apríl en á þessari stundu er ekki vitað hvort hægt verður að kenna í skólanum eða ekki. Þrátt fyrir að um sé að ræða páskafrí, væri ekki úr vegi fyrir ykkur að renna yfir námsáætlanir og skoða hvort þið eigið eftir að skila einhverju verkefni.
Ég bið ykkur um að fylgjast vel með fréttum frá skólanum sem birtar verða á heimasíðu skólans, Instagram og fésbókarsíðu þegar nær dregur 7. apríl.
Ég sendi ykkur öllum mínar bestu kveðjur og óskir um gleðilega páska, og vona heitt og innilega að við sjáumst öll hress hér í skólanum sem allra, allra fyrst.

Kær kveðja,
Magnús Ingvason
Skólameistari FÁ

Lesa meira

18.3.2021 : Umhverfisdagar að baki

Vel heppnaðir Umhverfisdagar FÁ eru að baki þetta árið, en umhverfisfulltrúar skólans og umhverfisráð nemenda stóðu fyrir glæsilegri tveggja daga dagskrá.


Dagskráin hófst með hrósi til félagsfræðakennarans Kristjáns Leifssonar fyrir áberandi litla pappírssóun í sinni kennslu, og tók Kristján afar stoltur við viðurkenningunni "Pappírs-Pési FÁ 2021". Boðið var upp á fjóra fræðandi fyrirlestra þessa daga. Eydís Blöndal fjallaði um loftslagskvíða, Sævar Helgi Bragason um leiðir til að lifa umhverfissinnaðra lífi, Thor Aspelund og Jóhanna E. Torfadóttir um flexiterian mataræði og loks ávarpaði umhverfisráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, nemendur og starfsfólk.


Þá var boðið upp á heimildarmynd um fataframleiðslu, fataskiptimarkað og Kahoot-spurningakeppni með umhverfisverndarþema. Og auðvitað voru nemendur og starfsmenn hvattir til að skilja einkabílinn eftir heima þessa daga.

Lesa meira

15.3.2021 : Umhverfisdagar FÁ 2021

Verða haldnir þriðjudaginn 16. mars og miðvikudaginn 17. mars. Boðið verður upp á fræðandi fyrirlestra um loftslagskvíða, umhverfisvernd og flexiterian mataræði; umhverfisráðherra kíkir í heimsókn; fatamarkaður verður á Steypunni báða daga og dagskrá í matsalnum í hádegishléum.

Sleppum einkabílnum þessa daga og notum vistvænar samgöngur!

Lesa meira

12.3.2021 : Heimsókn utanríkisráðherra

Utanríkisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, heimsótti skólann í dag og hélt áhugaverðan fyrirlestur um utanríkisviðskiptastefnu Íslands fyrir nemendur á hagfræði- og viðskiptabraut. Hann kynnti nýútkomna skýrslu um stefnuna, "Áfram gakk", sem tekur til allra hliða utanríkisviðskipta. Nemendur voru áhugasamir um málefnið, nýttu tækifærið og spurðu ráðherrann út í utanríkismálin. Skólastjórendur sýndu loks ráðherranum skólann og fræddu hann um skólastarfið.

Lesa meira

9.3.2021 : 7. Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna

Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna var haldin í 7. sinn um helgina. Að venju var skipulagning hátíðarinnar í höndum nemenda FÁ en þau Þorkell Valur, Dísa, Matthías, Eggert Unnar, Ólafur Gísli, Perla, Brynjar Karl, Bergmann, Hákon og Freyja, sem og kvikmyndakennarinn þeirra Þór Elís, eiga hrós skilið fyrir glæsilega hátíð sem fleiri sóttu í ár en nokkurn tímann áður. Heimsfaraldurinn margumtalaði náði ekki að drepa sköpunargleði framhaldsskólanema, því í keppnina voru sendar 23 kvikmyndir eða svipaður fjöldi og áður. Heiðursgestir hátíðarinnar voru ekki af verri endanum en leikstjórarnir Baltasar Kormákur og Silja Hauksdóttir sögðu gestum frá sínum störfum.

Dómnefndina skipuðu þau Erlendur Sveinsson, Gunnar Theódór Eggertsson, Ísgerður Elfa Gunnarsdóttir, Margrét Örnólfsdóttir og Sveppi, og fóru úrslit svo: Mynd Borgarholtsskólanemandans Olivers Ormars Ingvarssonar, „Klikker“, var valin sú besta. Besti leikari í aðalhlutverki þótti Breki Hrafn Omarsson í MH-myndinni „Hún elskar mig, hún elskar mig ekki“. FÁ-myndin „Rof“ sópaði að sér verðlaunum en að henni stendur Gísli Snær Guðmundsson. Myndin fékk verðlaun fyrir bestu tæknilegu útfærsluna, önnur af tveimur áhorfendaverðlaunum helgarinnar og þá hlaut Anton Leví Inguson verðlaun fyrir bestu kvikmyndatökuna. Hin áhorfendaverðlaunin hlaut myndin „Diskóeyjan“ sem er skemmtilegt samvinnuverkefni nemenda úr fimm skólum. Loks voru svokölluð Hildarverðlaun veitt í annað sinn fyrir bestu frumsömdu tónlistina, sem fóru til MH-nemendans Arvids Ísleifs fyrir tónlist sína í myndinni „Handalögmál“.

Hver verðlaunahafi var leystur út með glæsilegum verðlaunum, en helst ber þar að nefna vikunámskeið hjá New York Film Academy. Til hamingju öll!

Lesa meira

3.3.2021 : Kynning á skólanum

Við bjóðum 10. bekkinga og aðra verðandi framhaldsskólanema velkomna í heimsókn í FÁ. Skráið ykkur á skólakynningu dagana 10. mars eða 16. mars með að senda tölvupóst í namsradgjof@fa.is. Hlökkum til að sjá ykkur!

Nánar hér.

Lesa meira

1.3.2021 : FÁ sigraði Lífshlaupið

Aftur sigraði FÁ Lífshlaupið í sínum flokki í ár!


Lífshlaupið er þjóðarátak í hreyfingu þar sem skólar, vinnustaðir og einstaklingar etja kappi um sem mesta hreyfingu yfir ákveðið tímabil í febrúar. FÁ fékk tvenn verðlaun innan flokksins "framhaldsskóli með 400-999 nemendur" - en okkar nemar hreyfðu sig bæði flesta dagana og í flestar mínútur. Enda skólinn stappfullur af mögnuðu íþróttafólki!

 
Inga Birna Benediktsdóttir og Telma Ívarsdóttir tóku á móti verðlaununum fyrir hönd skólans.

Lesa meira

28.1.2021 : Afhending Grænfánans

Í dag tók Fjölbrautaskólinn við Ármúla í 8. sinn við Grænfánanum – sem er alþjóðlegt umhverfismenntarverkefni sem rekið er af Landvernd á Íslandi. Markmið verkefnisins er að auka umhverfismennt, menntun til sjálfbærni og að styrkja umhverfisstefnur skóla.

Nemendur og starfsfólk umhverfisráðs skólans tóku við fánanum úr höndum Katrínar Magnúsdóttur frá Landvernd, og Magnús skólameistari hélt ávarp; klæddur skærgrænum jakkafötum úr sínu margfræga safni í tilefni dagsins. Sérstakir gestir athafnarinnar voru ekki af verri endanum og auðvitað annálaðir umhverfissinnar. Tónlistarmaðurinn Svavar Knútur flutti nokkur falleg lög, ort til árstíðanna, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra hélt erindi og þáði í leiðinni FÁ-skólapeysu að gjöf frá nemendum – sem hönnuð er af nemanda skólans, Söru Styrmisdóttur. Loks var fáninn dreginn að húni í fallegu vetrarveðri og nemendum boðið upp á ávexti.

Lesa meira

6.1.2021 : Kynning fyrir nýja nemendur

Velkomin í FÁ!

Vegna ástandsins í samfélaginu er ekki hægt að taka á móti nýjum nemendum með fjöldakynningu að venju, en HÉR eru glærur með hagnýtum upplýsingum um námið og skólann og HÉR má hlusta á fyrirlestur Hrannar námsráðgjafa um glærurnar.

Lesa meira

5.1.2021 : Fyrstu vikurnar

Ný reglugerð um starfsemi framhaldsskóla kveður á að skólum er heimilt að hafa staðkennslu sambærilega og við vorum með í byrjun haustannar og gekk vel. Kennsla hefst því í skólanum samkvæmt stundaskrá fimmtudaginn 7. janúar.

Nemendur spritta sig þegar þeir mæta í skólann og fara í kennslustofur þar sem verður búið að raða upp borðum með eins metra millibili. Nemendur spritta borð sín þegar þeir mæta í tíma. Þá verður ströng grímuskylda í skólanum og engum sem telur sig finna fyrir einkennum Covid er heimilt að mæta í skólann. Við virðum fjarlægðarmörk og munum að „við erum öll saman í þessu.“ Vonandi verður svo hægt að aflétta ströngum sóttvörnum með vorinu þegar við höfum unnið bug á þessari veiru.

Mötuneyti skólans verður lokað fyrstu dagana og því hvetjum við nemendur til að koma með nesti fyrst um sinn. Nemendur eru einnig hvattir til að forðast hópamyndanir í skólanum hvort sem er á steypunni og eða á göngum og fara beint í næstu stofu eftir að kennslustund lýkur.

Lesa meira

19.12.2020 : Brautskráning haustönn 2020

Langri og strangri önn, sem fór að mestu fram með fjarkennslu á netinu, lauk formlega í gær þegar 107 nemendur voru brautskráðir af 13 námsbrautum; 21 af heilbrigðissviði, 4 af nýsköpunar- og listabraut og 88 af stúdentsbrautum. 6 nemendur brautskráðust með viðbótarnám til stúdentsprófs að loknu starfsnámi.

Þessa önn voru dúxar skólans tveir og deildu meðaleinkunninni 9,38 – Edda Sól Arthúrsdóttir sem útskrifaðist af félagsfræðibraut og Eyþór Guðjónsson af náttúrufræðibraut.

Þá ber að nefna Birtu Breiðdal, sem er fyrsti nemandinn í sögu skólans til að útskrifast með stúdentspróf sem var alfarið tekið í fjarnámi.

Lesa meira

18.12.2020 : Brautskráning í dag

Í dag, 18. desember, fer fram brautskráning frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Athöfnin hefst kl. 13:00 en vegna sóttvarnareglna verða nemendur útskrifaðir í fjórum hópum.

 

 

Útskrifað verður í þessari röð:

Heilbrigðisskólinn

Nýsköpunar- og listabraut

Viðbótarnám til stúdentsprófs

Félagsfræðibraut

Íþrótta- og heilbrigðisbraut

Náttúrufræðibraut

Viðskipta- og hagfræðibraut

 

Því miður er nemendum ekki heimilt að taka með sér gesti vegna aðstæðna í samfélaginu, en athöfninni verður streymt HÉR svo enginn ástvinur þurfi að missa af þessum merku tímamótum. Eins fá nemendur í hendur ljósmyndir frá deginum.

Útskriftarnemar eru beðnir að lesa vel upplýsingabréf frá stjórnendum og gæta sóttvarna á allan hátt á meðan dagskráin stendur yfir. 

Lesa meira

4.12.2020 : Jólakveðja!

Ágætu nemendur og forráðamenn.


Nú er stutt eftir af þessar skrýtnu og löngu önn og jólin nálgast. Ég heyri frá kennurum mínum að þeir eru alla jafna nokkuð ánægðir með árangur nemenda sinna, en óneitanlega hefur önnin reynst mörgum erfið. En nú er aðeins ein vika eftir og nauðsynlegt að gera eins vel og hægt er í þeirri viku.


Ég vona síðan innilega að komandi vorönn verði með eðlilegustum hætti og lífsglaðir, skemmtilegir og árangursdrifnir nemendur fylli hér stofur og ganga skólans. Þannig á skóli að sjálfsögðu að vera.
Nú er í gangi kennslukönnun á INNU sem ég hvet ykkur nemendur eindregið til að svara. Það er mikilvægt fyrir skólann að fá skoðanir nemenda á því sem spurt er um í könnuninni.


Starfsfólk skólans ákvað að skella í eina jólakveðju til ykkar allra. Vonandi hafið þið eins gaman af kveðjunni og starfsmennirnir höfðu gaman af gerð jólakveðjunnar. Jólapepp FÁ!

Kveðja,

Magnús Ingvason

Skólameistari FÁ

Lesa meira

30.11.2020 : Erindi skólasálfræðings

Þetta eru krefjandi tímar og ljóst að margir okkar nemenda finna sárt fyrir stöðunni. Skólasálfræðingur FÁ, Andri Oddsson, býður upp á nemendaviðtöl í gegnum Teams og hvetjum við okkar fólk til að nýta sér þessa þjónustu. Hægt er að bóka viðtal með tölvupósti í netfangið salfraedingur@fa.is.

HÉR má svo hlýða á gagnlegt erindi Andra í tveimur hlutum - um andlega líðan á tímum Covid.

Lesa meira

25.11.2020 : Rafrænt jólabingó!

Á morgun, 26. nóv. kl. 18:00 heldur nemendafélag FÁ rafrænt aðventubingó í gegnum Teams. Þátttaka er frí fyrir alla nemendur skólans og hægt að panta allt frá einu upp í fimm bingóspjöld á mann. 

 

HÉR skal skrá sig til þátttöku. Fullt af flottum og fjölbreyttum vinningu

 

HÉR er hlekkur á bingóið!

Lesa meira

14.11.2020 : Fjarkennsla út önnina

Ágætu nemendur og forráðamenn,

 

Ekki er útlit fyrir að Covid-19 veirunni verði komið fyrir kattarnef alveg á næstunni, því miður. Enn eru smit að greinast, en þeim fer þó fækkandi. Nýjar sóttvarnareglur voru kynntar í dag og gilda þær til 2. desember. Samkvæmt þeim er heimilt að allt að 25 nemendur á framhaldsskólastigi megi vera í sama rými, en þeir mega ekki fara á milli kennslustofa. Í áfangaskóla eins og FÁ fara nemendur á milli stofa eftir hverja kennslustund, þannig að skólayfirvöld sjá ekki möguleika á að staðkennsla hefjist að nýju.


Það verður því fjarkennsla út önnina í dagskólanum. Einstaka hópar nemenda hafa fengið að koma inn í skólann undanfarnar vikur í sérstökum tilfellum og verður svo áfram. Þá munu allir nemendur á sérnámsbraut mæta í skólann frá og með miðvikudeginum 18. nóvember.Öll próf í lok annar, önnur en verkleg próf, verða rafræn.
Á næstunni verður skoðað hvernig útskrift frá skólanum verður háttað.


Svo vona ég að nemendur standi sig vel í náminu þessar örfáu vikur sem eftir eru. Lykillinn að góðum árangri er að skila öllum verkefnum sem á að skila, þar sem hvert verkefni telur í lokin.

Góða helgi
Magnús Ingvason,

Skólameistari FÁ

Lesa meira

6.11.2020 : Skólapeysur

Fyrr í haust var blásið til hönnunarsamkeppni meðal nemenda FÁ um logo á nýjar skólapeysur. Fjölmargar og fjölbreyttar hugmyndir bárust og eftir æsispennandi kosningu á Instagram bar Sara Lind Styrmisdóttir sigur úr býtum.


Nú er hægt að panta sér þessa glænýju skólapeysu á frábæru verði, og bæði verður hægt að sækja peysur niður í skóla og fá heimsent (innan höfuðborgarsvæðis). Peysurnar koma í þremur litum, mörgum stærðum og bjóðast bæði sem hettupeysur og háskólapeysur.


Pantið peysur HÉR !

Lesa meira

1.11.2020 : Hertar sóttvarnaraðgerðir

Ágætu nemendur og forráðamenn

Eins og flestum er eflaust kunnugt hafa hertar sóttvarnarreglur tekið gildi í samfélaginu.

Það liggur því fyrir að fjarkennsla verður í dagskóla næstu vikur, en við vonumst auðvitað eftir því að smitum fari að fækka og í framhaldinu verði slakað nægilega mikið á samkomuhöftum til að við getum opnað skólann aftur fyrir nemendum.

Á meðan við bíðum átekta biðjum við okkar nemendur að halda áfram að sinna náminu eins vel og þeir hafa verið að gera.

Flestir nemendur eru að mæta vel í Teams-tímana sem skiptir höfuðmáli til að ná góðum árangri í náminu. Nú styttist óðum í annarlok og því mikilvægt að skipuleggja sig vel, fylgjast með kennsluáætlun og passa upp á að verkefnum og öðru sé skilað á réttum tíma.

Ég vil minna nemendur á stoðþjónustu skólans og hvet þá sem eiga í einhverjum erfiðleikum með námið að hafa samband við náms- og starfsráðgjafa skólans. Netföng þeirra eru á heimasíðu skólans.

Kveðja,

Magnús Ingvason

Skólameistari FÁ 

Lesa meira
Síða 1 af 5