Fréttir

13.4.2019 : Gleðilega páska

Nú er kyrrð og nú er friður yfir skólanum enda komið páskafrí og allir vel að því komnir. Önnin hefur verið löng, en vonandi ekki of strembin. Eftir páska tekur svo við lokaleikurinn og vonandi endar hann vel hjá öllum.
Frá og með 15. apríl fram til 29. apríl verður skrifstofa FÁ lokuð. Gleðilega páska, öllsömul.

Lesa meira

10.4.2019 : Nú er kátt í höllinni!

Í dag lýkur Alþjóðaviku FÁ og af því tilefni er blásið til heljarinnar veislu. Það verður söngur, gleði, dans og tónlist að ógleymdum mat frá ýmsum heimshornum sem nokkrir veitingastaðir ætla að elda handa okkur - ókeypis. 
Engin veisla án góðra gesta. Eliza forsetafrú ætlar að heiðra samkomuna og einnig okkar fyrrverandi nemandi Sanna borgarfulltrúi og Tanja frá deCODE, allt konur sem hafa náð langt á sínu sviði. Ekki má gleyma því að fjölmiðlar verða á staðnum og því um að gera að koma vel greiddur og sætur í skólann. 
Veislan byrjar á slaginu tólf og vonandi sjá allir sér fært að taka þátt í gleðinni. FÁ er skóli fjölbreytileikans!

Lesa meira

8.4.2019 : Alþjóðavika í FÁ 8.-11. apríl

FÁ er kominn í alþjóðlegan búning fyrir Alþjóðavikuna sem hefst í dag en tilgangur vikunnar er að beina ljósinu á stöðu erlendra nema og hversu fallega fjölbreyttur skólinn er. Alþjóðlega nemendaráðið hvetur starfsfólk til að taka þátt í dagskránni sem er bæði fróðleg og skemmtileg. Í dag, mánudag - kl. 12:30 í fyrirlestrasal, ætlar Hildur Björgvinsdóttir, framkvæmdastýra SÍF að kynna stöðu erlendra nema á Íslandi.....sjá nánar hér.

Lesa meira

4.4.2019 : Fyrirtækjasmiða ungra frumkvöðla

Á morgun föstudag 5. apríl og laugardaginn 6. apríl, munu um 550 ungir frumkvöðlar frá 13 framhaldsskólum kynna og selja vörur sínar á Vörumessu Ungra frumkvöðla í Smáralindinni. Alls eru þarna á ferðinni 120 nýstofnuð fyrirtæki og þar af eru fjögur þeirra stofnuð í skólanum okkar. Það verður gaman að mæta í Smáralindina um helgina og sjá hverju nemendur okkar hafa fundið upp á í þessum málum. Frumkvæði, frumleiki, sköpun, ....

Lesa meira

30.3.2019 : Enginn má missa af Ólympus

Söngleikurinn Ólympus var frumsýndur í gær fyrir fullu húsi og var vel fagnað enda á ferðinni bráðskemmtilegur leikur og allir leikarar og hljóðfæraleikarar stóðu sig með mikilli prýði. Sem betur fer verður Ólympus sýndur aftur i kvöld klukkan 20 og ef einhverjir komast ekki þá, er tækifæri til þess að sjá þennan bráðskemmtilega söngleik á sunnudaginn en þá verða tvær sýningar, sú fyrri klukkan 14 en seinni klukkan 20.

Miðaverð er 1.500 krónur en 1000 krónur fyrir starfsmenn og nemendur í NFFÁ. facebook - myndir

Lesa meira

28.3.2019 : Upp skal halda á hæsta tind...

Laugardaginn 30. mars er ætlunin að nokkrir fræknir nemendur gangi á Móskarðshnjúka. Lagt verður af stað frá FÁ stundvíslega kl 9:00 og stefnt á að vera komin í bæinn um kl 14:00.
Þetta er um 8 km löng ganga en þar sem veðurspáin er góð, gæti gangan hæglega orðið lengri.

Skráið ykkur í tíma, seinast var uppselt í rútuna.

Fjallganga eftir Tómas Guðmundsson:

I
Urð og grjót.
Upp í mót.
Ekkert nema urð og grjót.
Klífa skriður...

Lesa meira

25.3.2019 : Ólympus - frumsýning á föstudag

Nú styttist í að gamansöngleikurinn Ólympus - Leikur að fólki, verði frumsýndur en frumsýningin verður núna á föstudaginn 29. mars í sal Fjölbrautaskólans við Ármúla. Verkið gerist í Grikklandi árið 390 f.kr. Þegar Seifur, æðsti guðinn á Ólympus, ákveður að skella sér í frí með eiginkonu sinni Heru, efnir hann til keppni milli guðanna til að ákveða hver skal taka við völdum í fráveru hans. Systkinin Artemis, Aþena, Díónýsus og Afródíta þurfa að fara niður á jörðu og keppast um hylli ungs pilts til að hreppa hásætið á Ólympus. Þau beita ýmsum klækjum til að snúa örlögunum sér í vil en það er síður en svo auðvelt að sigra þegar þau mega ekki gera það sem þau gera best - svindla og skemma hvert fyrir öðru...sjá meir.

Lesa meira

19.3.2019 : OPIÐ HÚS - fimmtudaginn 21.mars

FÁ hefur alltaf verið opinn öllum sem þangað vilja sækja en fimmtudaginn 21. mars verður OPIÐ HÚS fyrir alla, konur og kalla, frá 16:30 til 18:00 þar sem allar deildir skólans kynna starfsemi sína. Það er meira í boði en margan grunar, á OPNU HÚSI má kynna sér aðstöðuna í glæsilegu skólahúsinu, læra um kosti fjarnámsins og fá nasasjón af fjörlegu félagslífi nemenda. Vonandi sjá sem flestir sér fært að mæta og kynnast hinu góða starfi sem unnið er í FÁr

Lesa meira

18.3.2019 : Umhverfisdagar í FÁ - 20.-21. mars

FÁ hefur lengi verið í fararbroddi í umhverfismálum og fengið grænfánann í ófá skipti. Nú verða haldnir umhverfisdagar í skólanum þótt auðvitað séu allir dagar umhverfisdagar. Umhverfisdagarnir byrja kl. 10 þann 20. mars þegar umhverfismarkaður verður opnaður en að öðru leyti lítur dagskrá dagana svona út: (smella hér).

Lesa meira

14.3.2019 : Kennslumat vorannar opið til 28. mars

Á hádegi í dag var opnað fyrir kennslumat vorannar og það verður opið til 28. mars.
Að þessu sinni eru metnir 72 áfangar og má sjá hér hvaða áfangar fara í mat að þessu sinni.

Það er helst að frétta að kennslumatið hefur verið stytt allverulega, þannig að spurningum var fækkað úr 27 í 13. Þetta er gert í þeim tilgangi að auka svörun og vonandi verður sú raunin.
Það er auðvelt að nota snjallsíma við matið og við prófun voru nemendur ekki nema 4 – 6 mínútur að meta.

Spurningalistinn er að sjálfsögðu á íslensku en svo er hægt er að opna enska þýðingu.

Lesa meira

11.3.2019 : Sumarstörf á Norðurlöndum

Nordjobb – Vilt þú vinna erlendis í sumar?
Nordjobb hjálpar þér að finna sumarstarf og húsnæði í öðru norrænu landi. Alls konar störf eru í boði svo sem í garðyrkju, þjónustu, fiskvinnslu, á hótelum og á veitingastöðum.
Allir eru hvattir til að sækja um, einu skilyrðin fyrir þátttöku eru að vera á aldrinum 18-30 ára og að hafa viðunandi vald á dönsku, sænsku eða norsku.
Þetta er tilvalið tækifæri til að eyða sumrinu erlendis, öðlast starfsreynslu og auka færni sína í erlendu tungumáli.

Áhugasamir geta fyllt út umsókn til að gerast Nordjobbarar á eftirfarandi slóð:
https://semla.nordjobb.org/Registration.aspx?&lc=sv&cc=is

Hægt er að sjá laus störf hér:
https://www.nordjobb.org/is/saekja-um-vinnu.
ATH! Það kostar ekkert að taka þátt í Nordjobb verkefninu!

Nánari upplýsingar veitir Hannes, verkefnisstjóri Nordjobb á Íslandi, á island@nordjobb.org eða í síma 680-7477.

Lesa meira

8.3.2019 : Vel heppnuð tónlistarkeppni

Tónlistarkeppni FÁ 2019 reyndist frábær skemmtun sem allir mega vera stoltir af. Leikar fóru svo að Bjartr alias Guðbjartur Daði fékk viðurkenningu fyrir frumlegasta atriðið, Ruth Rúnarsdóttir var í þriðja sæti, Alexandra Ýrr í öðru sæti og líka í fyrsta sæti ásamt Brynjari Erni Smárasyni en þau sungu hinn vinsæla dúett "Shallow" og voru vel að sigrinum komin en allir stóðu sig með prýði og það sannast enn og aftur að í FÁ er margt hæfileikafólk

Lesa meira

7.3.2019 : Tónlistarkeppnin FÁ19 er í kvöld!

Í kvöld klukkan átta verða slegnir strengir og barðar bumbur í sal skólans. Hin árlega tónlistarkeppni FÁ blæs í lúðrana. Þessi skemmtun er einn af hápunktum skólalífsins og því ætti enginn með viti að láta hana fram hjá sér fara. Hleypt er inn klukkan sjö í kvöld og það sem meira er, það er ókeypis inn! Og þar með hefur enginn afsökun fyrir að láta ekki sjá sig í kvöld og njóta þess að vera hluti af góðum hópi og listelskum félagskap. Vive la musique!

Lesa meira

4.3.2019 : Sjúk ást -

Dagarnir 4.-6. mars eru helgaðir forvarnaverkefninu „Sjúk Ást“ hér í FÁ og var formlega hleypt af stokkunum með fjölmiðlafundi í matsalnum í morgun. Verkefnið er á vegum Stígamóta og snýst um baráttu gegn og fræðslu um óheilbrigð samskipti, valdamisvægi og ofbeldi í ástarsamböndum unglinga. Innan þeirrar dagskrár býður femínistafélag skólans, Sigríður, upp á tvo fræðslufyrirlestra tengda málefninu:

**Þriðjudaginn 5. mars mætir Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, stýra forvarnaverkefnisins, og fræðir nemendur og starfsfólk um sjúka ást ungmenna og af hverju Stígamót ákvað að keyra þetta átak í gang.


**Miðvikudaginn 6. mars kemur kynfræðingurinn Sigga Dögg og fræðir okkur um samþykki, mörk og virðingu í kynlífi. 
Báðir fyrirlestrarnir verða í fyrirlestrasal skólans í hádeginu og byrja á slaginu 12:30

Lesa meira

28.2.2019 : Árdagar að baki

Það var líf og fjör í FÁ í dag þegar tíu litrík lið nemenda þreyttu göngu á milli þrauta sem lagðar voru fyrir liðin. Samt engin þrautaganga, frekar skemmtiganga. Þátttaka var góð og allir glaðir. Það var fjólubláa liðið sem fékk flest stig og þar með vegleg verðlaun. Eina umkvörtunarefni nemenda var að það var ekki boðið upp á neina vegan-pizzu. Úr því verður bætt að ári. Myndir frá Árdögum má finna á Facebook - síðu skólans. Og núna er tónlistarhátíðin framundan, en hún verður haldin þann 7. mars.

Lesa meira

27.2.2019 : Fyrsti Árdagur er í dag.

Í dag, 27. febr. eftir hádegi munu allir nemendur í FÁ safnast saman í Salnum og skipa sér í það  lið sem þeir hafa valið; rautt lið, blátt lið, grænt lið og hvaðeina og skipuleggja sig og skreyta fyrir morgundaginn en á morgun þurfa liðin að leysa þrautir, vonandi ekki of léttar, til þess að vinna sér inn stig. Keppninni á morgun lýkur klukkan 12 og þá verður öllum boðið upp á pítsur. Eftir staðgóða máltíð verður verðlaunaafhending þar sem það lið sem vinnur sér inn flest stig fær vegleg verðlaun. Ekki má gleyma aukaverðlaununum sem allir fá en nemendur geta fengir fjögur fjarvistarstig dregin frá fyrir hvorn dag, samtals átta stig svo það er til mikils að vinna.

Lesa meira

24.2.2019 : Árdagar í aðsigi!

Nú verður gaman þessa viku. Nú verða Árdagar. Árdagar FÁ verða haldnir eftir hádegi miðvikudaginn 27. febrúar og fyrir hádegi fimmtudaginn 28. febrúar. Kennt er til kl. 12:30 miðvikudag. Dagarnir verða með svipuðu sniði og síðustu ár, þ.e.a.s. að nemendur skipta sér í lið og starfsmenn leggja fyrir þá þrautir. Eftir hádegi á miðvikudeginum munu nemendur „skreyta sig sjálfa“ í stað þess að skreyta stofur. Notast verður við liti og nemendur geta unnið með sína litasamsetningu.

Fyrir hádegi á fimmtudag, frá kl. 9:00 til 12:00 verður síðan keppni á milli liða. Starfsmenn verða í 10 stofum/rýmum þennan morgun og leggja þrautir fyrir liðin. Keppninni lýkur kl. 12:00 og þá verður öllum keppendum og starfsmönnum boðið upp á pítsur. Að því loknu er verðlaunaafhending.

Lesa meira

17.2.2019 : Glæsilegri kvikmyndahátíð lokið

Það voru glæsileg verðlaun sem féllu í skaut sigurvegara Kvikmyndahátíðar framhaldsskólanna og sannarlega til mikils að vinna. Það var Hulda Heiðdal Hjartardóttir úr Borgarholtsskóla sem fór hlaðin verðlaunum enda fékk hún þrenn verðlaun fyrir myndina Skuggalönd, besta stuttmyndin, best leikna myndin og besta myndatakan. Geri aðrir betur. Myndin Ghosttbusters a fan film: Draugurinn eftir Andra Óskarsson úr þótti besta tæknilega útfærslan. Áhorfendaverðlaun féllu síðan í skaut Brynjari Leó og Gabríel Elí, annar úr Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og hinn Tækniskólanum. FÁ reið ekki feitum hesti frá kvikmyndahátíðinni í þetta sinn en í fyrra sópuðust verðlaunin til FÁ. Og svo kemur hátíð að ári.

Lesa meira

15.2.2019 : Kvikmyndahátíð framhaldskólanna ´19

Það er bíó þessi helgi. Hátíðin verður sett kl. eitt á morgun laugardag og stendur fram til að verða fimm. Sama gildir um sunndaginn 17. janúar en þá lýkur hátíðinni með verðlaunaafhendingu. Fimm skólar eiga myndir á hátíðnni og er FÁ þar með alls sex myndir, Borgarholtsskóli sýnir fjórar, Ísfirðingar tvær og Fjölbraut Breiðholit og Menntaskólinn á Egilsstöðum eru með eina mynd hvor.

Það má enginn láta þessa hátíð fram hjá sér fara - um að gera að fylgjast með hvað er að gerjast og gerast í listrænu höfði okkar skapandi nemenda. Semsagt, takið frá dagana og bregið ykkur í gæðabíó.

Lesa meira

13.2.2019 : Helgafell um helgina - 16. febrúar

Næsta fjallganga útivistar- og fjallgönguhópsins ÍÞR141 verður laugardag 16. febrúar. Í þetta sinn skal sigra Helgafell i Mosfellssveit. Lagt verður af stað með rútu frá FÁ kl 9:00 laugardagsmorgun og stefnt er á að koma heim um kl 14:00.
Veður eru válynd um þessar mundir og fólk því beðið um að koma vel búið og með gott nesti og svo til nýja skó.

Vísindin efla alla dáð,
orkuna styrkja, viljann hvessa,
vonina glæða, hugann hressa,
farsældum vefja lýð og láð;
tífaldar þakkir því ber færa
þeim sem að guðdómseldinn skæra
vakið og glætt og verndað fá
viskunnar helga fjalli á.

Lesa meira
Síða 1 af 5