3.10.2. Jafnlaunastefna

Jafnlaunastefna Fjölbrautaskólans við Ármúla

Fjölbrautaskólinn við Ármúla hefur sett sér jafnréttis- og jafnlaunastefnu sem unnin er í samræmi við lög nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sem og önnur lög sem taka til jafnréttis allra á vinnumarkaði.

Markmið stefnunnar er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna hjá skólanum.

Jafnlaunastefna þessi tekur til allra starfsmanna Fjölbrautaskólans við Ármúla og kveður á um markmið og aðgerðir til að tryggja starfsfólki FÁ þau réttindi sem kveðið er á um í 19. gr. Jafnréttislaga nr. 10/2008 sem segir „Konum og körlum er starfa hjá sama atvinnurekanda skulu greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Með jöfnum launum er átt við að laun skulu ákveðin á sama hátt fyrir konur og karla. Skulu þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðun ekki fela í sér kynjamismuna. Starfsmönnum skal ávallt heimilt að skýra frá launakjörum sínum ef þeir kjósa svo“.

Í Fjölbrautaskólanum við Ármúla eru greidd laun eftir umfangi og eðli starfa og tekið er mið af þeim kröfum sem störf gera um þekkingu, hæfni og ábyrgð. Forsendur launaákvarðana eru að þær séu í samræmi við kjara- og stofnanasamninga og launastefnu skólans, studdar með rökum og tryggi að sömu laun séu greidd fyrir sambærileg eða jafnverðmæt störf.

Til að framfylgja lögum um launajafnrétti mun FÁ:

  • Við ákvörðun launa gæta þess að kynjum sé ekki mismunað og skulu laun ákveðin á sama hátt fyrir allt starfsfólk óháð kyni, kynvitund eða öðrum ómálefnalegum ástæðum.
  • Tryggja að allir skulu njóta jafnra kjara fyrir jafn verðmæt og sambærileg störf. Um skilgreiningu á launum vísast til 8. og 9. mgr. 2. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008.
  • Innleiða vottað jafnlaunakerfi sem byggir á jafnlaunastaðlinum ÍST 85, að kerfið sé skjalfest og því viðhaldið.
  • Framkvæma launagreiningu minnst einu sinni á ári þar sem borin eru saman jafnverðmæt störf, athuga hvort mælist munur á launum eftir kyni og kynna helstu niðurstöður fyrir starfsfólki.
  • Bregðast við óútskýrðum launamun með stöðugum umbótum og eftirliti.
  • Gera innri úttekt og framkvæma stjórnendarýni á kerfið og árangur þess með a.m.k. árlega
  • Fylgja viðeigandi lögum, reglum sem í gildi eru á hverjum tíma.
  • Kynna stefnuna fyrir starfsfólki skólans og hafa hana aðgengilega á vefsíðu FÁ

Skólameistari ber ábyrgð á jafnlaunakerfinu og að það sé í samræmi við lög nr. 10/2008 um jafna stöðu kvenna og karla. Stjórnendur bera ábyrgð á innleiðingu og viðhaldi í samræmi við jafnlaunastaðalinn. Stjórnendur bera ábyrgð á að rýna skýrslur um jafnlaunakerfi, gæði þess og skilvirkni sem og að mæla fyrir um tillögu um úrbætur. 

Síðast breytt (17.10.2022)