5.3. Námsmat

Almenn markmið

Námsmat er órjúfanlegur þáttur náms og kennslu. Því er ástæða til að námsmat fari sem mest fram á kennslutíma. Tilgangur námsmats er almennt talinn tvíþættur: Annars vegar að veita nemendum leiðsögn, aðhald og aðstoð við að bæta nám sitt (mat í þágu náms) og hins vegar að meta það nám sem farið hefur fram (mat á námi, gjarnan lokamat). Með aukinni áherslu á símat getur skólinn betur beint sjónum að hinu fyrrnefnda og hjálpað nemendum að bæta frammistöðu sína í námi.

Í Fjölbrautaskólanum við Ármúla er lögð áhersla á hvers kyns símat sem á sér stað jafnt og þétt meðan á námi stendur. Þess skal gætt að námsmat taki til allra þátta námsins og meti þekkingu nemandans, leikni og hæfni auk framfara. Áhersla á hæfni nemenda felur í sér fjölbreyttar námsmatsaðferðir. Þær geta verið verklegar, munnlegar eða skriflegar og falið í sér sjálfsmat sem og jafningjamat, auk námsmats kennara (símats jafnt sem lokaprófs). Leiðsagnarmat þar sem nemendur fá vandaða endurgjöf á þau verkefni sem þeir vinna gerir þeim kleift að átta sig á hvaða námsmarkmiðum þeir hafa náð og hvar þeir þurfa að leggja harðar að sér svo að lokaárangur verði sem bestur.

Smelltu á krækjurnar til að sjá námsmatsreglur og námsmatsáætlun.

Nemendur sem ná framúrskarandi námsárangri í dagskóla eða í fjarnámi fá viðurkenningar í formi endurgreiðslu á skólagjöldum. Smelltu hér til að sjá reglur um viðurkenningar fyrir námsárangur.


(Síðast uppfært 21.1.2016)