Um brautina

Námsbraut fyrir heilsunuddara, sem upphaflega hét námsbraut fyrir nuddara, var skipulögð í Fjölbrautaskólanum við Ármúla haustið 1993 í samvinnu við Félag íslenskra nuddara og menntamálaráðuneytið. Frá og með haustönn 2011 mun öll kennsla á heilsunuddbraut fara fram í Fjölbrautaskólanum við Ármúla, en fyrir þann tíma voru verklegar greinar kenndar í Nuddskóla Íslands.

Skilyrði til innritunar í nám á heilsunuddbraut er að nemandi hafi lokið skyldunámi í samræmi við ákvæði aðalnámskrár grunnskóla og náð tilskildum lágmarksárangri skv. ákvæðum reglugerðar um innritun nemenda í framhaldsskóla. Ljúka þarf bóklegum áföngum brautarinnar áður en verklegt nám getur hafist. Nemendur verða að hafa náð 18 ára aldri þegar þeir hefja verknám á þriðja hæfniþrepi.

Vegna fjöldatakmarkana í verklegan hluta námsins hefur nemendafjöldi í bóklegt nám einnig verið takmarkaður. Nemendur útskrifast af brautinni með starfsheitið heilsunuddari og er unnið að því að starfsheitið fái viðurkenningu innan heilbrigðisráðuneytisins sem heilbrigðisgrein.

Starf heilsunuddara felst í að meðhöndla bólgu, spennu og aðra kvilla í vöðvum og vefjum með nuddi. Hann beitir nuddi til slökunar til þess að auka vellíðan nuddþegans. Hann er einnig leiðbeinandi um heilbrigðar lífsvenjur, mataræði, hreyfingu og rétta líkamsbeitingu.

Starfsvettvangur heilsunuddara er einkum heilsuræktarstöðvar, sundlaugar og einkastofur.


(Síðast uppfært 4.2.2016)