2. Menntastefna

Fjölbrautaskólinn við Ármúla á sér fjörutíu ára sögu og á þeim tíma hefur skólinn skapað sér ákveðna sérstöðu sem og ýmsar hefðir sem mikilvægt er að rækta en jafnframt þróa áfram.

Meginhlutverk Fjölbrautaskólans við Ármúla er að undirbúa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi, efla læsi þeirra í víðasta skilningi þess orðs, hafa að leiðarljósi lýðræði, jafnréttishugsjón, heilbrigði, menntun til sjálfbærni og sköpunaranda. Hlutverk skólans endurspeglar grunngildi aðalnámskrár framhaldsskóla og koma þau fyrir í almennu starfi sem og kennslu.

Skólastarfið byggist á því að hver nemandi finni sér nám við hæfi og geti stundað það á eigin námshraða. Nám er vinna og á að fela í sér áskoranir bæði fyrir nemendur, kennara og starfsfólk skólans. Slíkt kallar á að eftirfarandi þættir séu lagðir til grundvallar og ræktaðir sérstaklega í skólastarfinu:

  • Fjölbreyttir kennsluhættir
  • Fjölbreytt námsmat
  • Fjölbreytt námsframboð
  • Fjölbreytilegt námsefni
  • Notkun upplýsingatækni í kennslu
  • Örvandi námsumhverfi og góð aðstaða
  • Nýsköpun í námi og kennslu
  • Vel menntað starfsfólk

Faglegt nám til framtíðar er stefna skólans og er lögð sérstök áhersla á að fylgjast vel með nýjungum á þeim sviðum sem skólinn býður nám á. Skólinn á að vera í stakk búinn að takast á við breytingar í samfélaginu sem hafa áhrif á námið og stuðla þannig að sífelldri þróun skólastarfsins. Lögð er sérstök áhersla á samvinnu við hagsmunaaðila um þróun námsins, einkum og sér í lagi á sviði heilbrigðisgreina.

Fjölbreytni í námsvali laðar að fjölbreyttan nemendahóp og er stefna skólans að sinna hverjum og einum nemanda á sem bestan hátt. Fjölbreytni í námsvali þýðir val um bóknám kjarnagreina eða starfsnám heilbrigðisgreina sem er í samræmi við kröfur samfélagsins hverju sinni. Fjölbreyttur nemendahópur þýðir nemendur af öllum getustigum, nemendur af mismunandi þjóðerni, nemendur úr dreifbýli og þéttbýli og nemendur á öllum aldri. Nemendur með ólíkan bakgrunn eiga að geta sótt sér hér menntun við hæfi. Nemendur eiga að tileinka sér virðingu í samskiptum sín á milli og læra hver af öðrum.


(Síðast uppfært 16.4.2021)