Lyfjatækni

Lyfjatæknaskóli Ísland tók til starfa haustið 1974, samkvæmt reglugerð sem sett var 4. júní 1973. Frá 1960 hafði Apótekarafélag Íslands haft kvöldnámsskeið fyrir starfsfólk apóteka. Konur sem sóttu námskeið Apótekarafélagsins kölluðust defektrísur en það var ekki fyrr en með stofnun Lyfjatæknaskólans að lyfjatæknir verður starfsheiti.

Árið 1983 var sett ný reglugerð um lyfjatæknaskólann. Þar var námskipan breytt og námsefni aukið. Hlutverk Lyfjatæknaskóla Íslands var að tæknimennta aðstoðarfólk við lyfjagerð og lyfjaafgreiðslu. Allt frá stofnun skólans var hann undir stjórn Heilbrigðisráðuneytis. Starfsvettvangur lyfjatækna skv. reglugerð.

Vorið 1992 var Lyfjatæknaskólinn lagður niður en um leið endurreistur sem námsbraut í Fjölbrautaskólanum við Ármúla, með reglugerð Menntamálaráðuneytis nr. 395 frá 27. okt. 1992. Inntökuskilyrði á lyfjatæknabraut er grunnskólapróf. 

Frá og með árinu 2021 er nám í sérgreinum lyfjatæknabrautar eingöngu í boði sem fjarnám með staðbundnum lotum í skóla auk starfsnáms í apótekum eða sjúkrahúsapótekum.

Lyfjatæknafélag Íslands er fagfélag lyfjatækna á Íslandi og hefur samskipti við systurfélög á Norðurlöndum og annars staðar í heiminum, enda er námið viðurkennt til starfsréttinda erlendis.(Síðast uppfært 16.11.2021)