4.5.5. Nýsköpunar- og listabraut

Námi á nýsköpunar- og listabraut er ætlað að veita nemendum góða og almenna undirstöðu í listum og nýsköpun. Brautin er tveggja ára 116 feininga braut með námslok á 2. þrepi. Námið er skipulagt sem fjögurra anna lista- og starfsnám sem lýkur með framhaldsskólaprófi en einnig er hægt að taka viðbótarnám til stúdentsprófs. Markmið náms á nýsköpunar- og listabraut er að virkja sköpunarkraft nemandans svo að hann verði hæfari að samnýta og samþætta óskylda hluti, skoðanir og stefnur. Með markvissri þjálfun í skólanum og á starfsvettvangi verður nemandinn hæfari til þátttöku og nýsköpunar í samfélaginu og áttar sig á mikilvægi hugmyndafræði og hugsunarháttar frumkvöðulsins.

Nám á nýsköpunar- og listabraut er alls 116 fein sem skiptist í sameiginlegan kjarna sem er alls 69 feiningar, pakkaval 37 feiningar, þar sem nemendur velja aðra af tveimur línum; kvikmyndalínu eða lista- og nýsköpunarlínu, og loks bundið val 10 feiningar. Námið skiptist í bóklegan og verklegan hluta og er lögð áhersla á góð samskipti við atvinnulífið og haft að leiðarljósi að nám á brautinni sé að einhverju leyti í takt við þarfir þess. Við námslok á brautinni skila nemendur lokaverkefnum. Beitt er aðferðum listnámskennslunnar þar sem nemandinn er virkjaður, jafnt hugur hans, hönd og sköpunarþrá.

Nánari upplýsingar og brautarlýsing eru á vefsíðu nýsköpunar- og listabrautar.



(Síðast uppfært 5.2.2016)