Brautarlýsing

Sérnámsbraut FÁ er fjögurra ára námsbraut fyrir nemendur sem hafa verið í námsverum eða í sérdeildum í grunnskólum og/eða haft aðlagað námsefni. Nemendur þurfa að hafa viðurkennd greiningargögn um þroskaskerðingu sem veldur almennum námsörðugleikum til að komast inn á brautina.

Markmið: Á sérnámsbrautinni fá nemendur tækifæri til að stunda nám við hæfi og viðhalda og auka þekkingu sína og færni til að takast á við viðfangsefni daglegs lífs. Markmiðið er að undirbúa nemendur undir þátttöku í atvinnulífinu og/eða frekara nám miðað við getu. Að námi loknu eiga nemendur að hafa fengið almennan undirbúning fyrir lífið og í grunnþáttum menntunar. Þeir eiga einnig að hafa kynnst og/eða öðlast starfsreynslu á vinnumarkaði.

Námið: Námið skiptist í tvær annir á hverju skólaári og er kennt eftir skóladagatali FÁ. Nemendum er skipt í hópa að mestu eftir námsstöðu úr grunnskóla. Unnið er út frá styrkleikum hvers og eins og áhersla er á að efla sjálfsmynd nemenda. Námið er einstaklingsmiðað og geta áherslur og þátttaka í áföngum verið mismunandi á tímabilinu. Leitast verður við að hafa námið fjölbreytt og þverfaglegt bæði innan brautar og í samstarfi við aðrar brautir. Þeir nemendur sem geta tekist á við nám í einstaka áföngum í almennu námi í skólanum eru hvattir til þess og fá stuðning við heimanám hjá kennurum sérnámsbrautar. 

 Félagslíf: Lögð er áhersla á að nemendur á brautinni einangrist ekki heldur séu þeir hluti af skólaheildinni og taki virkan þátt í félagslífi skólans á skólatíma. Einnig eru haldnar kvöldvökur innan brautarinnar einu sinni til tvisvar á önn.

Síðast uppfært 9.2.2024