Skólasókn og einkunnir

Skólasóknarreglur

Markmið

Á vinnustöðum eru í gildi ákveðnar reglur um viðveru. Sama á um Fjölbrautaskólann við Ármúla. Til þess að ná árangri í námi þarf að stunda námið af kostgæfni.

Skólasókn

1. Nemendur skulu mæta stundvíslega í allar kennslustundir og próf

2. Kennarar eiga að skrá viðveru samdægurs. Ef nemandi mætir seint í tíma er skráð „S“ í viðveruskráningu og það telst seinkoma ef nemandi er ekki mættur þegar kennari les upp. Nemendur sem mæta of seint fá hálft fjarvistarstig. Fjarvist úr einni kennslustund „F“ gildir sem eitt fjarvistarstig.

3. Nemendur bera sjálfir ábyrgð á eigin mætingu. Þeir geta fylgst með stöðu sinni í INNU og eiga að þekkja þær reglur sem gilda um skólasókn. Ef nemendur vilja gera athugasemdir við fjarvistarskráningu þá koma þeir athugasemdum til viðkomandi kennara innan viku.

4. Nemendur eiga að sinna öllum sínum persónulegum erindum utan skólatíma. Sé þess ekki kostur og erindið er brýnt er nemendum bent á að biðja um leyfi hjá aðstoðarskólameistara sem sér um leyfisumsóknir.

Veikindi

Til þess að fá fjarvist vegna veikinda niðurfellda þarf að skila inn vottorði eða staðfestingu um veikindi frá forráðamanni sé nemandi undir 18 ára aldri.

1. Veikindaforföll skal tilkynna rafrænt í INNU samdægurs þann dag sem veikindin eru. Eingöngu er hægt að tilkynna veikindi fyrir einn dag í einu.

2. Rafrænar tilkynningar frá forráðamanni nemanda undir 18 ára teljast fullnægjandi og frekari staðfesting er óþörf.

3. Nemendur sem eru eldri en 18 ára þurfa að skila inn læknisvottorði innan þriggja virkra daga frá lokum veikinda til viðbótar rafrænni skráningu í INNU.

Leyfi

Öll leyfi eða vottorð eru færð af skrifstofu eða aðstoðarskólameistara. Kennarar veita ekki leyfi. Nemendum eru ekki reiknaðar fjarvistir vegna viðurkenndra ferða á vegum skólans. Tekið skal fram að ekki eru veitt leyfi vegna skemmtiferða. Hægt er að sækja um leyfi ef um er að ræða:

1. Ferðir/æfingar á vegum landsliða í íþróttum.

2. Námskeið/námsferðir t.d. á vegum skólans eða skiptinemasamtaka.

3. Fjarveru vegna dauðsfalla í nánustu fjölskyldu

4. Æfingar/leitir á vegum björgunarsveita

Undanþágur frá skólasóknarreglum

Nemendur geta í sérstökum tilfellum sótt um ívilnun frá skólasóknarreglum. Undanþágubeiðnum skal skila til náms- og starfsráðgjafa skólans eða aðstoðarskólameistara þar sem tilgreindar eru ástæður umsóknar. Dæmi:

1. Nemendur með ung börn geta sótt um undanþágu.

2. Skólinn gætir réttar langveikra nemenda og hafa náms- og starfsráðgjafar milligöngu í slíkum málum af hálfu skólans. Undanþágubeiðnir þessara nemenda þarf að meta með hliðsjón af heilsufari, skólasókn og námsárangri.

3. Nemendur sem búa við aðstæður sem geta haft áhrif á skólasókn þeirra geta sótt um undanþágu.

Einkunnir fyrir skólasókn

Mætingaskylda er 80% í öllum áföngum nema annað sé tekið fram. Mætingarskylda getur verið meiri, t.d. í verklegum greinum eða próflausum áföngum og kemur þá fram í kennsluáætlun viðkomandi áfanga. Ákveðnar námsbrautir geta verið með sérstök ákvæði um mætingu, en slíkt á fyrst og fremst við í starfsnámi. Í símatsáföngum gildir alltaf raunmæting til einkunnar. Benda má á, að nemendur sem ekki geta sótt dagskólann hafa þann kost að sækja um fjarnám við skólann. Einkunn er gefin fyrir skólasókn og birtist hún í námsferli nemenda og á útskriftarskírteini. Skólasóknareinkunn byggir á samanlagðri mætingu í alla áfanga og er reiknuð á eftirfarandi hátt:

Skólasókn Einkunn
98%-100% 10
95%-97% 9
92%-94% 8
88%-91% 7
80%-87% 6
79% og undir Fall - 4

Ferli vegna brota á skólasóknarreglum

1. Skólasókn er skoðuð reglulega yfir önnina. Fari mæting nemanda undir 85%, fær nemandi aðvörun frá umsjónarkennara/skólastjórnendum. Aðvaranir eru einnig sendar á forráðamenn nemenda undir 18 ára aldri. Allar viðvaranir sem nemendur fá eru skráðar í INNU.

2. Fari mæting nemanda niður í 80% er hann kallaður á fund hjá umsjónarkennara. Bæti nemandinn ekki mætingu eftir viðtal hjá umsjónarkennara er máli hans vísað til skjólastjórnenda.

3. Nemandi sem fellur á skólasókn er ávallt settur á biðlista og á ekki öruggt sæti í skólanum næstu önn.

Annað

Þrisvar á önn eru fjarvistayfirlit sent heim til foreldra/forráðamanna nemenda yngri en 18 ára. Sé nemandi ósáttur við meðferð mála sinna nýtur hann andmælaréttar og getur óskað eftir því að andmæli hans séu tekin fyrir á fundi skólaráðs.

(Síðast uppfært 14.8.2019)