Námsmatsreglur

Þessar námsmatsreglur eru núverandi reglur skólans og í endurskoðun.

Námsmat - kennsluáætlun

Í upphafi hverrar annar skal nemendum kynnt í kennsluáætlun tilhögun námsmats í hverjum áfanga. Þar skal tilgreina öll verkefni sem vægi hafa til námsmats og nemanda er skylt að skila á önninni. Kennarar meta verkefni nemenda á önninni til einkunnar og verður þeirri einkunn ekki áfrýjað. Í kennsluáætlun skal ekki gert ráð fyrir nokkru lokanámsmati síðasta hálfan mánuð kennslu í þeim áföngum sem prófað er í á próftíma. Öll próf sem vega 50% og meira skulu haldin á próftíma nema þau séu haldin fyrir miðja önn. Þó er heimilt að leggja fyrir verkefni með vægi í lokaeinkunn sem ekki krefjast sérstaks undirbúnings.

Að loknu prófi eiga nemendur þess kost að skoða prófúrlausnir sínar á valdegi. Komi fram skekkja í mati eða einkunnagjöf skal hún leiðrétt. Nemendur eiga rétt á því að ágreiningi um prófniðurstöðu sé vísað til úrskurðar annars en viðkomandi kennara.

 

Einkunnagjöf

Við lok hvers áfanga er gefin einkunn í heilum tölum á bilinu 1-10. Einkunnir geta byggst á frammistöðu í kennslustundum, skilum og  mati á verkefnum og lokaprófi, allt eftir ákvörðun deildarfundar. Í sumum áföngum er eingöngu beitt símati og þar er ekki lokapróf. Í öllum öðrum áföngum verða menn að ná tilskilinni lágmarkseinkunn á lokaprófi áður en tekið er tillit til úrlausna á önninni. Lágmarkseinkunn í hverjum áfanga er 5, þó með þeirri undantekningu að nemandi getur útskrifast með einkunnina 4 ef um lokaáfanga er að ræða. Slíkur árangur gefur ekki einingar. Nái nemandi ekki lágmarkseinkunn verður hann að endurtaka áfangann, þó er þeim nemendum sem eru að ljúka námi gefinn kostur á að endurtaka  próf í einum áfanga.

 

Endurtekning prófs

Nemanda er heimilt að þreyta próf þrívegis í sama áfanga.

 

P-áfangi

Nemandi sem fengið hefur 8 eða hærra í undanfarandi áfanga á rétt á að taka p-áfanga í viðkomandi grein.Um p-nemanda gilda sömu reglur og aðra nemendur áfangans nema hann er laus undan tímasókn. P-nemandi ber ábyrgð á að kynna sé námsáætlun og hafa samband við kennara samkvæmt henni. Óheimilt er að leyfa nemanda sem fellur í áfanga að endurtaka áfanga sem p-nemanda. Ef áfanginn er kenndur í fjarnámi eru p-nemendur skráðir í fjarnám.

 

F-nám

Nemendum er heimilt að skrá sig í f-nám, en það er fjarnám í einstökum áföngum og þurfa þá að greiða sérstakt innritunargjald.


 

Einkunnaskali

Einkunnir eru gefnar í heilum tölum frá 1 til 10 og skal hafa eftirfarandi til hliðsjónar um merkingu þeirra.

 

     Einkunn                

 

10        u.þ.b.   95-100% markmiða náð

 9           -        85-94%          -

 8           -        75-84%          -

 7           -        65-74%          -

 6           -        55-64%          -

 5           -        45-54%          -

 4           -        35-44%          -

 3           -        25-34%          -

 2           -        15-24%          -

 1           -           0-14%          -

 

Áfangalok - námsmat

Námsmat er með ýmsum hætti í skólanum og fer það eftir eðli greinar og uppbyggingu áfanga hverju sinni.

 

A. Flestum áföngum lýkur með lokaprófi sem þeir nemendur fá að taka sem skilað hafa tilteknum úrlausnum og prófum samkvæmt kennsluáætlun og staðist kröfur um skólasókn. Tilgreint er í námsáætlun hvaða verkefnum nemendum ber að standa skil á til þess að fá að fara í lokapróf.

Skriflegt próf

Námsmat getur verið fólgið í einu skriflegu prófi í lok námsáfanga sem getur gilt 100%.

 

Munnlegt próf

Þá getur námsmat verið fólgið í munnlegu prófi sem er þá annaðhvort hluti af heildarmati eða símati. Einnig getur heildarmat áfanga falist í munnlegu prófi.

 

B. Sumir áfangar eru án lokaprófs, en þá þurfa nemendur að mæta án vottorða eigi minna en í 90% kennslustunda og þeir þurfa þá að skila þeim úrlausnum og ljúka þeim verkefnum eða prófum sem kveðið er á um í námsáætlun.

 

C. Í sumum áföngum er símat, en í því felst að öll heimavinna, verkefnavinna í kennslustundum, þátttaka í kennslustundum og skólasókn nemenda er höfð til hliðsjónar. Í símatsáföngum er ekki lokapróf. Próflausir áfangar eru símatsáfangar.

 

D. Munnleg próf eru í flestum tungumálum og í námsáætlun er kveðið á um vægi þeirra í lokaeinkunn. Munnlegum prófum skal dreifa á önnina eftir föngum.

 

Miðannarmat

Skólinn reynir að gefa nemendum vísbendingu um námsgengi á miðri önn með miðannarmati. Matið byggir á verkefnum, skyndiprófum, ástundun og skólasókn á miðri önn. Matið vegur ekki til lokaeinkunnar í áfanga en er ætlað að vera hvatning þeim sem stunda nám sitt vel en áminning þeim sem geta bætt ráð sitt.

 

Ágreiningur um námsmat

Að loknu prófi skulu nemendur eiga þess kost að skoða prófúrlausnir sínar innan þriggja daga frá afhendingu einkunna. Komi fram skekkja í mati eða einkunnagjöf skal slíkt leiðrétt. Verði ágreiningur milli nemenda og kennara um mat úrlausna skal skólameistari kveðja til prófdómara til þess að fara yfir úrlausnina að höfðu samráði við verkstjóra. Úrskurður prófdómara skal gilda. Skriflegar prófúrlausnir eru varðveittar í eitt ár, en þá er þeim tryggilega eytt.

Skólameistari getur óskað eftir því að ráðuneytið skipi prófdómara við lokapróf eða til aðstoðar við úrlausn alvarlegra ágreiningsefna sem upp kunna að koma á milli nemenda og kennara.

 

Prófsvindl

Nemenda, sem staðinn er að misferli í prófi, skal vísa frá prófi og getur hann  búist við brottvikningu úr skóla, tímabundið eða til frambúðar, eftir alvarleika brots. Hið sama gildir um misferli þar sem námsmat felst í öðru en skriflegu eða munnlegu prófi.

 

Varðveisla prófvottorða og einkunna að námi loknu

Allar upplýsingar er varða námsferil nemenda í skólanum og mat á námi úr öðrum skólum eru varðveitt á tölvutæku formi. Að jafnaði er hægt að fá útskrift af námsferli eða afrit af skírteini með stuttum fyrirvara. Beiðni þar að lútandi þarf að berast skrifstofu skólans. Ef þess er óskað er hægt að prenta þessi gögn í enskri eða danskri þýðingu.

 

Mat á námi úr öðrum skólum

 

Matsreglur og framkvæmd þeirra

Við námsmat er stuðst við nokkrar grundvallarreglur er varðar matshæfni náms, innihald og stundafjölda.

 

Hvað matshæfni varðar er aðalforsendan að hægt sé að finna hliðstæðu í námsframboði FÁ eða að námið megi flokka innan þeirrar brautar sem sótt er um. Ef um vafaatriði er að ræða er það borið undir verkstjóra. Nám sem ekki fellur innan þessa ramma er metið til valeininga að því marki sem valgreinakvóti brautar segir til um.

 

Hvað stundafjölda varðar er nám matshæft til eininga ef fram kemur kennslustundafjöldi eða klukkustundafjöldi og er þá reiknað út frá því kerfi sem notað er í FÁ. Fyrir hverja einingu þarf að liggja að baki tvær kennslustundir (2X40 mínútur) í 14 vikur. Sem dæmi má nefna að ef nám hefur verið kennt í 28 kennslustundir, samsvarar það einni einingu.

 

Námsráðgjafar og áfangastjóri sjá um námsmat og kalla verkstjóra sér til fulltingis ef um vafaatriði er að ræða. Skólameistari ber ábyrgð þegar meta skal nám úr skóla sem ekki starfar samkvæmt námskrá. Nemendur í slíkri stöðu skulu njóta vafans ef um slíkt er að ræða.


(Síðast uppfært 2.11.2012)