Þjónustutæknabraut

Námið á að veita nemendum almenna þekkingu í bóklegum og verklegum greinum með áherslu á góða kunnáttu í sérgreinum, samskiptahæfni og þekkingu í heilbrigðisgreinum. Námi á braut fyrir þjónustutækna er ætlað að búa nemendur undir störf innan heilbrigðisstofnana og fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu.

Áhersla er lögð á að þjálfa færni til þess að takast á við raunveruleg viðfangsefni þar sem fyrirmæli, verklýsing og vinnuaðferðir liggja fyrir. Jafnframt skal leitast við að þjálfa nemendur í að takast á við ófyrirséð verkefni. Leit að lausnum krefst bæði þekkingar og hugkvæmni auk hæfni í samskiptum og rökvísi sem mikilvægt er að rækta með nemendum.

Í námi fyrir þjónustutækna er unnið með alla grunnþætti námskrár svo sem heilbrigði og velferð þar sem fjallað er um mikilvægi þess að auka sýkingarvarnir, öryggi og vinna að fagmennsku við að bæta lífsgæði skjólstæðinga ásamt því að huga að starfstengdu öryggi. Sífellt er hugað að lýðræði og mannréttindum því allir eiga rétt á góðri og öruggri þjónustu innan heilbrigðisgeirans. Unnið er að verkferlum er stuðla að góðu umhverfi og samábyrgð fagfólks til að auka sjálfbærni. Nemendur vinna með ýmsa miðla til upplýsingaöflunar, netmiðla, erlendar bækur sem og innlendar ásamt blöðum, greinum, myndefni og tölvuforritum. Möguleikar til öflunar upplýsinga, meðhöndlunar og miðlunar ýmiss konar gagna hafa gjörbreyst með tilkomu upplýsinga- og samskiptatækni. Í aðalnámskrá framhaldsskóla er lögð mikil áhersla á að nemendur kynnist notagildi upplýsinga- og samskiptatækni og læri að beita henni. Einnig eru unnin hópverkefni þar sem reynir á framsetningu og hugkvæmni nemenda ásamt námsmati sem byggir á jafnrétti og gagnrýnni hugsun.

Við skipulag kennslu er mikilvægt að taka mið af þörfum starfsgreina um vel þjálfað starfsfólk og mælt er með samvinnu skóla og stofnana eins og kostur er. Þetta ber að hafa að leiðarljósi í öllu námi en er ekki hvað síst mikilvægt í vinnustaðanámi.

Í vinnustaðanámi er ætlast til að nemendur kynnist skipulagi vinnustaða, æfist í vinnuferlum, efli vinnufærni sína á vinnumarkaði, þjálfist í samvinnu á vinnustað og læri að takast á við raunverulegar aðstæður á vinnustöðum. Á þennan hátt verða þjónustutæknar færari að axla ábyrgð og sýna sjálfstæði í starfi.

Krafan um aukin gæði og aukna þjónustu heilbrigðisstofnana og fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu er stöðug og vaxandi. Því er mikilvægt að leggja áherslu á að rækta með nemendum jákvæð viðhorf til gæða í heilbrigðisþjónustu og að þeir hugi vel að möguleikum sínum til símenntunar. 

Síðast breytt 3.6.2022