1.1. Ávarp skólameistara

Þann 1. ágúst árið 2008 tóku gildi ný lög um framhaldsskóla og í framhaldinu hóf Fjölbrautaskólinn við Ármúla vinnu við nýja námskrá. Ljóst er að ný námskrá felur í sér ný tækifæri fyrir framhaldsskólana og gera má ráð fyrir að sérhæfing innan framhaldsskólakerfisins muni aukast í kjölfarið. Ný námskrá kallar á endurskoðun allra námsbrauta og þar eru tækifæri til þróunar og breytinga. Skólinn hefur undanfarin ár endurskoðað brautir í heilbrigðisskólanum, stofnað til nýrra námsbrauta og lagt grunn að fleiri sérhæfðum brautum. Ný námskrá á öllum brautum tekur gildi frá og með skólaárinu 2015-2016.

Í samræmi við aðalnámskrá framhaldsskólanna er lögð megináhersla á grunnþætti menntunar, þ.e. læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun. Meginmarkmið skólans er að flétta grunnþættina inn í alla kennslu sem og starf skólans og þjóna þannig enn betur þeim fölbreytta nemendahópi sem stundar nám við skólann. FÁ hefur þá sérstöðu að nemendahópurinn er mjög fjölbreyttur og það kallar á meiri fjölbreytni í kennsluháttum og námsmati. Samkvæmt lögum um framhaldsskóla eiga skólar að setja sér námsbrautalýsingar sem eru staðfestar af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Hér hefur skólinn haft tækifæri til að þróa enn frekar það nám sem er í boði er og bæta við nýjum námsbrautum sem falla vel að umhverfi og menntastefnu skólans. Skólinn hefur í dag skapað sér sterka sérstöðu sem Grænfánaskóli og heilsueflandi framhaldsskóli og fellur það vel að grunnþáttunum sjálfbærni, heilbrigði og velferð. Enn fremur er lögð sérstök áhersla á upplýsingatækni í kennslu þannig að nemendur verði meðvitaðir um hið tæknivædda samfélag sem við lifum í.

Það er von mín að nemendur telji sig að námi loknu tilbúna til frekara náms eða starfa í samfélaginu og skili þannig til baka þeirri fjárfestingu sem námið er og verði um leið samkeppnishæfari.


(Síðast uppfært 9.2.2015)