1.2. Ritstjórnarstefna, markhópur

Skólanámskrá Fjölbrautaskólans við Ármúla er í tveimur hlutum. Í almennum hluta hennar eru upplýsingar um skipulag skólans, starfsemi hans og stefnu í víðum skilningi. Í öðrum hluta eru hins vegar námsbrautalýsingar. Þessi efnisafmörkun námskrárinnar er í fullu samræmi við ákvæði 22. greinar laga um framhaldsskóla frá árinu 2008 þar sem vikið er að skyldu hvers framhaldsskóla til að gefa út skólanámskrá .

Skólanámskráin er handa nemendum, kennurum, foreldrum og öllum öðrum sem áhuga hafa á skólamálum yfirleitt. Segja má að skólanámskráin sé n.k. andlit skólasamfélagsins í FÁ. Hún ber ekki aðeins innviðum þessa samfélags vitni heldur einnig þeim hugmyndum og hugsjónum sem við viljum byggja skólastarfið á og marka skólanum sérstöðu.   

Sú ákvörðun hefur verið tekin að birta skólanámskrána eingöngu á vef skólans.  Kaflarnir eru stuttir og almenns eðlis og þar koma aðeins fram upplýsingar um meginmarkmið skólans. Úr hverjum kafla eru svo tenglar sem vísa í ýtarlegri áætlanir, lýsingar, deilimarkmið o.fl. sem eiga að vera í sífelldri endurskoðun. Af þessu sjást skýrt kostir útgáfu á rafrænu formi. Með slíkri útgáfu er hægt að tengja skólanámskrá og skólastarf á hverjum tíma nánari böndum en unnt er með hefðbundinni útgáfu á prenti. Ekki er nóg með að texti námskrárinnar sé almennur og stuttur heldur tryggir rafræn birting einnig auðvelt aðgengi að honum. Skólanámskráin  verður þannig að lifandi skjali og síður hætta á að menn missi sjónar af þeim markmiðum sem þar eru sett.

Það er ekki hlutverk skólanámskrár að endurspegla skólastarfið enda breytist það sífellt með nýju fólki, hugmyndum, straumum og stefnum. Skólanámskráin er hins vegar stefnuskrá sem taka verður mið af í skólastarfinu. Það er okkar hlutverk sem vinnum í FÁ, jafnt  kennara, nemenda sem annarra starfsmanna að ígrunda vandlega þau markmið sem sett eru fram í skólanámskránni og leita stöðugt nýrra leiða til þess að uppfylla þau.

Ritnefnd skólanámskrár skipuðu Gísli Ragnarsson skólameistari, Ólafur H. Sigurjónsson aðstoðarskólameistari, Guðrún Hildur Ragnarsdóttir, Guðrún Narfadóttir, Sveinbjörg Sveinbjörnsdóttir, Elín Vilhelmsdóttir og Hrönn Baldursdóttir. Ritstjóri skólanámskrár er Helgi Sæmundur Helgason en yfirumsjón með verkinu hefur  verið í höndum Helmuts H. Hinrichsen þróunarstjóra.


(Síðast uppfært 2.11.2012)