8.3. Starfsmannafundir

Í 9. og 10. grein framhaldsskólalaganna er fjallað um skólafundi og kennarafundi. Þar segir:

9. gr. Skólafundir.
Í framhaldsskólum skal halda skólafund a.m.k. einu sinni á skólaári. Rétt til setu á skólafundi eiga allir starfsmenn skóla ásamt fulltrúum nemenda samkvæmt nánari ákvörðun skólameistara. Á skólafundi er rætt um málefni viðkomandi skóla. Skólameistari boðar til fundar, leggur fram dagskrá og stýrir fundi eða felur öðrum stjórn hans. Fundargerð skólafundar skal kynnt skólanefnd. Skylt er skólameistara að halda skólafund ef þriðjungur fastra starfsmanna skóla krefst þess.

10. gr. Kennarafundir.
Í framhaldsskólum skal halda kennarafund a.m.k. tvisvar sinnum á skólaári. Skólameistari boðar til fundar, leggur fram dagskrá og stýrir fundi eða felur öðrum stjórn hans. Fundargerð kennarafundar skal kynnt skólanefnd. Almennir kennarafundir í framhaldsskólum skulu fjalla um stefnumörkun í starfi skóla, m.a. námsskipan, kennsluhætti, gerð skólanámskrár, tilhögun prófa og námsmat.
Skólanefnd, skólameistari og skólaráð geta leitað til kennarafundar um önnur mál.
Kennarafundur kýs við upphaf haustannar fulltrúa í skólaráð. Kennarafundur kýs einnig áheyrnarfulltrúa í skólanefnd.
Allir kennarar sem starfa við skóla eiga rétt til setu á kennarafundi. Skólameistari undirbýr mál er fyrir kennarafund koma, en öllum sem þar eiga seturétt er heimilt að bera þar fram mál.

Sú venja hefur skapast í FÁ að starfsmenn eru allir boðaðir á almenna kennarafundi. Við köllum þessa fundi því jöfnum höndum kennarafundi og starfsmannafundi. Yfirleitt eru fjórir slíkir fundir haldnir á önn eða að jafnaði einn fundur í mánuði. Þegar starfsmannafundur snýst um stefnumörkun í starfi skólans er völdum fulltrúum nemenda boðið að sitja fundinn og telst hann þá vera skólafundur.

Dagskrár síðustu skólafunda og skólaráðstefna má finna undir Ráðstefnur og endurmenntun .

 

(Síðast uppfært 31.1.2017)