3.9.1. Eineltisáætlun

Einelti er endurtekin ótilhlýðileg og ámælisverð háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að.

Eineltisáætlun skólans er tvenns konar. Annars vegar einelti sem lýtur að nemendum og hins vegar sem varðar starfsmenn. Þessi hluti áætlunarinnar varðar nemendur.

Eineltisteymi

Í skólanum er starfandi eineltisteymi sem hefur það hlutverk að safna saman upplýsingum, afla sér sérfræðiþekkingar og miðla henni áfram og vinna að forvörnum gegn einelti með því að skipuleggja fræðslufundi og kynningar.

Eineltisteymið er ráðgjafi í eineltismálum og hefur eftirlit með því að úrlausnum sé fylgt eftir.

Skólastjórn skipar eineltisteymið úr röðum starfsmanna til tveggja ára. Eineltisteymið velur sér formann sem ber ábyrgð á starfsemi þess og kallar teymið saman í byrjun annar og eftir þörfum. Teymið setur sér vinnureglur sem meðal annars felur í sér tímaramma, eftirfylgd o.s.frv.

Teymið vinnur ekki endilega alla vinnuna heldur hefur umsjón með henni og ber ábyrgð á lausn málsins. Teymið getur falið öðrum starfsmönnum gagnaöflun og viðtöl eftir eðli máls.

Formaður teymisins heldur utan um gögn sem varða eineltismál sem upp kunna að koma. Hann á einnig að semja skýrslu um stöðu eineltismála í lok hvers skólaárs.

Viðbrögð við einelti

Þegar nemandi verður fyrir einelti eða einhver verður var við einelti skal hann snúa sér hið fyrsta til næsta trúnaðaraðila sem getur verið skólameistari, aðstoðarskólameistari, umsjónarkennari, kennslustjóri, forvarnarfulltrúi, námsráðgjafi eða einhver annar sem viðkomandi ber traust til.

Trúnaðaraðilinn tilkynnir atvikið til eineltisteymis og fer þá eftirfarandi viðbragðsáætlun í gang.

Viðbragðsáætlun


  1. Gagna/upplýsinga er aflað
  2. Viðtöl við hlutaðeigendur og aðra aðila sem geta varpað ljósi á málið
  3. Unnið að viðeigandi lausn – sáttaumleitanir
  4. Eftirfylgni
  5. Máli lokað

Ef grunur vaknar um að einelti hafi átt sér stað eða eigi sér stað gagnvart nemanda skal hafa samband við umsjónarkennara, námsráðgjafa eða stjórnendur skólans.  Unnið er með allar ábendingar í trúnaði sé þess óskað. Lögð er áhersla á öryggi aðila og farið er ítarlega yfir málin áður en gripið er til aðgerða.  Nauðsynlegt er að afla gagna með hlutlausum hætti og málið er skoðað út frá mismunandi sjónarhornum. Reynt er að vinna hratt og örugglega að málum, viðtöl eru tekin við hlutaðeigendur, sem og aðra aðila sem geta beint eða óbeint varpað ljósi á málið.  Ef staðfest er að um einelti sé að ræða er tekin ákvörðun um næstu skref.  Hlutaðeigendur eru upplýstir um ákvörðun og þeim gerð grein fyrir úrvinnslu málsins. Unnið skal með skipulögðum hætti að lausn mála, tímarammi skal settur og eftirfylgni skipulögð.  Skráning er mikilvæg í ferlinu þannig að öllum upplýsingum sé haldið til haga.

Ef um falskar ásakanir er að ræða er tekið á þeim af sömu festu og ef um einelti væri að ræða. Láti gerandi ekki af eineltinu leiðir það til áminningar og hugsanlega til brottreksturs.  Ef gerandi og/eða þolandi er undir 18 ára ber skólameistara að upplýsa foreldra um stöðu mála.

Eineltisteymið hefur vald til lokaákvörðunar í samráði við skólameistara. Ef viðunandi lausn næst ekki, hvort sem er gagnvart geranda eða þolanda ákveður skólameistari næstu skref. Þau geta verið að vísa málinu til utanaðkomandi sérfræðings. 

Þolandi og gerandi/gerendur fá stuðning frá náms- og starfsráðgjafa meðan unnið er að lausn mála. Enn fremur geta þolandi og gerandi notið áframhaldandi stuðnings eftir að máli er lokið.

Sé grunur um einelti staðfestur vísar skólameistari geranda úr skóla í einn dag skv. 2. mgr. 33. gr. laga um framhaldsskóla nr. 92/2008, enda er einelti brot á skólareglum. Sé eineltið alvarlegt og jafnvel refsivert skv. lögum getur skólameistari ákveðið að grípa til frekari ráðstafana skv. 2. mgr. 33. gr. laga nr. 92/2008. Ákvörðun skólameistara um brottvísun úr skóla er kæranleg til ráðherra. Um málskot gilda ákvæði VII. kafla stjórnsýslulaga.

Skýrsla eineltisteymis skólans fyrir skólaárið 2011-2012


(Síðast uppfært 6.11.2012)