Nám með starfi fyrir verðandi heilbrigðisritara

Heilbrigðisritarabrú er ætluð fullorðnu fólki sem óskar að fá metna starfsreynslu og óformlegt nám til styttingar á námi á heilbrigðisritarabraut. Skilyrði til innritunar í nám á heilbrigðisritarabrú eru að umsækjandi sé orðinn 22 ára gamall og framvísi staðfestingu frá vinnuveitanda um að hann hafi a.m.k. 4 ára starfsreynslu og starfi enn við ritarastörf á heilbrigðissviði. Auk þess þarf viðkomandi að hafa lokið 160 stunda starfstengdum námskeiðum á vegum stéttarfélaga eða stofnana/fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu sem hafa það að markmiði að auka kunnáttu og færni til ritarastarfa á heilbrigðissviði. 

Sá sem lokið hefur heilbrigðisritaranámi af brú með fullnægjandi árangri hefur lokið fullgildu starfsnámi heilbrigðisritara enda þótt viðkomandi hafi ekki lokið almennum greinum brautarinnar samkvæmt aðalnámskrá. Sá hinn sami kann hins vegar að þurfa að ljúka því námi til að geta stundað framhalds- eða viðbótarnám að loknu námi af heilbrigðisritarabrú.

Fjölbrautaskólinn við Ármúla hefur boðið upp á nám fyrir heilbrigðisritara af brú síðastliðin ár í samvinnu við Fræðslusetrið Starfsmennt (www.smennt.is). Félagsmenn SFR fá greiddan kostnað vegna námsins hjá Fræðslusetrinu Starfsmennt.


(Síðast uppfært 4.2.2016)