Markmið og námsfyrirkomulag fjarnáms FÁ

Nám óháð stað, stund! Fjarnám FÁ er nám á netinu sem hefur verið í boði við skólann frá árinu 2001. Námsmat í áföngum er á rafrænu formi en lokapróf eru staðbundin í lok annar.

Markmið fjarnáms FÁ: 

Markmið skólans með því að bjóða upp á fjarnám er að gefa sem flestum kost á því að stunda almennt framhaldsskólanám og starfnám á heilbrigðissviði óháð stað og stund, á þeim hraða sem hentar hverjum og einum.
Það er fjölbreyttur hópur fólks á öllum aldri hérlendis og erlendis sem stundar fjarnám í FÁ; grunnskólanemendur, framhaldsskólanemendur, nemendur í grunn- og starfsnámi á heilbrigðissviði (t.d. sjúkraliða-, heilsunudd-, tanntækna-, lyfjatækna-, heilbrigðisritaranám), nemendur sem eru að undirbúa sig undir frekara háskólanám, nemendur sem vegna aðstæðna geta ekki sótt staðbundið nám, nemendur sem eru að taka upp þráðinn á framhaldsskólastigi eftir hlé, eða nemendur sem velja sér staka áfanga til endurmenntunar eða sér til skemmtunar!

Námsfyrirkomulag:

 • Á upphafsdegi annar fá nemendur send aðgangs- og lykilorð að námsumhverfi Moodle í tölvupósti frá þjónustuveri skólans.  Þegar nemandi er komin inn í Moodle getur hann komist í þá áfanga sem hann er skráður í.
 • Inn í hverjum áfanga eru upplýsingar um kennsluáætlun, námsefni og námsmat. Námsmat í áfanga er fjölbreytt en það er mismunandi eftir áföngum. Í lok annar er lokapróf og eru þau staðbundin í húsnæði FÁ (eða á viðurkenndum prófstöðum innanlands (fyrir utan höfuðborgarsvæðið) og erlendis, sjá upplýsingar hér).
 • Það er mikilvægt fyrir nemanda að lesa og skrá hjá sér vel allar upplýsingar sem kennari setur fram, fylgja yfirferðaráætlun, fylgja tímasetningum og leysa öll verkefni/próf. Hvert einkunnarstig skiptir máli í lokaeinkunn. 
 • Sveigjanleiki er einkunnarorð fjarnáms FÁ en hann er ekki sjálfgefinn. Ef nemandi getur ekki staðið við tímasetningar sem kennari setur fram er það á hans ábyrgð að óska fyrirfram eftir sveigjanleika við kennara.
 • Vakni spurningar sem ekki eru svör við í áfanga er hægt að senda fyrirspurn til kennara inn í Moodle og ber honum að svara innan tveggja sólarhringa.
 • Sjálfsagi er mikilvægur í fjarnámi enda er fjarnám FÁ sjálfsnám. Skipulag og virkni skiptir miklu máli. Hér eru góðir punktar frá námsráðgjöfum skólans til að styðjast almennt við í námi og hér er viðtal á RUV við Sigrúnu, námsráðgjafa skólans, sem veitir góð ráð. 

Námsefni:

 • Bókalista má nálgast á heimasíðunni t.d. með því að skoða "áfangar í boði", sjá hér . Annað námsefni/ítarefni er hægt að nálgast í kennslukerfinu Moodle. Vertu í sambandi við kennara þinn ef þú ert ekki með öll námsgögn áfangans.
 • Helstu bókaverslanir í Reykjavík selja þær bækur sem notaðar eru í kennslunni og er hægt að panta þær hjá þeim ef nemendur búa úti á landi. Reynt er að tryggja nægilegt magn bóka. Hafðu samband við okkur ef þú lendir í vandæðum með að útvega námsgögn.

Námið:

Verklagsreglur:

 • Nemendur skulu fylgja tímaramma prófa og verkefna. Einnig skulu nemendur fylgja settum leiðbeiningum verkefna. Ef nemandi getur ekki fylgt tímaramma prófa eða verkefna skal hann hafa samband við kennara.
 • Nemendur eiga að hafa samband við kennara í gegnum samskiptasvæði Moodle
  og kennurum ber að svara fyrirspurnum nemenda inn í Moodle innan tveggja virkra sólarhringa (að hámarki).
 • Ef þú átt í tæknilegum vandamálum skaltu senda póst á þjónustuver skólans á netfangið thjonustuver@fa.is. Sími skólans er 5258800 og hann er opinn milli 8 og 15 virka daga. 
 • Nemendur í fullu fjarnámi geta lokið allt að 25 einingum á haust- og vorönn og 15 einingum á sumarönn. Hægt er að sækja um undanþágu frá þessari reglu ef aðstæður eru þannig að nemendur telji sig ráða við meira nám. Sækja þarf um undanþágu til fjarnámsstjóra (fjarnam@fa.is).  

Námsmat í áfanga:

 • Nemandi þarf að ná lágmarkseinkunn 4,5 á lokaprófi, áður en einkunnir fyrir próf og/eða verkefni sem unnin eru á önninni eru reiknaðar inn í lokaeinkunn. 
 • Þetta þýðir að einkunnir í prófum og verkefnum sem unnin eru á önninni geta hækkað lokaeinkunn upp í lágmark í áfanganum hafi nemandi náð 4,5 á lokaprófi. Þetta getur einnig þýtt að ef einkunnir fyrir próf og verkefni sem unnin eru á önninni eru slakar getur það orðið til þess að nemandi stenst ekki áfanga, jafnvel þó einkunn í lokaprófi hafi verið hærri en 4,5. Hér þarf að huga að vægi námsþátta í áfanga, þ.e.a.s. vægi lokaprófs annars vegar og vægi prófa/verkefna sem unnin eru á önninni hins vegar.

Lengd anna og lokapróf:

 • Námsannir í fjarnámi FÁ eru þrjár; vor-, sumar- og haustönn. Vor- og haustannir eru 12 vikur. Prófdagar eru 11. Sumarönn er 8 vikur og prófdagar eru 5. Prófdagar eru alltaf auglýstir á heimasíðu skólans áður en skráning í áfanga á önn hefst. Við biðjum nemendur að huga fyrirfram að og virða settar dagsetningar í lokaprófum og í sjúkraprófum. 
 • Lokapróf eru staðbundin og fara fram í Fjölbrautaskólanum við Ármúla í maí, ágúst og í desember á auglýstum tíma. Prófastaðir eru fjölmargir utan FÁ, innanlands og erlendis, en nemendur þurfa að tilkynna á skrifstofu fjarnáms ef þeir taka lokapróf utan skólans, sjá upplýsingar um fyrirkomulag prófa hér    Mikilvægt er að huga að málum í tíma. 
 • Nemendur sem þurfa lituð blöð/stærra letur eða þurfa upplesin próf vegna lesblindu skulu sækja um hjá fjarnámsstjóra með því að senda tölvupóst á netfangið: fjarnam@fa.is 
 • Fjarnámsstjóri og fulltrúi fjarnáms gefa nánari upplýsingar um allt sem viðkemur prófum í gegnum netfang fjarnámsins: fjarnam@fa.is


(Síðast uppært 30.05.2023)