Fréttir

FÁ sigrar nýsköpunarhraðalinn MEMA 2023

26.11.2023

 

Fjölbrautaskólinn við Ármúla sigraði MEMA 2023, nýsköpunarhraðall framhaldsskólanna, á árlegri verðlaunahátíð hraðalsins sem haldin var í Háskóla Íslands föstudaginn, 24. nóvember.

Það var teymið “Six Flips” sem sigruðu en þau uppgötvuðu það að uggar og sporðar væru alla jafna fargað í veiðum og framleiðslu. Þetta efni vildu þau nýta.

Hugmyndin gengur út á að nýta ugga og sporða á fiskum sem er alla jafna fargað á veiðum og við framleiðslu á fiskafurðum. Eftir mikið tilraunastarf og náðu þau að þróa snakk úr uggunum sem er mjög næringarríkt en samt bragðgott. Snakkið er sérstaklega hugsað fyrir ungt fólk með ADHD eða á einhverfurófi sem sem forðast oft fisk vegna áferðarinnar. Þetta prófuðu þau sérstaklega meðal samnemanda og rann fiskurinn ljúflega niður hjá hópnum. Varan er næringarrík og bætir því næringar inntöku þessa hóps. Þetta er því mjög mikilvæg lausn þar sem hún dregur úr brottkasti á hafi, matarsóun og eykur fjölbreytni í fæðu hjá ungu fólki.

Í vinningsliði FÁ eru þau Emilía Ýr Heiðarsdóttir, Katrín Edda Guðlaugsdóttir, Áróra Glóð Sverrisdóttir, Birna Clara Ragnarsdóttir, David Juskevicius og Ugne Jankute. Þau unnu verkefnið undir styrkri leiðsögn kennara síns, Hönnu Jónsdóttur.

Samkeppnin var hörð að þessu sinni en fimm framhaldsskólar og rétt um 90 nemendur hófu keppni í haust og náðu 54 að skila inn hugmynd til dómnefndar. 14 hugmyndir kepptu síðan til úrslita. Í ár var lögð áhersla á að bæta líf í vatni, sem er 14 heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna.

MEMA nýsköpunarhraðallinn er árlegur viðburður sem hefur það að markmiði að hvetja ungt fólk til að takast á við samfélagslegar áskoranir með hugviti og tækni. Áhersla er lögð á heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og í ár var sérstök áhersla lögð á líf í vatni.

Frekari upplýsingar um MEMA nýsköpunarhraðalinn og undirbúning fyrir MEMA 2024 má finna á heimasíðu verkefnisins; www.mema.is.