Fréttir

Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna

11.4.2023

Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna, KHF, var haldin í 9. skiptið helgina 25. -26. mars í Bíó Paradís. Alls voru sýndar 28 myndir á hátíðinni frá skólum út um allt land, m.a. frá FÁ, MH, Verzló, Borgarholtsskóla, Tækniskólanum, Menntaskólanum að Laugarvatni og Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

Að þessu sinni samanstóð dómnefnd hátíðarinnar af Christof Wehmeier, kynningarstjóra Kvikmyndamiðtöðvar Íslands, Marzibil Snæfríðar Sæmundsdóttir kvikmyndagerðarkonu og Dóru Jóhannsdóttur leikkonu og leikstjóra. Heiðursgestirnir í ár voru leikstjórarnir Guðný Halldórsdóttir og Olaf de Fleur.

Verðlaunin í ár voru ekki af verri endanum. Sem fyrr fékk handhafi bestu myndarinnar viku námskeið hjá NYFA – New York Film Academy, auk sérstakra ráðgjafaverðlauna frá Kvikmyndamiðstöð Íslands. Einnig má nefna að handhafar verðlaunanna fyrir myndatöku og tæknilega útfærslu fengu 100.000 kr. inneign í leigu á kvikmyndaupptökbúnaði frá KUKL.

Sérstakt Galakvöld hátíðarinnar var svo haldið á sunnudagskvöldið 26. mars þar sem verðlaunin voru tilkynnt og afhent og nýstofnuð hljómsveit sem samanstöð af nokkrum nemendum FÁ tryllti lýðinn. Kynnir á kvöldinu var Bjarki Þór Ingimarsson, leikari og fyrrum nemandi FÁ og einn af stofnendum hátíðarinnar.

Hátíðin er skipulögð af nemendum í FÁ sem eru í áfanganum „Viðburðarstjórnun - Framkvæmd kvikmyndahátíðar“. Kennari er Atli Sigurjónsson og nemendurnir eru Róbert, Óli, Rafael, Svanur, Kolbeinn og Kristófer. Fyrrum kennari FÁ og stofnandi hátíðarinnar, Þór Elís Pálsson, veitti einnig smá ráðgjöf og hjálp og miðlaði af reynslu sinni. Undirbúningur fyrir hátíðina hófst strax um haustið 2022 og var m.a. lagt í metnaðarfulla auglýsingu til að trekkja að þátttakendur í hátíðina. Hér má sjá auglýsinguna.

Hér eru svo helstu úrslitin á hátíðinni:

Besta stuttmyndin - Villimey eftir Diljá Jökulrós.

Besta handrit - Villimey, handrit eftir Diljá Jökulrós.

Besti leikur - Anja Sæberg og Katla Heimisdóttir fyrir Villimey.

Besta myndataka - Kári Snær Halldórsson fyrir Það heyrast engin öskur í kafi.

Besta tæknilega útfærslan -  Kári Snær Halldórsson og Einar Örn Michaelsson fyrir Það heyrast engin öskur í kafi.

Besta tónlistin, Hildarverðlaun - Emil Andri Emilisson fyrir Villimey.

Sérstök verðlaun fyrir heimildarmynd - Bakvið bæinn eftir Orra Guðmundsson.

Áhorfendaverðlaun fyrir laugardaginn 25. Mars - Jónus eftir Kolbein Hrafn Hjartarson.

Áhorfendaverðlaun fyrir sunnudaginn 26. Mars - Draconian Cloudsters eftir Patrek Thor.