Fréttir

Margs vísari um fangelsismál hérlendis

15.5.2024

Margs vísari um fangelsismál hérlendis.

„Þetta dýpkar þekkingu mína og viðhorf til fangelsismála,“ sagði einn nemenda við viðskipta- og hagfræðibraut við Fjölbrautaskólann við Ármúla í tengslum við heimsókn nemenda í lögfræðiáfanga í fangelsið á Hólmsheiði. En í lok vorannarinnar var nemendum í áfanganum boðið, ásamt kennara áfangans, Ragnhildi B. Guðjónsdóttur, í vettvangsheimsókn í fangelsið þar sem nemendurnir urðu margs vísari um fangelsismál hérlendis.

Böðvar Einarsson, staðgengill forstöðumanns, tók einkar vel á móti hópnum og kynnti fyrir þeim starfsemi fangelsisins, sem er gæsluvarðhalds- og móttökufangelsi, með deild fyrir kvenfanga og aðstöðu fyrir afplánun styttri fangelsisrefsinga og vararefsinga.

Fyrsta fangelsið á Íslandi sem byggt er sem fangelsi

Böðvar upplýsti nemendur m.a. um að fangelsið á Hólmsheiði sé fyrsta og eina fangelsið sem byggt er og hannað sem fangelsi á Íslandi en Litla-Hraun var byggt sem heilbrigðisstofnun í upphafi.

Gerður var góður rómur af heimsókninni en nemendum fannst fróðlegt og áhugavert að fá að kynnast starfsemi fangelsisins og skoða aðstöðuna með beinum hætti.

Aðstaða til fyrirmyndar

Fangelsið á Hólmsheiði var opnað 10. Júní árið 2016, en þar er hægt að vista 56 fanga á fjórum sérdeildum. Öll aðstaða fyrir fanga í fangelsinu er til fyrirmyndar, svo sem tómstundaaðstaða, líkamsræktaraðstaða og aðstaða fyrir vinnu og nám að sögn Böðvars. Garðar umhverfis fangelsið fyrir útivist eru stórir og góðir. Verkefni í fangavinnu eru fjölbreytt og margvísleg og má þar meðal annars nefna hugmyndavinnu, hönnun og framleiðslu fyrir fyrirtækið Fangaverk.

Fangaverk er netverslun fyrir vörur sem framleiddar eru af föngum í fangelsum landsins. Vinnustaðir sem framleiða vörur eru hugsaðir sem hluti af grunnstarfi fangelsanna til þess að útvega vistmönnum störf á meðan fangavist stendur. Hægt er að kynna sér og versla vörur á fangaverk.is

Fréttina ritar RBG