Fréttir

Næsta vika

25.9.2020

Ágætu nemendur og forráðamenn.


Eins og ykkur er kunnugt hefur fjarkennsla verið við lýði þessa viku. Samkvæmt upplýsingum sem ég fæ hjá kennurum hefur hún alla jafna tekist vel; nemendur áhugasamir og virkir. Staðkennsla er þó það sem við stefnum að, en vegna óvissuástands vegna Covid-19 ætlum við að fara varlega í að fá nemendur inn í skólann.


Þó eru ákveðnir hópar nemenda sem við viljum fá inn í skólann sem fyrst. Nk. mánudag munu t.d. nemendur á sérnámsbraut koma í skólann samkvæmt stundaskrá, en þeir eru í sér rými í skólanum. Aðrir nemendur stunda áfram fjarnám samkvæmt stundatöflu.


Kennsla í skólanum í næstu viku lýtur afar ströngum skilyrðum. Allir nemendur og kennarar bera grímu; bæði í kennslustofum og almennum rýmum. Auk þess verður 1 metra reglan viðhöfð í öllum skólanum. Þá höldum við áfram að sótthreinsa skólaborð í upphafi hvers kennslutíma. Enginn afsláttur verður gefinn vegna þessara ráðstafana og ég treysti því að farið verði eftir þeim í einu og öllu.


Eftir sem áður á enginn að koma í skólann sem finnur fyrir minnstu einkennum Covid-19.
Ákvörðun um nánara fyrirkomulag verður kynnt í síðasta lagi á hádegi nk. mánudag og verður tilkynning um slíkt sett á heimasíðu skólans.


Kveðja.


Magnús Ingvason

Skólameistari FÁ