Fréttir

#MeeToo myndbönd frumsýnd í FÁ

21.3.2024

Í dag fengum við heimsókn frá Ásmundi Einari Daðasyni mennta- og barnamálaráðherra. Tilefnið var frumsýning á nýjum myndböndum; #MeToo bylting framhaldsskólanna –Samþykki, mörk og náin samskipti. Myndböndin eru liður í forvarnar- og fræðsluátaki Mennta- og barnamálaráðuneytisins vegna umræðu um kynferðisofbeldi og viðbragðsáætlanir framhaldsskólanna.

Það var fullur salur af nemendum þegar Magnús Ingvason skólameistari bauð Ásmund Einar velkominn í FÁ. Ásmundur Einar sagði svo frá verkefninu sem varð til í kjölfarið á því að fjöldi framhaldsskólanemar gengu út úr tímum í október 2022 til að sýna þolendum kynferðisafbrota stuðning og að mótmæla aðgerðarleysi stjórnvalda í þessum málaflokki.

Myndböndin eru fjögur talsins og taka fyrir byltingarnar í framhaldsskólum og kynferðisofbeldi, klám og kynlíf, mörk og samþykki og margvíslegar samfélagskröfur sem geta haft áhrif á ungt fólk. Tilgangur myndbandanna er að kveikja gagnrýnin samtöl meðal framhaldsskólanemenda á Íslandi. Ráðuneytið samdi við Sólborgu Guðbrandsdóttur og Þorstein V. Einarssson ásamt RÚV um gerð þess.

Eftir að þessi flottu myndbönd voru sýnd afhenti Ásmundur Einar, Magnúsi skólameistara EKKO - leiðarvísi sem hefur verið í vinnslu innan ráðuneytisins með fjölmörgum hagsmunaaðilum og er ætlaður skólunum til stuðnings þegar upp koma EKKO mál (einelti, kynbundin áreitni, kynferðisleg áreitni, ofbelti).

Á myndinni sjáum við Ásmund Einar ásamt Magnúsi skólameistara, Kristrúnu aðstoðarskólameistara og þeim Emblu og Öldu sem eru fulltrúar SÍF - sambandi íslenskra framhaldsskólanema.