Fréttir

19.10.2018 : Fjórir dagar án FÁ

Í dag, hófst vetrarfrí og þögnin leggst yfir kennslustofur og ganga skólans og engin leiftur frá farsímaskjám munu lýsa upp skólahúsið næstu daga. Kyrrðin í skólanum mun vara fram á þriðjudag 23.október en þá hefst skóli á ný og vonandi koma allir aftur hressir í bragði. Það má einnig minna á það að á þriðjudaginn verður Dagur myndlistar í hávegum hafður og í tilefni hans boðið upp á fyrirlestur á vegum myndlistarmannsins Freyju Eilífar í salnum frá klukkan 11:40.

Lesa meira

15.10.2018 : Kennslumatið opið til 18.okt

Kennslumat annarinnar fer fram í INNU eins og áður og nemendur geta nálgast könnunina undir liðnum KANNANIR ofarlega á síðunni. Kennslumatið er opið til og með 18. október og því fer hver að verða seinastur að skila inn áliti sínu á kennslustörfum í FÁ. Það er mikilvægt að sem flestir taki þátt svo að hægt sé að byggja á könnuninni. Semsagt, klára dæmið fyrir haustfrí.

Lesa meira

8.10.2018 : Hundrað ár frá spænsku veikinni

Það er vel þess virði að minnast þess að nú er liðin öld frá því að spænska veikin gerði usla á Íslandi og olli miklu manntjóni. Við skulum vona að sú arma pest láti ekki aftur á sér kræla. En inflúensa herjar samt árvisst hér á landi og margir veikjast af hennar völdum og suma getur hún lagt af velli ef þeir eru veikir fyrir. Sem betur fer er fólk ekki eins varnarlaust og fyrir einni öld og hér í FÁ var starfsfólki boðið að láta sprauta sig gegn þeirri vá sem inflúensan er. Lifi læknavísindin!

Lesa meira

4.10.2018 : Af því að það er þarna...

Menn ganga á fjöll af því að þau eru þarna. Og hvað jafnast á við það að sitja á háum tindi og horfa yfir landið?
Núna á laugardaginn, 6. okt. ætla nemendur í útivistaráfanganum að vísu ekki að klífa Hraundranga heldur Helgafell við Kaldársel. Það verður að duga í bili. Lagt verður upp frá FÁ á klukkan 9:00 á laugardaginn og kostar eitt þúsund krónur fyrir þá sem skrá sig fyrir hádegi á föstudag.

Lesa meira

1.10.2018 : Fall er ei alltaf fararheill

Á morgun, 2. október kl.13 verður sérstök skólasýning fyrir nemendur FÁ á kvikmyndinni „Lof mér að falla“ í tilefni væntanlegs forvarnardags framhaldsskólanna. Einn af aðstandendum kvikmyndarinnar mætir og ræðir við nemendur um inntak og boðskap hennar en forvarnargildi myndarinnar mun vera ótvírætt. Nemendur sem vilja sjá myndina fá leyfi eftir hádegi 2. október en verða að skrá sig á skrifstofunni. Sýningin verður á tilboðsverðinu 1500 kr. (greitt í miðasölu Smárabíós við mætingu). Allir í bíó!

Lesa meira

25.9.2018 : Hollendingar í heimsókn

Í gær voru hér góðir gestir frá hollenska skólanum ROC de Leijgraff til að kynna sér hvernig íslenska er kennd hér sem annað móðurmál. Í dag ætti að vera hægt að rekast á þau í skólanum því þau ætla að kynna sér hópinn hennar Ásdísar Magneu Þórðardóttur í ÍSTA1AG05. Hollendingarnir sem hér eru í fylgd Guðrúnar Narfadóttur og Kristen Mary heita (f.v. t.h.): Jet van Os, Liesbeth Chatrou og Francie Plitscher en fremstur krýpur Rob van der Horst.

Lesa meira

20.9.2018 : Samgöngurnar blómstra í FÁ

FÁ er blómlegur skóli en getur samt alltaf á sig blómum bætt. Í dag hlaut FÁ, ásamt tveimur öðrum fyrirtækjum, Samgönguviðurkenningu Reykjavíkur árið 2018. Við viðurkenningunni tóku Magnús Ingvason skólameistari ásamt þeim Tinnu Eiríksdóttur,og Jóhönnu Þ. Sturlaugsdóttur sem eru í umhverfisráði skólans. (sjá meira).

Lesa meira

16.9.2018 : Dagur náttúrunnar

16. september er sérstakur dagur íslenskrar náttúru en auðvitað eru allir dagar ársins dagar náttúrunnar. Það er hefð fyrir því að halda daginn hátíðlegan hér í skólanum. Nemendur í umhverfisráði eru trúir þeirri hefð og hafa boðið Eyþóri Eðvarðssyni, fulltrúa samtakanna París 1,5, að heimsækja okkur mánudaginn 17. september. París 1,5 eru samtök sem berjast fyrir því að Ísland leggi sitt af mörkum til að stöðva hlýnun jarðar við 1,5°C. Eyþór mun halda fyrirlestur um mikilvægi umhverfisverndar og baráttuna við loftslagsbreytingar.  Umhverfisráð hvetur alla til þess að koma og hlusta á fræðandi og áhugaverðan fyrirlestur um loftslagmál. Fyrirlesturinn hefst klukkan 11:35

Lesa meira

14.9.2018 : Reykjavík 2018 - evrópska ungmennaþingið

Evrópska ungmennaþingið eða European Youth Parliament eru samtök sem hafa það að markmiði að fræða ungmenni á efri skólastigum um málefni sem snerta Evrópubúa. Miðað er við ungt fólk á framhaldsskóla- og háskólaaldri. Nú er loks búið að stofna samtökin hérlendis og fyrsta ráðstefnan á Íslandi verður haldin í Reykjavík dagana 20.-22. september. Um 100 manns verða viðriðnir ráðstefnuna, bæði innlendir nýliðar og erlendir reynsluboltar.(Smellið hér fyrir frekari upplýsingar)

Lesa meira

13.9.2018 : Plastlaus september

Eins og flestir vita er plastið að kæfa allt líf í sjónum og þekur standirnar og árfarvegi, plast er til marga hluta nytsamlegt en plast á röngum stað er skaðvænlegt. Nú erum við hálfnuð með plastlausan september og þótt hver og einn geti kannski ekki lagt mikið af mörkum má ekki gleyma að margt smátt gerir eitt stórt eins og Jónas Hallgrímsson sagði: 

Bera bý
bagga skoplítinn
hvert að húsi heim;
en þaðan koma ljós
hin logaskæru
á altari hins göfgva guðs.

Plokkum plast! Plokkum á leið í skólann, plokkum á leið heim! Svo má minna á að á sunnudaginn 16. september er Dagur náttúrunnar. Upp á þann dag verður haldið á mánudaginn kemur.

Lesa meira

7.9.2018 : Bókasafnsdagurinn er í dag.

Bókasafnsdagurinn er haldinn í dag og í ár er hann tileinkaður vísindum. Kjörorð dagsins er "Lestur er bestur" – fyrir vísindin!
Blindur er bóklaus maður en vonandi ratar hann samt á bókasafn FÁ þar sem hann getur öðlast víða sýn á lífið og tilveruna.Í tilefni dagsins hefur vísindabókum af ýmsum toga verið stillt upp á safninu. Vonandi verða þeir ekki lengi á hillunum. 

Hér er listi yfir það nýjasta á safninu:

5.9.2018 : Nýnemaball - 6. september

Á morgun, fimmtudaginn 6. september heldur Nemendafélag FÁ, í samstarfi við Nemendafélög Tækniskólans, Borgarholtsskóla, FMOS og Menntaskóla Borgarfjarðar, skólaball í Reiðhöllinni í Víðidal. Dansinn hefst kl. 22:00 og gestum hleypt inn til kl. 23:00 en þá verður húsinu lokað. Seinasti tónninn verður sleginn klukkan kl. 01:00 og þá kæmi sér vel að foreldrar og forráðamenn gætu komið og sótt börnin sín. Miða á ballið er hægt að nálgast í gegnum miðasöluvef hérna.  Þeir nemendur sem sækja ballið fá leyfi frá kennslu í fyrstu kennslustund að morgni föstudagsins 7. september. Aðrir nemendur mæta í kennslu samkvæmt stundatöflu.Allar skemmtanir á vegum skólans eru áfengis- og vímuefnalausar. Allt tóbak verður gert upptækt, rafrettur geymdar en vökvinn í þær gerður upptækur. Verði nemendur undir 18 ára aldri uppvísir að drykkju verður hringt í foreldra og þeir beðnir að sækja börnin sín. Eldri nemendum, sem verða uppvísir að drykkju, verður hins vegar vísað á dyr. Langoftast eru nemendur þó til algerrar fyrirmyndar á skólaböllunum. 

Lesa meira

31.8.2018 : Fjarnám - skráning stendur yfir

Skráningu í fjarnám við FÁ stendur fram til þriðja september en sjálf önnin hefst þann tíuna.Fjarnám er góður kostur fyrir þá sem ekki eiga auðveldlega heimangengt á daginn en geta notað kyrrð og ró heimilisins til þess að lesa og læra, hvort sem þeir halda heimili á jörðinni eða tunglinu. Eins og áður eru fjölmargir áfangar í boði. Kannið möguleikana hér síðunnni og smellið á FJARNÁM -tengilinn hér að ofan.

Lesa meira

28.8.2018 : Nýnemadagur - matur alfreskó

Í dag, 29. ágúst, er höfuðdagur. Þann dag á Heródes konungur að hafa látið eftir konu sinni að Jóhannes skírari skyldi hálshöggvinn. Sú þjóðtrú hefur lifað lengi að veður breytist á höfuðdag og haldist þannig næstu þrjár vikur. Í dag er jafnframt NÝNEMADAGUR sem stendur okkur nær. Í öðrum tíma verða nemendur sóttir í kennslustund og þeir boðnir velkomnir í skólann, allt verður á glöðu nótunum, enginn magadans samt og enginn mun láta höfuðið heldur ætlar Nemendaráð að bjóða upp á hádegismat í góða veðrinu og að honum loknum mega nýnemar halda heim og bera vonandi höfuðið hátt.

Lesa meira

21.8.2018 : Lestin brunar

Nú er skólastarfið að komast á fullt skrið eins og járnbrautarlest sem bifast hægt af stað frá brautarpalli 3 1/4 en bráðum verður hraðinn svo mikill að ekki er hægt að greina landslagið út um gluggann. Þeir sem vilja sjá hvernig landslagið lítur út fyrir utan lestargluggann gerðu vel í að drífa sig í áfangana ÍÞRÓ1FJO1 sem er fjallganga og útivist eða í ÍÞRÓ1HJO1 - hjólað í skólann...ekkert er betra en holl og góð hreyfing og ferskt útiloft.

Lesa meira

15.8.2018 : Nýtt skólaár - velkomin í FÁ

Á morgun, fimmtudaginn, 16. ágúst, klukkan 13 er fundur með nýnemum sem eru að koma beint úr grunnskóla.

Fundur með eldri nemendum sem eru að hefja nám við skólann verður sama dag klukkan 14.

Töflubreytingar fara fram frá kl. 13-16 á morgun fimmtudag og frá kl. 9-14 á föstudag. Einnig er hægt að senda póst á netfangið toflubreytingar@fa.is.

Lesa meira

31.7.2018 : Magnús Ingvason - nýr skólameistari FÁ

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur skipað Magnús Ingvason í embætti skólameistara FÁ til næstu fimm ára.
Skólameistarinn hefur 26 ára kennslu- og stjórnunarreynslu á framhaldsskólastigi við Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Síðastliðin fimm ár gegndi starfi aðstoðarskólameistara við FB. Einnig hefur hann sinnt starfi skólastjóra sumarskóla FB og starfi kennslustjóra við sama skóla. Magnús hefur líka kennt á grunnskólastigi.
Magnús lauk BA-prófi í fjölmiðlun frá Northern Illinois University í Bandaríkjunum (1989), UF-prófi í kennsluréttindum frá Kennaraháskóla Íslands (1997) og meistaranámi í stjórnsýslufræðum frá Háskóla Íslands (2008). 
Kennarar og starfsfólk FÁ bjóða nýjan skólameistara velkominn til starfa og óska honum velfarnaðar í starfi.

Lesa meira

26.5.2018 : Fallegur dagur - útskrift vor 2018

Það var hátíðlegt og gleðilegt í senn þegar útskriftarnemendur kvöddu skólann sinn í gær. Nú standa þeir á tímamótum og hvað framtíðin ber í skauti sér veit nú enginn en það er þeirra að skapa sér sína eigin framtíð og það er vísast að hún verði farsæl. Þó nokkrir nemendur fengu viðurkenningu fyrir góðan árangur í hinum ýmsu greinum. Sjá nánar hér:

Lesa meira

24.5.2018 : Útskrift, föstudaginn 25. maí kl. 14:00

Í dag, föstudaginn 25. maí klukkan 14:00 útskrifast rúmlega hundrað nemendur frá FÁ. Smellið hér til þess að sjá dagskrána.

 

Lesa meira

23.5.2018 : Prófasýning í dag kl. 11:30-13

Í dag frá 11:30-13 er hægt að koma í skólann til að skoða prófin sín. Það er vel til fundið að sjá hvað fór vel og hvað fór úrskeiðis, þannig má alltént eitthvað læra af prófunum. Jafnframt prófasýningunni er unnt að ganga frá vali fyrir haustönnina.

Síða 2 af 5