Fréttir

20.11.2019 : Rokkað í hádeginu

Skólameistari, nemandi og kennarar af ýmsum toga hentu saman í skólahljómsveitina "Úff!" og skemmtu okkur hinum í hádegishléinu.
Það vantar aldrei rokkið í FÁ!

Lesa meira

18.11.2019 : Rætt um fantasíubókmenntir

Í tilefni Dags íslenskrar tungu um helgina kom til okkar í dag rithöfundurinn Alexander Dan og ræddi fantasíubókmenntir, sem eru vinsælar hjá stórum hópi ungra lesenda. Þar sem bækur hans hafa verið gefnar út á bæði íslensku og ensku varð úr áhugaverð umræða um þróun tungumálsins og hvort bóklestur á ensku ógni framtíð íslenskunnar.

Lesa meira

13.11.2019 : Opið fyrir umsóknir á vorönn

Nú er opið fyrir umsóknir í skólann á vorönn.

VIð hvetjum umsækjendur til að kynna sér vel inntökuskilyrði og dagsetningar umsóknartímabila á vef Menntagáttar.

https://www.fa.is/sk…/inntaka-i-skolann/umsokn-um-skolavist/

Lesa meira

4.11.2019 : Tónsmiðjan með hádegistónleika

Tónlistarstýra skólans, Lilja Dögg Gunnarsdóttir, kennir nú í fyrsta sinn tónsmiðju sem áfanga. Þar situr ungt og efnilegt tónlistarfólk, kynnir sér tónlistarsöguna og æfir söng og hljóðfæraleik. Þessi flotti hópur frumflutti fyrir samnemendur sína á frábærum hádegistónleikum í síðustu viku - vel valin lög frá tímabilinu 1950-70 Við bíðum spennt eftir næstu tónleikum!

Lesa meira

3.11.2019 : Jafnréttisfræðsla vikunnar

Hinseginfélag og femínistafélag skólans buðu upp á hádegisfyrirlestra í tilefni kynjajafnréttisvikunnar. Þar fengu nemendur áhugaverða fræðslu um t.d. samskipti og staðalímyndir kynjanna, mörk og virðingu, sjálfsmynd unglinga og málefni trans fólks.  

Lesa meira

1.11.2019 : Kynjajafnréttisvika FÁ 2019

Femínistafélag og Hinseginfélag FÁ taka sig saman og bjóða samnemendum, foreldrum og starfsfólki upp á fræðsluhádegi í næstu viku. 

Mánudaginn 4. nóvember mæta þau Andrea Marel og Kári Sigurðsson sem fyrirlesturinn "Fokk me-Fokk you". Hann snýst um sjálfsmynd, samfélagsmiðla og samskipti kynjanna. Á þriðjudag koma svo Sólborg Guðbrandsdóttir og Þorsteinn Einarsson með fyrirlesturinn "Karlmennskan og Fávitar" sem fjallar um mörk, samskipti og karlmennskuímyndir. Loks mætir fræðslustýra Samtakanna ´78, Sólveig Rós, og talar um hvað er að vera trans.

Öll velkomin!

Lesa meira

1.11.2019 : Hrekkjavökuteiti

Nemendaráð FÁ fagnaði allraheilagsmessu með pylsu- og nammiveislu, hryllingshúsi, spákonu, töframanni, búningasamkeppni og tónlist. 

Lesa meira

24.10.2019 : 4 daga haustfrí!

Í dag hefst haustfrí skólans en lokað verður bæði á morgun og mánudaginn. Kennsla hefst aftur þriðjudaginn 29. október - sjáumst þá úthvíld og hress! 

Lesa meira

23.10.2019 : Ferðalag Alþjóðaráðs

Það var mikið stuð í dagsferð Alþjóðaráðs FÁ á dögunum en ráðið og viðburðir á vegum þess eru fyrir alla nemendur með áhuga á fjölmenningu og ferðalögum um íslenska náttúru. Upplagt að kíkja með í næsta ferðalag og eignast vini af alls kyns uppruna.

Lesa meira

23.10.2019 : Andri Snær í heimsókn

Nemendur FÁ láta sig aldrei vanta á fyrirlestra um umhverfismál, en mæting fór langt umfram sætaframboð þegar rithöfundurinn og náttúruverndarsinninn Andri Snær Magnason heimsótti skólann í dag. Framtíðin verður björt með þessi meðvituðu ungmenni í fararbroddi.

 

Lesa meira

16.10.2019 : Áfangaval fyrir vorönn 2020

Val fyrir næstu önn hefur nú opnast nemendum og er opið út 4. nóvember. Best er að ljúka valinu sem fyrst en hér má finna leiðbeiningar: https://www.fa.is/namid/val/

Umsjónarkennarar og námsráðgjafar eru til aðstoðar ef einhverjar spurningar vakna í sambandi við valið.

Lesa meira

30.9.2019 : Stjörnu-Sævar í heimsókn

Umsjónamaður sjónvarpsþáttanna “Hvað höfum við gert?”, Sævar Helgi Bragason (Stjörnu-Sævar), hélt fyrirlestur um umhverfismál í FÁ í dag. Nemendur létu sig ekki vanta heldur fylltu salinn.

Lesa meira

27.9.2019 : Forvarnavika í FÁ

Liðin vika var helguð fjölbreyttum forvörnum í FÁ - enda margir ólíkir þættir sem koma að heilbrigðu lífi framhaldsskólanema.

Við fengum til okkar frábæra fyrirlesara sem fjölluðu um misnotkun á vímuefnum, of lítinn svefn Íslendinga, forvarnir gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða, og tengsl sjálfsmyndar og kynheilsu. 

Þá stóð alla vikuna uppi bás þar sem meðlimir nemendaráðs tóku að sér sölu á varningi til styrktar nokkrum forvarnaverkefnum. Salan gekk vonum framar og nemendaráðið hlakkar til að afhenda Stígamótum, "Á allra vörum" og "Eitt líf" ágóða upp á 81.000 kr. 

Lesa meira

18.9.2019 : Dagur íslenskrar náttúru

Mánudagurinn 16. september var helgaður íslenskri náttúru og fagnaði Umhverfisráð FÁ þeim degi með nemendum og starfsfólki. Fólk var hvatt til að mæta í grænum fötum þann dag og skilja einkabílinn eftir heima. Þá komu Eyþór Eðvaldsson, stjórnarformaður Votlendissjóðsins, og Einar Bárðason, framkvæmdastjóri hans, í heimsókn í skólann. Eyþór hélt fyrirlestur um endurheimt votlendis og var dúndurmæting á erindið. Loks afhentu nemendur í Umhverfisráðinu sjóðnum peningagjöf en hluta hennar söfnuðu nemendur sjálfir með því að halda fatamarkað á Umhverfisdögum síðasta vor.

Við hvetjum áhugasama til að kynna sér Votlendissjóðinn og störf hans á https://votlendi.is/

Lesa meira

30.8.2019 : Nýnemadagurinn 2019

Okkar yngstu og nýjustu nemendur voru formlega boðnir velkomnir í skólann í dag. Svarta liðið bar sigur úr býtum í þrautakeppni á milli nýnemabekkja og vann sér inn bikar og bíómiða. Pylsur voru grillaðar í dásamlega veðrinu, undir tónum Bjarna töframanns, og nýnemar svo loks ferjaðir út í Viðey í leiki, pizzu og köku.

Lesa meira

27.8.2019 : Fjarnám - skráning í gangi...

Nú er skráning í fjarnám við FÁ á fullu skriði og stendur fram til 3. september. Fjarnám er góður kostur fyrir þá sem ekki eiga auðveldlega heimangengt á daginn en geta notað kyrrð og ró heimilisins til þess að lesa og læra, hvort sem þeir halda heimili á jörðinni eða tunglinu. Vegurinn þekkingarinnar liggur úr myrkviðum til ljóssins. Allt að 80 áfangar í boði. Kannið möguleikana hér á síðunni og smellið á FJARNÁM -tengilinn hér að ofan.

Lesa meira

22.8.2019 : Siglt út á þekkingarhafið

Nú er skólinn að komast í gang, hægt og sígandi en af krafti eins og gamall togari sem leysir landfestar og siglir út á opið haf og kastar þar út netum. Hver aflinn verður kemur seinna í ljós en vonandi verður trollið fullt. Um borð í togaranum eru 935 nemendur munstraðir í dagskólanum, þar af 123 nýnemar.

Á mánudaginn, 26. ágúst verður fundur með foreldrum nýnema en á föstudaginn kemur, þann 30. ágúst verður haldið upp í nýnemaferð jafnframt sem nemendum og starfsfólki verður boðið upp á grillaðar pylsur.

Lesa meira

9.8.2019 : Haustönnin hefst þann 15. ágúst

Haustönnin hefst þann 15. ágúst en þá opnast stundatöflurnar í INNU. Til að komast inn í INNU þarf annað hvort rafræn skilríki eða Íslykil. Nánari upplýsingar um hvernig hægt er að nálgast rafræn skilríki er á https://www.audkenni.is/ og allt um Íslykil er hér https://innskraning.island.is/order.aspx.

Töflubreytingar verða fimmtudag 15. ágúst kl. 13:00 – 16:00 og föstudag 16. ágúst kl. 10:00 – 15:00. Einnig er hægt að senda beiðni um töflubreytingu á netfangið toflubreytingar@fa.is

Þann 14. ágúst eru á dagskrá fundir nýnema og foreldra þeirra með umsjónarkennurum. Nánari tímasetningar þessara funda eru í bréfi sem foreldrar/forráðamenn nýnema hafa fengið frá skólameistara.

Starfsfólk FÁ hlakkar til haustannar og býður alla nýja og gamla nemendur velkomna til starfa.

Lesa meira

18.6.2019 : Blómatími - sumarlokun frá 24.júní - 7. ágúst

Nú er rólegt og friðsælt í Ármúlaskóla enda flestir úti að anga að sér blómailmi sumarsins. En þrátt fyrir sólartíð er skrifstofan ennþá opin en hún verður LOKUÐ vegna sumarleyfa frá 24.júní til og með 6.ágúst. Skrifstofan verður opnuð aftur miðvikudaginn 7.ágúst kl. 8.00

Lesa meira

24.5.2019 : Gleðilegt sumar! Útskrift vorið 2019

Það var gleðileg athöfn í FÁ þegar 118 nemendur fengu skírteinin sín í hendur og ekki spilli góða veðrið fyrir. Góður rómur var gerður að ræðu 25 ára stúdentsins hennar Söru Daggar Svanhildardóttur og athöfninni var slitið með því að allir, starfsmenn, stúdentar og gestir og gangandi hófu upp raust sína og sungu Sumarkveðju eftir Inga T. Lárusson.

Í útskriftarræðu sinni hvatti Magnús Ingvason, skólameistari Fá nemendur til að einblína á styrkleika sína og vinna í veikleikunum. Ennfremur hvatti hann nemendur til að lifa lífi sem veitti þeim vellíðan og gleði, en ekki lífi sem bara lítur vel út. Lífið þyrfti ekki að vera fullkomið til að vera gott. Loks minnti hann nemendur á að lífinu fylgdi engin fjarstýring - maður þyrfti sjálfur að standa upp og gera hlutina.

Dúx skólans er Ástrós Ögn Ágústsdóttir sem útskrifast af Náttúrufræðibraut með 9,1 í meðaleinkunn.

Á facebook-síðu FÁ má sjá nokkrar myndir frá minnisverðri útskriftinni

Lesa meira
Síða 1 af 5