Fréttir

10.5.2022 : Annarlok - mikilvægar dagsetningar

Senn líður að annarlokum og viljum við því minna ykkur á nokkur mikilvæg atriði.

17.maí - Síðasti kennsludagur en nánari upplýsingar um skipulag hvers áfanga má finna á Innu.

20.maí – Einkunnir birtast í Innu. Viðtöl vegna námsmats kl. 12:00 – 13:00.

23.maí– Upptökupróf fyrir útskriftarefni kl. 9:00.

24.maí - Æfing fyrir útskrift kl. 16:00

25.maí – Útskrift í hátíðarsal skólans kl. 13:00.

Nám á næstu önn - Allir nemendur sem halda áfram námi á næstu önn eiga að vera búnir að velja. Greiðsluseðlar verða sendir út eftir útskrift.

Gangi ykkur sem allra best á lokasprettinum.

Lesa meira

9.5.2022 : Hönnun lóðar kynnt

 

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri kíkti í heimsókn í skólann á miðvikudaginn síðasta. Markmið heimsóknarinnar var að kynna fyrir honum hugmyndir nemenda í áfanganum Hönnun lóðar FÁ.

Fjölbrautaskólinn við Ármúla stendur á stórri og fallegri lóð sem býður upp á mikla möguleika. Því var ákveðið að bjóða upp á valáfanga á vorönn þar sem nemendur myndu hanna tillögu að skipulagi lóðarinnar. Markmiðið er síðan að hagnýta útkomu áfangans við endurbætur á skólalóðinni.

Margar skemmtilegar hugmyndir komu fram og eru þær til sýnis á Steypunni í FÁ.

Fleiri myndir má sjá á Facebook síðu skólans.

 

Lesa meira

27.4.2022 : FÁ í úrslit í Fyrirtækjasmiðju

 

Lið úr FÁ, Strokkur er komið í úrslit í Fyrirtækjasmiðju ungra frumkvöðla - JA Iceland. Það verður í hópi 35 fyrirtækja sem munu kynna vörur sínar fyrir dómarateymi næsta fimmtudag og flytja kynningu á vörum sínum í Arionbanka á föstudag. Alls voru 124 fyrirtæki skráð til leiks.

Strokkur er app veitir meiri fræðslu um íslensk fyrirtæki á Nasdaq og Firstnorth hlutabréfamarkaði. Nemendur í verkefninu eru Björn Ingi Björnsson, Finnur Björnsson, Birkir Hrafn Björnsson, Andri Snær Helgason og Tryggvi Klemens Tryggvason

Innilegar hamingjuóskir kæru frumkvöðlar og gangi ykkur vel í úrslitakeppninni.

 

Lesa meira

26.4.2022 : Áskorunardagar NFFÁ

 25.apríl til 8.maí mun nemendafélag FÁ (NFFÁ) halda áskorunardaga til styrktar Unicef – Börn í Yemen.

Ýmsar skemmtilegar áskoranir munu fara fram þegar tiltekinni upphæð hefur verið safnað. Þess má geta að NFFÁ mun tvöfalda þá upphæð og fer því hærri upphæð beint til Unicef.

Ýmsar áskoranir verða í gangi m.a. mun meðlimur NFFÁ fá sér tattoo, Magnús skólameistari klæðir sig upp í drag, námsráðgjafarnir verða með froskalappir og sundhettu heilan dag, Hilmar vaxar á sér fæturnar, Tinna kennari litar á sér hári ofl. ofl.

 Fylgjast má með framkvæmdinni á þessum áskorunum á instagram reikningi NFFÁ: https://instagram.com/nffa_draugarnir.

Til að styrkja málefnið má leggja inn á AUR: 699-4214.

Hvetjum nemendur, forráðamenn og aðra til að leggja þessu mikilvæga málefni lið.

Staða barna í Jemen er skelfileg en nú eftir sex ár af átökum og hörmungum er Jemen talinn einn versti staður á jörðinni til að vera barn. Vaxandi átök, hnignun í efnahagslífi landsins auk áhrifa kórónuveirunnar hefur gert hörmulegt ástand að einni verstu mannúðarkrísu í heiminum. Meira en 12 milljónir barna í Jemen þurfa á lífsnauðsynlegri hjálp að halda. Það er nánast hvert einasta barn í landinu !

https://www.unicef.is/neyd

Lesa meira

8.4.2022 : Ljósmyndasýning nemenda FÁ í Safnahúsinu

Ungt umhverfisfréttafólk skólans og kennari þeirra, Jeannette Castioni fengu í gær viðurkenningu fyrir stórkostlega ljósmyndasýningu í Safnahúsinu, en það var Landvernd sem stóð að viðurkenningunni. 

Ljósmyndir nemendanna þótti endurspegla þeirra sýn og viðhorf á náttúruna og umhverfið. Ljósmyndirnar eru til sýnis í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Landvernd vonast til að sýningin muni auka sýnileika á verkum ungs fólks, en þau eru mörg hver að gera frábæra hluti í umhverfismálum og verkin mjög áhrifarík.

Við hvetjum alla til þess að kíkja á þessa frábæru sýninguna á næstu dögum.

Lesa meira

7.4.2022 : Guðlaugur Þór umhverfisráðherra í heimsókn í FÁ.

Í dag fór fram vorgleði umhverfisnefndar FÁ. Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra, kom í heimsókn og spjallaði við nemendur í fyrirlestrarsal um ýmis mál er viðkoma umhverfis og orkumálum og voru nemendur FÁ duglegir að spyrja spurninga. Eftir spjallið kíkti ráðherra út og plokkaði í kringum skólalóðina ásamt nokkrum nemendum og kennurum. Í tilefni dagsins bauð umhverfisnefndin og nemendaráðið svo nemendum upp á veitingar frá Mandý, Serrano og Kore.

Við þökkum Guðlaugi Þór kærlega fyrir komuna.

Fleiri myndir má sjá á facebook síðu skólans, hér.

Lesa meira

4.4.2022 : FÁ á Vörumessu

FÁ á Vörumessu

Núna um helgina fór fram Vörumessa í Smáralindinni. Vörumessa er fyrirtækjasmiðja Ungra frumkvöðla en þetta árið kynntu 600 framhaldsskólanemendur frá 14 skólum vörur sínar og þjónustu í Smáralindinni. Þau hafa stofnað 124 fyrirtæki frá því í janúar. Nemendur úr FÁ voru með þrjú fyrirtæki á Vörumessunni.

Búbblur hyggst hanna og láta framleiða drykk sem er ætlaður til blöndunar fyrir áfenga drykki. Einar Skuggi Jónsson, Gylfi Snær Ingimundarson, Jóakim Hjálmarsson, Unnsteinn Beck og Matthías Valdimarsson

Ljómar er kerti til styrktar flóttamönnum frá Úkraínu. Gabríel Karl Halldórsson, Camilla Sóldís Harðardóttir, Heiðrún Líf Reynisdóttir, Íris Elísabet Ólafsdóttir, Mikael Máni Magnússon og Þorbjörn Helgason

Strokkur er app veitir meiri fræðslu um Íslensk fyrirtæki á Nasdaq og Firstnorth hlutabréfamarkaði. Björn Ingi Björnsson, Finnur Björnsson, Birkir Hrafn Björnsson, Andri Snær Helgason og Tryggvi Klemens Tryggvason.

Lesa meira

27.3.2022 : Opið hús í FÁ

Opið hús verður í Fjölbrautaskólanum við Ármúla þriðjudaginn 29.mars kl. 16.30 - 18.00.
Kynning verður á námsbrautum, aðstöðu og félagslífi skólans.
Áhugasamir eru hvattir til að heimsækja skólann. 10.bekkingar og forráðamenn þeirra eru sérstaklega boðnir velkomnir. 9.bekkingar eru líka velkomnir.

Lesa meira

17.3.2022 : Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna

Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna, KHF, verður haldin í áttunda sinn núna um helgina 19. og 20. mars 2022.
Hátíðin fer fram í Bíó Paradís frá kl. 13:00 - 17:00 báða dagana og er aðgangur ókeypis.  Öll umsjón og vinna við hátíðina er í höndum nemenda Fjölbrautaskólans við Ármúla.
Eitt af aðal markmiðum hátíðarinnar er að gera nemendum í framhaldsskólum landsins kleift að koma kvikmynda verkum sínum á framfæri og kynnast öðrum með sömu áhugamál.
Tækifærin sem skapast upp úr hátíðinni eru ófá og því vonumst við til þess að gera hátíðina sýnilegri og skapa henni jafnframt fastan sess í félagslífi íslenskra ungmenna.

Lesa meira

14.3.2022 : Jafnréttisdagar í FÁ

Í þessari viku fara fram Jafnréttisdagar í FÁ í þeim tilgangi að fræða og efla umræðu um jafnréttismál innan skólans og í samfélaginu. Í tilefni þeirra fara fram tvennar pallborðsumræður á sal skólans.

Á miðvikudaginn 16.mars kl. 19.00 verða pallborðsumræður í hátíðarsal skólans og er umræðuefnið kynferðisofbeldi, nauðgunarmenning og hvernig er að vera aðstandandi.

Þátttakendur verða:

-Edda Falak

-Kolbrún Birna

-Þorsteinn V

Á fimmtudaginn 17.mars kl. 19.00 verða pallborðsumræður í hátíðarsal skólans og er umræðuefnið hinseginleiki og fordómar.

Þátttakendur verða:

-Sigur Huldar Geirs

-Jafet Sigurfinnsson

-Sigtýr Ægir

Þessar pallborðsumræður verða opnar fyrir alla framhaldsskólanema !

Lesa meira

4.3.2022 : Árdagur og söngkeppni FÁ

 

Í gær var árlegur Árdagur haldinn í FÁ. Árdagar eiga sér langa sögu í FÁ en þá daga gera menn sér dagamun og brjóta upp hefðbundinn skóladag. Nemendur byrjuðu þó daginn á að mæta í tíma. Upp úr kl. 11 lögðu nemendur þó frá sér bækurnar og fylktu liði niðrí hátíðarsal en þar fór fram Söngkeppni FÁ. Jón Jónsson söngvari tók nokkur lög og hélt uppi góðri stemningu í salnum og kynnti svo 5 flotta keppendur til leiks. Öll atriðin voru alveg frábær en úrslitin urðu þau að Tamara Milenkovic lenti í þriðja sæti með lagið "Stay" með Rihanna. Þorbjörn Helgason var í öðru sæti með David Bowie slagarann "The man who sold the world" og í fyrsta sæti var hún Emma Eyþórsdóttir með frábæran flutning á laginu "My way" eftir Frank Sinatra. Greinilega mikið af hæfileikaríkum nemendum hér í FÁ.

Eftir söngkeppnina bauð skólinn upp á pizzur á Steypunni og nemendafélagið bauð upp á candy floss. Svo enduðum við þennan skemmtilega dag á að kíkja Laugarásbíó þar sem boðið var upp á 3 myndir til að horfa á. Aldeilis frábær dagur.

Fleiri myndir má sjá hér.

 

 

Lesa meira

3.3.2022 : Starfsþróunardagur föstudaginn 4.mars

Föstudaginn 4.mars er starfsþróunardagur kennara í Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Öll kennsla fellur niður þennan dag og skrifstofa skólans verður jafnframt lokuð.

Lesa meira

25.2.2022 : FÁ sigraði Lífshlaupið

Lífshlaupið er þjóðarátak í hreyfingu þar sem skólar, vinnustaðir og einstaklingar etja kappi um sem mesta hreyfingu yfir ákveðið tímabil í febrúar. FÁ vann flokkinn "framhaldsskóli með 400-999 nemendur". Vel gert FÁ !
Þær Melkorka Rut Sigurðardóttir og Anna Zhu Ragnarsdóttir tóku á móti verðlaununum fyrir hönd skólans í dag.

Lesa meira

25.2.2022 : Aflétting takmarkana

Ágætu nemendur.

Eins og flest ykkar hafið eflaust tekið eftir, þá var öllum sóttvarnareglum aflétt í nótt, aðfararnótt föstudagsins 25. febrúar. Grímuskyldu verður aflétt svo og nándarreglu sem hefur verið í gildi. Með þessu lýkur vonandi tveggja ára tímabili sem covid 19 hefur herjað á okkur.

Við skulum þó samt sem áður fara varlega næstu daga og vikur og hver og einn þarf áfram að sinna sínum persónulegu sóttvörnum. Það síðasta sem við viljum er að veiran blossi upp með þeim afleiðingum að aftur yrðu settar einhvers konar takmarkanir.

Ég vil þakka nemendum skólans og starfsmönnum fyrir að taka virkan þátt í sóttvörnum undanfarin tvö ár. Þetta hefur sannarlega ekki verið auðveldur tími, en héðan í frá getum við aftur tekið upp eðlilegt líf og vonandi verður það gott líf.

Veiran hefur haft þau áhrif að fjölmargir kennslutímar hafa fallið niður auk þess sem mjög margir nemendur hafa verið frá vegna veikinda. Ég skora á alla nemendur til að sinna náminu af fullum krafti það sem eftir er annar.

Ég vonast sem sagt eftir eðlilegu og góðu skólastarfi frá og með næstu viku og vonandi verður hægt að efla félagslíf nemenda í kjölfarið.

Kveðja.
Magnús Ingvason
Skólameistari FÁ

Lesa meira

23.2.2022 : Val fyrir haustönn 2022

 

Val fyrir haustönn 2022 stendur nú yfir og verður opið til 8.apríl. Með vali staðfestir þú umsókn þína um skólavist á næstu önn. Nánari upplýsingar hér.

 

Lesa meira

22.2.2022 : Umhverfisdagar FÁ 2022

 

Umhverfisdagar FÁ verða haldnir miðvikudaginn 23.febrúar og fimmtudaginn 24.febrúar. Við fáum skemmtilega fyrirlestra.

Á miðvikudaginn kemur Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra og verður með fyrirlestur í fyrirlestrarsal kl. 12.00 - 12.30. Svo verður kahoot með umhverfisívafi í hádeginu.

Á fimmtudaginn kemur Vigdís frá Landvernd og verður með erindið „Tökum umhverfismálin í okkar hendur“ í fyrirlestrarsal klukkan 12-12:30.

Eingöngu veganréttir verða í boði í matsal þessa daga.

Nemendur í umhverfisráði standa fyrir umhverfisfróðleik á veggjum og vonandi sitthvað fleira í pokahorninu.

 

 

Lesa meira

22.2.2022 : Árleg skautaferð

Það var líf og fjör í Skautahöllinni í gær þegar nemendur FÁ skelltu sér á skauta. Sú hefð hefur skapast í skólanum að fara á skauta einu sinni á skólaári við góðar undirtektir nemenda. Hér er hægt að sjá fleiri myndir af skautaferðinni.

Lesa meira

17.2.2022 : Flutningur á Microsoft skýjaþjónustu FÁ yfir í Menntaskýið

Föstudaginn 18. febrúar mun Fjölbrautaskólinn við Ármúla flytja Microsoft skýjaþjónustur sínar yfir í Menntaskýið.

Menntaskýið er verkefni á vegum íslenska ríkisins þar sem Microsoft hugbúnaður er sameinaður í eina miðlæga einingu.

Innleiðing á þessu verkefni hefst kl. 16:00 föstudaginn 18. febrúar og þá verður lokað á innskráningar í Microsoft skýjaþjónustu FÁ og Moodle. Innleiðingunni lýkur mánudaginn 21. febrúar.

Undir skýjaþjónustu fellur tölvupóstur, Teams, Stream o.s.frv.

Nánari upplýsingar um það sem starfsfólk og nemendur þurfa að hafa í huga er að finna hér: Upplýsingar

Lesa meira

8.2.2022 : Námsmatsdagur miðvikudaginn 9.febrúar

Miðvikudaginn 9.febrúar er námsmatsdagur í Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Skólinn verður opinn en engin formleg starfsemi verður í skólanum þennan dag. Skrifstofa skólans verður lokuð en mötuneytið verður opið.

Lesa meira

6.2.2022 : Kennsla fellur niður mánudaginn 7.febrúar

Ágætu nemendur.

Vegna vonskuveðurs sem spáð er í nótt og á morgun, þá fellur öll kennsla við Fjölbrautaskólann við Ármúla niður á morgun, mánudaginn 7. febrúar. Hvorki verður staðkennsla í skólanum né kennt á Teams. Við vonumst til að sjá alla nemendur aftur í skólanum á þriðjudag.

Hægt er að ná sambandi við skrifstofu skólans á netfanginu skrifstofa@fa.is.

Kveðja.

Magnús Ingvason

Skólameistari FÁ

Lesa meira
Síða 1 af 5