Fréttir

27.8.2019 : Fjarnám - skráning í gangi...

Nú er skráning í fjarnám við FÁ á fullu skriði og stendur fram til 3. september. Fjarnám er góður kostur fyrir þá sem ekki eiga auðveldlega heimangengt á daginn en geta notað kyrrð og ró heimilisins til þess að lesa og læra, hvort sem þeir halda heimili á jörðinni eða tunglinu. Vegurinn þekkingarinnar liggur úr myrkviðum til ljóssins. Allt að 80 áfangar í boði. Kannið möguleikana hér á síðunni og smellið á FJARNÁM -tengilinn hér að ofan.

Lesa meira

22.8.2019 : Siglt út á þekkingarhafið

Nú er skólinn að komast í gang, hægt og sígandi en af krafti eins og gamall togari sem leysir landfestar og siglir út á opið haf og kastar þar út netum. Hver aflinn verður kemur seinna í ljós en vonandi verður trollið fullt. Um borð í togaranum eru 935 nemendur munstraðir í dagskólanum, þar af 123 nýnemar.

Á mánudaginn, 26. ágúst verður fundur með foreldrum nýnema en á föstudaginn kemur, þann 30. ágúst verður haldið upp í nýnemaferð jafnframt sem nemendum og starfsfólki verður boðið upp á grillaðar pylsur.

Lesa meira

9.8.2019 : Haustönnin hefst þann 15. ágúst

Haustönnin hefst þann 15. ágúst en þá opnast stundatöflurnar í INNU. Til að komast inn í INNU þarf annað hvort rafræn skilríki eða Íslykil. Nánari upplýsingar um hvernig hægt er að nálgast rafræn skilríki er á https://www.audkenni.is/ og allt um Íslykil er hér https://innskraning.island.is/order.aspx.

Töflubreytingar verða fimmtudag 15. ágúst kl. 13:00 – 16:00 og föstudag 16. ágúst kl. 10:00 – 15:00. Einnig er hægt að senda beiðni um töflubreytingu á netfangið toflubreytingar@fa.is

Þann 14. ágúst eru á dagskrá fundir nýnema og foreldra þeirra með umsjónarkennurum. Nánari tímasetningar þessara funda eru í bréfi sem foreldrar/forráðamenn nýnema hafa fengið frá skólameistara.

Starfsfólk FÁ hlakkar til haustannar og býður alla nýja og gamla nemendur velkomna til starfa.

Lesa meira

18.6.2019 : Blómatími - sumarlokun frá 24.júní - 7. ágúst

Nú er rólegt og friðsælt í Ármúlaskóla enda flestir úti að anga að sér blómailmi sumarsins. En þrátt fyrir sólartíð er skrifstofan ennþá opin en hún verður LOKUÐ vegna sumarleyfa frá 24.júní til og með 6.ágúst. Skrifstofan verður opnuð aftur miðvikudaginn 7.ágúst kl. 8.00

Lesa meira

24.5.2019 : Gleðilegt sumar! Útskrift vorið 2019

Það var gleðileg athöfn í FÁ þegar 118 nemendur fengu skírteinin sín í hendur og ekki spilli góða veðrið fyrir. Góður rómur var gerður að ræðu 25 ára stúdentsins hennar Söru Daggar Svanhildardóttur og athöfninni var slitið með því að allir, starfsmenn, stúdentar og gestir og gangandi hófu upp raust sína og sungu Sumarkveðju eftir Inga T. Lárusson.

Í útskriftarræðu sinni hvatti Magnús Ingvason, skólameistari Fá nemendur til að einblína á styrkleika sína og vinna í veikleikunum. Ennfremur hvatti hann nemendur til að lifa lífi sem veitti þeim vellíðan og gleði, en ekki lífi sem bara lítur vel út. Lífið þyrfti ekki að vera fullkomið til að vera gott. Loks minnti hann nemendur á að lífinu fylgdi engin fjarstýring - maður þyrfti sjálfur að standa upp og gera hlutina.

Dúx skólans er Ástrós Ögn Ágústsdóttir sem útskrifast af Náttúrufræðibraut með 9,1 í meðaleinkunn.

Á facebook-síðu FÁ má sjá nokkrar myndir frá minnisverðri útskriftinni

Lesa meira

24.5.2019 : Útskrift klukkan 13 í dag

Vorið hefur farið um okkur mildum höndum og vonandi verður sumarið ljúft. Það sama má segja um þá nemendur sem í dag ná mikilsverðum áfanga í lífi sínu þegar þeir kveðja skólann sinn. Vonandi bíður þeirra allra farsælt líf, núna þegar ævisumar þeirra er að byrja.

Í dag útskrifast frá skólanum 118 nemendur og þar af 9 af tveimur brautum. 38 nemendur útskrifast af heilbrigðissviði, sem skiptast svo eftir námsbrautum: 4 útskrifast sem heilsunuddarar, 3 sem læknaritar, 2 sem lyfjatæknar, 10 sem tanntæknar og loks 19 sem sjúkraliðar. Frá nýsköpunar og listabraut útskrifast 4 nemendur. Stúdentar eru 75. 28 útskrifast af félagsfræðibraut, af náttúrufræðibraut útskrifast 13, af hugvísinda- og málabraut 9, af viðskipta- og hagfræðibraut útskrifast 6 og með viðbótarnám til stúdentsprófs að loknu starfsnámi 19. Til viðbótar þessu útskrifast 9 nemendur af sérnámsbraut.

Lesa meira

21.5.2019 : Fjarnám FÁ fær gæðastimpil frá iCert

Í dag var skólanum formlega afhent vottunarskjal vegna gæðavottunar fjarnámsins. Það er vottunarstofan iCert sem er vottunaraðili og afhenti skólanum skjalið. Fjarnámið uppfyllir kröfur sem tilgreindar eru í staðlinum ÍST EN ISO 9001:2015.

Fjarnám FÁ er eina vottaða fjarnámið sem stundað er á Íslandi, en þetta ferli hefur tekið nánast 7 mánuði og margir lagt hönd á plóg. Öllum þeim eru færðar miklar þakkir.

Skráning í sumarönn fjarnáms FÁ hefst þann 25. maí.

Lesa meira

16.5.2019 : FÁ er "Stofnun ársins 2019."

Fjölbrautaskólinn við Ármúla í 3. sæti í könnuninni Stofnun ársins 2019 og er það allnokkuð að fá bronsið í þessari könnun.
Alls voru 82 stofnanir í sama keppnisflokki og FÁ, þ.e.a.s. stofnanir með 50 starfsmenn eða fleiri.
Þegar litið er á einstaka flokka kemur m.a. í ljós að FÁ er talinn hafa besta Starfsandi allra stofnana. Einnig er eftirtektarvert að FÁ lenti í efsta sæti í flokkunum Ánægju og Stolti og Jafnrétti.

Það er von allra sem starfa við skólann að FÁ standi á verðlaunapalli um ókomin ár. Til hamingju FÁ með þennan glæsta árangur. FÁ er réttnefnd Fyrirmyndarstofnun ársins 2019.

Lesa meira

10.5.2019 : Rúsínan í pylsuendanum

Í gær var öllum í skólanum boðið í pylsu með öllu í tilefni kennsluloka. Og í dag var síðasti kennsludagur - og allir pínuglaðir - hver hefði trúað því í janúar að þessi dagur rynni upp? En rúsínan í pylsuendanum er samt ekki gleypt því enn eru eftir nokkrir prófdagar en þeir líða eins og annað. Allt hefur sinn tíma, að borða pylsu hefur sinn tíma og að taka próf hefur sinn tíma. Og svo kemur sumarið fagnandi og alltelskandi sólin!

Lesa meira

7.5.2019 : Hjólað í skólann 8.-28.maí

Á morgun, 8. maí, hefst vinnustaðakeppnin „Hjólað í vinnuna“ og er markmiðið með þessari keppni að fásem flesta starfsmenn skólans til að koma hjólandi, gangandi eða hlaupandi í vinnuna en líka má nýta sér línuskauta/hjólabretti eða láta strætó um að skutla sér í vinnuna. Keppninni lýkur þriðjudaginn 28. maí.

Hægt er að skrá sig á : http://www.hjoladivinnuna.is
Þar er fyrst valinn vinnustaður (Fjölbrautaskólann við Ármúla) og lið – eða stofna nýtt lið.

Búið er að stofna tvö lið „Alltaf með vindinn í bakið“ og „Gúmmíbirnir“.
Liðin keppa sín á milli um hjólaða kílómetra. Í tilefni þess að vinnustaðakeppnin Hjólað í vinnuna 2019 hefst á morgun, ætlum við að bjóða til samstigs á hjólhestum síðasta kennsludaginn, föstudaginn 10. maí. Lagt verður upp frá skólanum kl. 14.15 og stiginn hringur um Vesturbæinn og Seltjarnarnes og áð á Nauthóli.

Lesa meira

3.5.2019 : Dimission kl. 10:20 í dag

Í dag ætla útskriftarnemendur á stúdentsbrautum að dimmitera. Samkvæmt hefðinni munu útskriftarefnin kveðja kennara og starfsfólk inni á Sal klukkan klukkan 10:20 og því engin kennslustund eftir kaffihléð. Nemendur eru hvattir til þess að fylla salinn og samfagna þem sem eru að kveðja skólann. Gaman, gaman.

Lesa meira

2.5.2019 : Fimm fræknu.... ungir frumkvöðlar vinna til verðlauna

Þessi frækni hópur FÁ-nema hlaut verðlaun fyrir bestu fjármálalausnina á uppskeruhátíð Fyrirtækjasmiðju ungra frumkvöðla. 120 fjölbreytt nýsköpunarverkefni kepptu til verðlauna en liðið sem kallast "Ungdómur" hefur unnið baki brotnu í vetur við að útfæra verkefnið sitt sem snýr að fjármálafræðslu fyrir ungt fólk. Sannarlega verðugt verkefni og frábær árangur hjá þeim Eggerti Unnari Snæþórssyni, Gunnlaugi Jóhanni Björnssyni, Halldóri Degi Jósefssyni og Vilhjálmi Kaldal Sigurðssyni sem eru á myndinni en Igor Silva Ducamp sem líka tók þátt í verkefninu vantar á myndina.

Lesa meira

29.4.2019 : Velkomin aftur

Nú er löngu páskafríi lokið og skólastarf hefst að nýju. Það er um að gera að nota þá fáu daga sem eftir eru til þess að undirbúa sig fyrir prófin sem hefjast þegar þann 13. maí, en síðasti kennsludagur er þann 10. Það eru því ekki margir dagar framundan til þess að reka smiðshöggið á önnina. Um að gera að nota þá daga vel. Á föstudaginn kemur verður dimission, einn árgangur að kveðja en nýr kemur í hans stað. Þannig er hringrás daganna, þeir koma og fara með ógnarhraða eins og borðtenniskúla í hörkuleik.

Lesa meira

13.4.2019 : Gleðilega páska

Nú er kyrrð og nú er friður yfir skólanum enda komið páskafrí og allir vel að því komnir. Önnin hefur verið löng, en vonandi ekki of strembin. Eftir páska tekur svo við lokaleikurinn og vonandi endar hann vel hjá öllum.
Frá og með 15. apríl fram til 29. apríl verður skrifstofa FÁ lokuð. Gleðilega páska, öllsömul.

Lesa meira

10.4.2019 : Nú er kátt í höllinni!

Í dag lýkur Alþjóðaviku FÁ og af því tilefni er blásið til heljarinnar veislu. Það verður söngur, gleði, dans og tónlist að ógleymdum mat frá ýmsum heimshornum sem nokkrir veitingastaðir ætla að elda handa okkur - ókeypis. 
Engin veisla án góðra gesta. Eliza forsetafrú ætlar að heiðra samkomuna og einnig okkar fyrrverandi nemandi Sanna borgarfulltrúi og Tanja frá deCODE, allt konur sem hafa náð langt á sínu sviði. Ekki má gleyma því að fjölmiðlar verða á staðnum og því um að gera að koma vel greiddur og sætur í skólann. 
Veislan byrjar á slaginu tólf og vonandi sjá allir sér fært að taka þátt í gleðinni. FÁ er skóli fjölbreytileikans!

Lesa meira

8.4.2019 : Alþjóðavika í FÁ 8.-11. apríl

FÁ er kominn í alþjóðlegan búning fyrir Alþjóðavikuna sem hefst í dag en tilgangur vikunnar er að beina ljósinu á stöðu erlendra nema og hversu fallega fjölbreyttur skólinn er. Alþjóðlega nemendaráðið hvetur starfsfólk til að taka þátt í dagskránni sem er bæði fróðleg og skemmtileg. Í dag, mánudag - kl. 12:30 í fyrirlestrasal, ætlar Hildur Björgvinsdóttir, framkvæmdastýra SÍF að kynna stöðu erlendra nema á Íslandi.....sjá nánar hér.

Lesa meira

4.4.2019 : Fyrirtækjasmiða ungra frumkvöðla

Á morgun föstudag 5. apríl og laugardaginn 6. apríl, munu um 550 ungir frumkvöðlar frá 13 framhaldsskólum kynna og selja vörur sínar á Vörumessu Ungra frumkvöðla í Smáralindinni. Alls eru þarna á ferðinni 120 nýstofnuð fyrirtæki og þar af eru fjögur þeirra stofnuð í skólanum okkar. Það verður gaman að mæta í Smáralindina um helgina og sjá hverju nemendur okkar hafa fundið upp á í þessum málum. Frumkvæði, frumleiki, sköpun, ....

Lesa meira

30.3.2019 : Enginn má missa af Ólympus

Söngleikurinn Ólympus var frumsýndur í gær fyrir fullu húsi og var vel fagnað enda á ferðinni bráðskemmtilegur leikur og allir leikarar og hljóðfæraleikarar stóðu sig með mikilli prýði. Sem betur fer verður Ólympus sýndur aftur i kvöld klukkan 20 og ef einhverjir komast ekki þá, er tækifæri til þess að sjá þennan bráðskemmtilega söngleik á sunnudaginn en þá verða tvær sýningar, sú fyrri klukkan 14 en seinni klukkan 20.

Miðaverð er 1.500 krónur en 1000 krónur fyrir starfsmenn og nemendur í NFFÁ. facebook - myndir

Lesa meira

28.3.2019 : Upp skal halda á hæsta tind...

Laugardaginn 30. mars er ætlunin að nokkrir fræknir nemendur gangi á Móskarðshnjúka. Lagt verður af stað frá FÁ stundvíslega kl 9:00 og stefnt á að vera komin í bæinn um kl 14:00.
Þetta er um 8 km löng ganga en þar sem veðurspáin er góð, gæti gangan hæglega orðið lengri.

Skráið ykkur í tíma, seinast var uppselt í rútuna.

Fjallganga eftir Tómas Guðmundsson:

I
Urð og grjót.
Upp í mót.
Ekkert nema urð og grjót.
Klífa skriður...

Lesa meira

25.3.2019 : Ólympus - frumsýning á föstudag

Nú styttist í að gamansöngleikurinn Ólympus - Leikur að fólki, verði frumsýndur en frumsýningin verður núna á föstudaginn 29. mars í sal Fjölbrautaskólans við Ármúla. Verkið gerist í Grikklandi árið 390 f.kr. Þegar Seifur, æðsti guðinn á Ólympus, ákveður að skella sér í frí með eiginkonu sinni Heru, efnir hann til keppni milli guðanna til að ákveða hver skal taka við völdum í fráveru hans. Systkinin Artemis, Aþena, Díónýsus og Afródíta þurfa að fara niður á jörðu og keppast um hylli ungs pilts til að hreppa hásætið á Ólympus. Þau beita ýmsum klækjum til að snúa örlögunum sér í vil en það er síður en svo auðvelt að sigra þegar þau mega ekki gera það sem þau gera best - svindla og skemma hvert fyrir öðru...sjá meir.

Lesa meira
Síða 1 af 5